Vestur-Reykjadalir eru hverasvæði í um 800-900 m hæð í vestanverðri Torfajökulsöskjunni. Þar má finna kröftuga gufuhveri, leirhveri, soðpönnur og vatnspytti en einnig setja móbergshryggir og litríkt líparít svip sinn á svæðið. Á Torfajökulsvæðinu er jarðhita helst að finna í sjö þyrpingum, þ.e. við Landmannalaugar, Blautukvísl, Vestur- og Austur- Reykjadali, Ljósártungur, Jökultungur og Kaldaklof. Ná jarðhiti og jarðhitamerki á svæðinu yfir um 200 km2 svæði, en eru öll svæðin í Friðlandi að fjallabaki utan laga um verndar-og orkunýtingaráætlun. Ekki stendur til að virkja á svæðinu.