Yfirlýsing í kjölfar fyrstu hnattrænu stöðutöku Parísarsáttmálans á COP28
Landvernd fagnar því að samkomulag hafi náðst. Sögulegt er að fjallað sé um jarðefnaeldsneyti og að frá því þurfi að hverfa. Landvernd telur jafnframt að orðalagið hefði þurft að ganga lengra. Í þeirri setningu sem fjallar um jarðefnaeldsneyti er talað um að færa sig frá jarðefnaeldsneyti á hraðan en jafnframt réttlátan hátt.
Ekki er tilgreint hvenær notkun jarðefnaeldsneytis skuli hætt heldur er talað um kolefnishlutleysi 2050. Ekki er rætt um sérstaka ábyrgð framleiðenda á jarðefnaeldsneyti heldur er hverri þjóð fyrir sig gert að uppfæra sínar áætlanir til samræmis við stöðutökuna. Því geta olíuríkin enn túlkað textann á þann hátt að framleiðsla jarðefnaeldsneytis geti haldið áfram á meðan eftirspurn gætir.
Mjög gleðilegt er að sjá í stöðutökunni að áhersla er lögð á varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika og náttúrumiðaðar lausnir. Er þar vísað til samnings undir rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni frá 2022 sem nefnist Kunming-Montréal samningurinn og Ísland er aðili að.
Yfirlýsingin er skref í rétta átt en tími smárra skrefa í rétta átt er löngu liðinn. Því er eðlilegt að öll þau ríki sem þrýstu á að yfirlýsingin gengi lengra snúi nú hvert til síns heima og láti verkin tala, þar er Ísland á meðal. Enn er beðið eftir uppfærðri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum en markmið Íslands voru uppfærð árið 2020 og því löngu orðið tímabært að sú aðgerðaáætlun líti dagsins ljós.