200 MW vindorkuver á Melrakkasléttu ekki tímabært.
Umsögn Landverndar um drög að tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum allt að 200 MW vindorkuvers að Hnotasteini send EFLU verkfræðiskrifstofu 16. nóvember 2020.
Stjórn Landverndar hefur kynnt sér ofangreinda tillögu og gerir hér almennar athugasemdir. Megin sjónarmið Landverndar er að farið verði að lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun við undirbúning að vindorkuverum. Þá áskilja samtökin sér eftir atvikum rétt til að leita til dómsstóla um lögmæti þess ferlis boðað er með tillögu að matsáætlun.
Aðrar athugasemdir eru fyrst og fremst almenns eðlis og ekki tæmandi. Ef til kemur boðar Landvernd frekari athugasemdir á síðari stigum umhverfismatsferlisins. Þá vill stjórn Landverndar benda á rit samtakanna sem kom út í janúar 2018 þar sem finna má gátlista fyrir sveitarstjórnir vegna vindorkuvera og lista yfir þau svæði sem Landvernd telur að ætti ekki að reisa vindmyllur á (sjá leiðbeiningarrit Landverndar um vindorkuver á Íslandi).
Í upphafi skal endinn skoða
Landvernd telur að markmið framkvæmdanna byggi á veikum grunni, svo vægt sé til orða tekið. Eins og staðan er í dag eru mjög litlar líkur á aukinni orkuþörf á Íslandi á komandi árum. Hver er það sem á að kaupa þá orku sem vindorkuverið framleiðir?
Landvernd benti á í umsögnum um Kerfisáætlun Landsnets 2020-2029 að miklar líkur eru á að töluverður hluti raforku sem seldur er á Íslandi dragist saman á næstu árum frekar en að hann aukist. Sömu viðhorf koma fram í viðtali við Bjarna Bjarnason forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirhugaður samdráttur Rio Tinto, lokun kísilvera og samdráttur hjá gagnaverum ræður þar mestu. Landvernd hefur einnig ítrekað bent á að raforkuspá er ekki góður grunnur til að áætla orkueftirspurn komandi ára, bæði vegna þess að hún gerir m.a. ráð fyrir allt of mikilli aukningu í stóriðju á Íslandi og því að hún er unnin eingöngu af fulltrúum orkugeirans sem hafa beina hagsmuni af því að spá fyrir um aukna raforkunotkun.
Framkvæmdaaðila er því bent á að ef markmið framkvæmdarinnar er að mæta aukinni orkunotkun á Íslandi er líklega best að salta hugmyndirnar í nokkur ár og bíða þess að um þessar hugmyndir hafi verið fjallað í rammaáætlun.
Rammaáætlun
Stjórnvöld fyrirhuga að gera lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) skýrari þannig að ekki verði neinum vafa undirorpið að vindorkuver falla undir lögin. Áhrif vindorkuvera á land eru óumdeild, þeim fylgir feiknamikið jarðrask þar sem gera þarf vegi, undirstöður og kranapall við hverja myllu. Því er það útúrsnúningur þegar talað er um að lög um um verndar- og orkunýtingaráætlun eigi ekki við um vindorkuver vegna þess að vindurinn, ekki landið, er virkjaður.
Stjórn Landverndar telur að tillögu um vindorkuver að Hnotasteini beri að meta á grundvelli laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Rammaáætlun nær til landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti til orkuvinnslu, jafnt innan eignarlanda sem þjóðlenda, og metið er hvort beri að friðlýsa svæði gagnvart vinnslu eða kanna frekar. Andi og tilgangur laganna er skýr; allar virkjanahugmyndir sem fara yfir tiltekin stærðarmörk bera að meta í rammaáætlun áður en lengra er haldið í ákvörðunarferlinu. Rammaáætlun var komið á laggirnar til að fá vandaðri umfjöllum og betri yfirsýn yfir virkjunarhugmyndir, og flokka eftir áhrifum og gæðum ganga. Eitt markmið hennar var að stuðla að ríkari sátt í samfélaginu um virkjanir. Þess eru of mörg dæmi að reynt sé með lagaflækjum og rangfærslum að komast hjá þessu grundvallar atriði. Vindorkuver á Hnotasteini hefur ekki verið tekið til mats í rammaáætlun.
Stjórn Landverndar telur því algjörlega ótímabært að hefja undirbúning að mati á umhverfisáhrifum á grundvelli framlagðar tímaáætlunar og hvetur alla viðkomandi aðila til að halda að sér höndum þar til hugmyndin hefur verið lögð fram, metin og raðað á grundvelli laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ekki er raforkuskortur í landinu og því kalla ekki brýnir hagsmunir á framleiðslu á frekari raforku.
Stjórn Landverndar hvetur viðkomandi aðila að leggja ekki í kostnaðarsamt og umdeilt mat á umhverfisáhrifum fyrr en niðurstaða rammaáætlunar um mat og röðun á vindorkuverinu liggur fyrir. Leiði matið til þess að vindorkuverið falli í nýtingarflokk horfið málið öðruvísi við.
Rétt er að taka fram að verði ekki farið að lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun við undirbúning að vindorkuverum áskilja samtökin sér eftir atvikum rétt til að leita til dómstóla um lögmæti þess.
Hér á eftir fara nokkur almenn atriði um framangreinda framkvæmd.
Jarðrask og efnistaka
Vindorkuverum af þessari stærðargráðu fylgir feiknamikið jarðrask þar sem gera þarf vegi, undirstöður og kranapall við hverja myllu. Að sama skapi krefjast þau gríðarlegrar efnistöku, minnst hálf milljón rúmmetra í þessu tilviki. Í matsáætlun verður að koma skýrt fram hvaðan efnið á að koma og að meta þarf umhverfisáhrif af efnistökunni. Einnig þarf að meta áhrif jarðrasks af undirstöðum, kranapöllum, vegum og raflínulögnum.
Gróður og jarðvegur
Með það í huga hversu mikil áhrif vindorkuver hafa á landið og þar með á gróður- og jarðvegsauðlindirnar verður mat á þeim að vera hið minnsta jafnumfangsmikið og ef um jarðvarma- eða vatnsaflsvirkjun sé að ræða. Þetta sést til dæmis í matsskýrslu fyrir Búrfellslund þar sem segir:
„Landgræðslan leggur þunga áherslu á að nákvæm grein verði gerð fyrir því hve mikið gróið land muni fara undir fyrirhugaðar framkvæmdir, hvort sem er myllustæði, slóðar, raflínur eða hvers konar jarðvegsrask annað, enda mun Landgræðslan gera skýlausa kröfu um að sá gróður sem kann að tapast við þessar framkvæmdir, verði að fullu bættur, einnig þó einhverjum kunni að þykja hann síður náttúrufarslega verðmætur.“
Áhrif á fugla
Þar sem áhrif vindorkuvera á fuglalíf geta verið mjög alvarleg, er eðlilegt að gera mjög nákvæma skoðun á hegðun og umferð fugla um áhrifasvæði framkvæmdarinnar. Ekki er nóg að meta hvort áhrifin verði það alvarleg að stofnstærðir séu í hættu, meta þarf nákvæmlega hversu víðtæk áhrif vindmillur hafi á fuglalíf og af hvaða tegundum fuglarnir eru.
Útivist og ferðaþjónusta
Landvernd telur mjög brýnt að áhrif framkvæmdanna á útivist og ferðaþjónustu verði metnir. Sjónrænna áhrifa af vindmyllunum mun gæta víða að og hafa þannig áhrif á ferðaþjónustu og skerða gæði útivistar á svæðinu. Orð orkumálastjóra í fréttum nýlega þess efnis að vindmyllur séu byggingar sambærilegar við súrheysturna bendir til þess að sú stofnun búi ekki yfir nægjanlegri þekkingu á þessu sviði.
Áhrif á loftslag og raflínur
Meta þarf losun gróðurhúsalofttegunda í tengslum við framkvæmdina og loftslagsáhrif á rekstrartíma. Meta þarf umhverfisáhrif rafmagnslína sem tengjast vindorkuverinu samhliða.
Lokaorð
Markmið framkvæmdanna byggir á hæpnum forsendum þar sem útlit er fyrir mikla lausa raforku í kerfinu á næstu árum og vindorkuverið hefur ekki verið sett í nýtingarflokk skv. lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Stjórn Landverndar ráðleggur þeim sem að málinu standa, og sérstaklega Skipulagsstofnun sem ber ábyrgð á stjórnsýslu matsins, að leggja málið til hliðar að sinni. Það mun að öllum líkindum spara fjármagn og koma í veg fyrir óþarfa deilur.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Landverndar
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri
Ljósmynd: Naustárfoss í Öxarfirði. Bromr. CC BY-SA 3.0