Umsögn Landverndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla), 342. mál. send Nefndarsviði Alþingis 3. febrúar 2021.
Stjórn Landverndar hefur því miður ekki náð að kynna sér þetta mál til hlítar vegna mikilla anna.
Stjórnin vill þó benda á að í frumvarpinu eru umhverfis- og náttúruverndarsamtök ekki tilgreind sem almannaheillafélög. Landvernd telur þetta vera alvarlegan ágalla á lögunum og telur brýnt að efnahags- og viðskiptanefnd leiðrétti þetta.
Náttúru- og umhverfisverndarsamtök sannarlega talsmaður almannaheilla
Náttúru- og umhverfisverndarsamtök eru oft eini talsmaður náttúrunnar, sjálfbærrar þróunar og verndar umhverfisins. Eins og nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd er vafalaust öllum ljóst stendur mannkynið mjög illa hvað varðar risastór umhverfisverndarmál eins og losun gróðurhúsalofttegunda, eyðingu búsvæða, tap á líffræðilegri fjölbreytni og útdauða tegunda. Almenningur er sá sem hlýtur skaðann af því að ekki er brugðist við þessum málum.
Almenningur hefur jafnframt ótvíræðan hag af því að mótvægi finnist við stóra framkvæmdaraðila sem menga náttúru og umhverfi eða raska lítt spilltri náttúru sem almenningur nýtir. Störf umhverfisverndarsamtaka eru oft torvelduð svo mjög að um það hefur verið gerður sérstakur alþjóðlegur samningur, Árósasamingurinn sem Ísland er aðili að. Það væri mikil synd ef íslensk stjórnvöld standi að því að torvelda fjármögnun slíkra samtaka umfram önnur.
Landvernd leggur því til að 1. gr. frumvarpsins hljómi svo (feitletranir eru breytingar Landverndar):
„Eftirfarandi breytingar verða á 4. tölul. 4. gr. laganna:
a. Í stað orðsins ,,almenningsheilla“ kemur: almannaheilla.
b. Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eftirtalin starfsemi telst til almannaheilla samkvæmt töluliðnum:
- a. mannúðar- og líknarstarfsemi,
- b. æskulýðs- og menningarmálastarfsemi, þ.m.t. íþróttastarfsemi,
- c. starfsemi björgunarsveita, landssamtaka björgunarsveita og slysavarnadeilda og einstakra félagseininga sem starfa undir merkjum samtakanna,
- d. starfssemi tengd náttúru- og umhverfisvernd
– e. vísindaleg rannsóknarstarfsemi,
– f. starfsemi sjálfstæðra háskólasjóða og annarra menntasjóða,-
– g. neytenda- og forvarnarstarfsemi og
– h. starfsemi Þjóðkirkjunnar, þjóðkirkjusafnaða og annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Landverndar
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri