Urriðaá. Smávirkjanir geta valdið miklum óafturkræfum umhverfisspjöllum

Umsögn: Óafturkræf umhverfisáhrif “smá”virkjana geta verið veruleg

Svokallaðar smávirkjanir geta haft mjög alvarleg og óafturkræf umhverfisáhrif í för með sér og full ástæða til þess að fara varlega við leyfisveitingar.

Umsögn Landverndar um tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir, 238. mál send nefndarsviði Alþingis þann 27. nóvember 2020.

Stjórn Landverndar sendi inn umsögn um sama mál þegar það var lagt fram í fyrra. Hér eru þær ábendingar sem þar komu fram ítrekaðar auk viðbóta.

 

Stjórn Landverndar bendir á að nú þegar er starfandi hópur á vegum umhverfis- og auðlindaráðherra sem hefur það hlutverk að skoða heildstætt lög um mat á umhverfisáhrifum og tengda löggjöf. Hópurinn tók til starfa í byrjun árs 2019. Það er skilningur stjórnar Landverndar að sú endurskoðun á lögum, sem lögð er til í ofangreindri tillögu, falli undir starfshóp umhverfisráðherra um heildarendurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í þeim hópi á atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið fulltrúa og stjórn Landverndar ítrekar fyrri tillögu sína að honum verði falið að koma þeim sjónarmiðum sem fram koma í greinagerð með ofangreindri tillögu á framfæri í starfshópnum. Sjálfsagt er gagnlegt að skoða vel hvort sú leið sem Norðmenn hafa valið, og vísað er til í greinargerð við tillöguna, hafi reynst vel og falli að íslenskum aðstæðum.

 

Stjórn Landverndar vill vekja athygli á því að svokallaðar smávirkjanir geta haft mjög alvarleg og óafturkræf umhverfisáhrif í för með sér og full ástæða til þess að fara varlega við leyfisveitingar. Í því sambandi er rétt að benda á mörg dæmi um fyrirhugaðar virkjanir með áætlað afl upp á 9,9 MW. Virkjanaraðilar kynna virkjanakosti upp á 9,9 MW þannig að þeir falli ekki undir lög um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 (sk. rammaáætlun) en stefna leynt og ljóst að stækkun virkjunarinnar og stilla áformum sínum þannig upp óháð raunverulegu afli virkjunarinnar. Dæmi um þetta eru Brúarvirkjun, Hagavatnsvirkjun og virkjun Hverfisfljóts við Hnútu. Hagavatnsvirkjun upp á 20 MW er í biðflokki rammaáætlunar 3 en Orkustofnun hefur veitt rannsóknarleyfi fyrir því að skoða virkjun upp á 9,9 MW (sjá til dæmis góða umfjöllun Kjarnans um málið Þarna er um að ræða sömu framkvæmd, sömu umhverfisáhrif en með aðstoð Orkustofnunar reynir framkvæmdaraðili að komast hjá mati rammaáætlunar á virkjunarkostinum. Sama er að segja um Hnútuvirkjun en í áliti Skipulagsstofnunar á þeirri framkvmd segir:

„Allir virkjunarkostir, 10 MW og stærri, sæta heildstæðri greiningu og mati verkefnisstjórnar rammaáætlunar samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Eins og greint er frá að framan var sú virkjun sem hér er til umfjöllunar upphaflega áformuð allt að 15 MW, en var síðar útfærð sem 9,3 MW virkjun. Í rammaáætlun fer fram mikilvæg greining og samanburður á fýsileika ólíkra virkjunarkosta á víðum grundvelli. Sú framkvæmd sem hér er til umfjöllunar og forsaga hennar sýna veikleika þess að miða við uppsett afl sem viðmið um það hvaða framkvæmdir skulu teknar fyrir í rammaáætlun. Umfang fyrirhugaðar 9,3 MW virkjunar í Hverfisfljóti er að mestu sambærilegt fyrri áformum um 15 MW virkjun. Um er að ræða framkvæmd sem mun að mati Skipulagsstofnunar hafa verulega neikvæð umhverfisáhrif og tilefni hefði verið til að meta með öðrum virkjunarkostum í rammaáætlun.“

Hér tekur Skipulagsstofnun undir þau sjónarmið að umhverfisáhrif af smávikjunum geti verið veruleg og að í sumum tilvikum sé eðlilegt að skilyrði í kringum þær séu hert þannig að þær séu metnar í rammaáætlun.

 

Landvernd telur 10 MW viðmiðið bæði vera of hátt og misheppnað enda hafa virkjunaraðilar og Orkustofnun sýnt að þau reyna að víkja sér undan eðlilegum farvegi fyrir stærri virkjunarframkvæmdir með því að kalla þær smávirkjanir eins og dæmið um Hagavatnsvirkjun og virkjun við Hnútu sýna. Finna verður lausn á þessu svo bæði viðkomandi stjórnsýslustofnun og virkjunaraðili fari ekki bæði leynt og ljóst framhjá þessu ákvæði.

 

Þá er nauðsynlegt að halda því til haga að umhverfismat er ekki óþægilegt formsatriði sem þarf að afgreiða heldur er það nauðsynlegur hluti af yfirvegaðri og faglegri ákvarðanatöku með aðkomu almennings um okkar verðmætustu auðlindir og áhrifin af nýtingu þeirra. Of mörg dæmi eru um að niðurstaða mats á umhverfisáhrifum sé léttvæg metin þegar kemur að því að taka endanlega ákvörðun um framkvæmdir.

 

Að lokum ítrekar stjórn Landverndar þá skoðun sína að þessi tillaga eigi heima hjá starfshópi umhverfis- og auðlindaráðherra um heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum.

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Landverndar

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri

Óboðlegt sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Landvernd skilaði umsögn um rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis Kaldvíkur hf. í Seyðisfirði með allt að 10.000 tonna hámarkslífmassa af laxi. Umhverfisáhrif af opnu sjókvíaeldi eru mikil, ...
Lesa meira

Umsögn Landverndar um fimm virkjanakosti rammáætlunar

Það er áhyggjuefni að fjórir af fimm virkjanakostum hafi verið settir í nýtingarflokk, sérstaklega í ljósi þess að varúðarnálgun var ekki beitt sem skyldi.
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Óboðlegt sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Landvernd skilaði umsögn um rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis Kaldvíkur hf. í Seyðisfirði með allt að 10.000 tonna hámarkslífmassa af laxi. Umhverfisáhrif af opnu sjókvíaeldi eru mikil, ...
Lesa meira

Umsögn Landverndar um fimm virkjanakosti rammáætlunar

Það er áhyggjuefni að fjórir af fimm virkjanakostum hafi verið settir í nýtingarflokk, sérstaklega í ljósi þess að varúðarnálgun var ekki beitt sem skyldi.
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.