Umsögn Landverndar um Mál nr. S-111/2019 Verkefni nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu
Landvernd lýsir fullum stuðningi við áform um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands og telur starfshópinn sem vinnur að því verki hafa unnið gott starf. Þjóðgarður á miðhálendinu er í samræmi við stefnu samtakana, sjá til dæmis ályktun frá aðalfundi samtakana 2012.
Landvernd hvetur starfshópinn til dáða og væntir mikils af þeim niðurstöðum sem hann væntanlega skilar á þessu ári. Þess er vænst að stofnun þjóðgarðsins verði að veruleika á næstu árum og væri slíkt myndarlegt framlag Íslendinga til verndar ósnortinnar náttúru hálendisins og varðveislu víðerna heimsins.
Þær tillögur að helstu áherslum sem hér liggja frammi til umsagnar eru mjög jákvæðar og má ljúka lofsorði á þá áherslu sem lögð hefur verið á að vinna að framgangi málsins í samvinnu við sem flesta sem málið varðar.
Rétt er samt að drepa á nokkur atriði sem stjórn Landverndar telur verð umhugsunar:
Almannaréttur
Í kafla sem fjallar um aðgengi og almannarétt er sjálfsagt að taka undir að útivistarfólk geti nýtt hálendið til útivistar þar sem því verður við komið með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Lögð er áhersla á að leita samráðs við þá aðila sem nú nýta hálendið í slíkum tilgangi.
Rétt er að hafa í huga í þessu samhengi að eðli málsins samkvæmt er þjóðgarður stofnaður með hagsmuni náttúruverndar að leiðarljósi og starf slíks þjóðgarðs hlýtur því að vera að vernda með eðlilegum ráðum þá náttúru sem garðurinn er stofnaður til að vernda.
Óhjákvæmilegt er því að á einhverjum svæðum innan garðsins geti orðið breytingar á aðgengi/umferð eftir aðstæðum hverju sinni háð verndargildi þeirra svæða sem um ræðir.
Þótt rætt sé um samráð við þá aðila sem nú stunda hálendisferðir skal varað við því að laða menn til fylgis við hugmyndina um þjóðgarð á þeim forsendum að óbreytt ástand muni ríkja á hálendinu eftir stofnun garðsins. Þetta er brýnt að hafa í huga þegar litið er til framtíðar og má hér horfa til reynslunnar af Vatnajökulsþjóðgarði. Stofnun hans hafði í för með sér skert aðgengi fyrir einstaka hópa á ýmsum svæðum og eimir örlítið enn eftir af deilum vegna þess.
Nitjaréttur
Hið sama gildir um kaflann þar sem fjallað er um nytjarétt á hálendinu. Þar virðist nefndin telja brýnt að tilkoma þjóðgarðs skerði ekki sjálfbærar hefðbundnar nytjar s.s. beitarnýtingu og veiði. Þarna er orðið sjálfbært í lykilhlutverki. Varla verður deilt um að á tilteknum svæðum á hálendinu hefur fram til þessa verið stundaður upprekstur og beit sem ekki getur talist sjálfbær og á því hljóta að verða breytingar.
Samgöngur
Í kaflanum um samgöngur er talað um mikilvægi aðgengis og má vel taka undir það en þó með áþekkum fyrirvörum og nefnd eru hér á undan. Víða á hálendinu er að finna net slóða sem í mörgum tilvikum verður ekki séð að hafi neinn sérstakan tilgang. Sú stjórnun sem óhjákvæmilega fylgir þjóðgarði mun væntanlega hafa vald til þess að nýta “vegakerfi” hálendisins til þess að stýra umferð og álagi. Slíkri stjórnun munu fylgja breytingar sem alls ekki þurfa að skerða samgöngur eða aðgengi.
Lokaorð
Að þessu sögðu skal starfshópurinn hvattur til þess að ljúka þessu þjóðþrifaverki sem allra fyrst því raunverulega umræður geta varla farið fram fyrr en mótaðar tillögur og ásetningur stjórnvalda liggur fyrir.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Landverndar,
Auður Önnu Magnúsdóttir
framkvæmdastjóri