Nefndarsvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík 12. febrúar 2007
Umsögn Landverndar um frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð.
Frumvarp þetta er gert til góðra mála og er í mörgum greinum mjög vandlega unnið og skynuglega fram sett. Lengi má þó gott bæta og hér að neðan eru athugasemdir þar um. Ábendingarnar varða fyrst og fremst viss grundvallaratriði, einkum í I. kafla frumvarpsins, en einnig ýmis atriði um framkvæmd laganna. Með lagfæringum í samræmi við þær athugasemdir verður að telja, að frumvarp þetta muni horfa mjög til framfara.
Frumvarpið einkennist af framsali valds til ráðherra sem á, skv. frumvarpinu, að fjalla um fjölmörg atriði sem fremur ættu að vera á verksviði Alþingis. Gildissvið þessara tilvonandi laga hefur ekki verið skilgreint í frumvarpinu enda er hér ekki verið að stofna þjóðgarð heldur veita umhverfisráðherra heimild til friðlýsingar.
Nái frumvarpið óbreytt fram að ganga yrði stjórnsýsla þjóðgarðsins afar þung í vöfum. Umfangsmikil nefndarstörf þar sem vægi sveitarfélaga yrði of mikið setur svip sinn á frumvarpið umfram það sem venja er við stofnun þjóðgarða. Hér er um þjóðgarð en ekki héraðsgarða að ræða og umsýsla þjóðgarði á að sjálfsögðu að vera á forræði ríkisstjórnar í ríkari mæli en hér er gert ráð fyrir í frumvarpinu.
Í 19. grein er frjálsum félagasamtökum veitt aðildarheimild að stjórnsýslukærum. Almenningi er, að því er virðist, ekki heimilt að kæra innan stjórnsýslunnar. Þetta er ankannalegt þar sem skýrt kemur fram í markmiðum frumvarpsins að málefni verðandi þjóðgarðs varða almenning, „ Markmiðið […] og gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess og sögu. Auðvelda skal almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt er […]„ Landvernd beinir því til stjórnvalda að endurskoða þessa afstöðu og hafa heimildir almennings og frjálsra félagasamtaka í samræmi við það sem gert er ráð fyrir í Árósarsamningnum sem íslensk stjórnvöld undirgengust 1998 en hafa enn ekki fullgilt. Á það jafnt við um kærurétt innan stjórnsýslunnar sem og aðra aðkomu og kærurétt á dómsstigi.
Með vinsemd og virðingu,
Bergur Sigurðsson,
framkvæmdastjóri Landverndar