Stefnumótunarfundur Landverndar 2022

Stefnumótunarfundur - mynd - fjöll í forgrunni
Stefnumótunarfundur - mynd - fjöll í forgrunni
Á þriggja ára fresti hittast félagar í Landvernd til að móta stefnu samtakanna næstu ára. Laugardaginn 12. mars blæs Landvernd til slíks fundar.

Á þriggja ára fresti hittast félagar í Landvernd til að móta stefnu næstu ára, eins og lög samtakanna kveða á um. Laugardaginn 12. mars blásum við til slíks fundar. Á öllum tímum er mikilvægt að hafa skýra sýn á hvernig og hvert við beinum kröftum okkar því verkefnin eru óteljandi – því miður.
 
Þátttakendur munu vinna saman í litlum hópum undir styrkri leiðsögn Evu Magnúsdóttur stjórnunarráðgjafa, sem stýrir fundinum. Í lok fundar verður sérstakur vinnuhópur myndaður til að annast úrvinnslu á stefnumótunarvinnunni og fullbúa lokatillögur að stefnu til að leggja fyrir næsta aðalfund.
 

Hvenær: Laugardaginn 12. mars 2022 kl. 10:00 – 14:30. 
Hvar: Fundurinn er haldinn í húsnæði ríkissáttasemjara Borgartúni 21 (4. hæð). Aðgengi er gott fyrir hreyfihamlaða.

Dagskrá

Til að taka þátt í þessum mikilvæga viðburði, vinsamlega skráðu þig hér fyrir kl. 17:00 þriðjudaginn 8. mars.

Það er einlæg ósk okkar að sem flestir félagar sjái sér fært að taka þátt því sjaldan hefur verið sótt að íslenskri náttúru af jafn miklum krafti og nú. Gjarnan er sú ásókn undir merkjum breytinga sem við Íslendingar þurfum að horfast í augu við – og bregðast við á tiltölulega skömmum tíma. Við þurfum að stíga stór skref í loftslagsmálum og í átt að sjálfbæru samfélagi en á sama tíma vernda hina verðmætu náttúru sem landið býr yfir. Þetta eru stóru verkefnin sem við blasa, spurningin er hvernig starf Landverndar getur sem best varðað leiðina og stutt við nauðsynlega þróun, með markmið samtakanna að leiðarljósi.

Á aðalfundi Landverndar vorið 2019 var samþykkt stefna þar sem fjögur meginsvið starfsins voru skilgreind og hafa þau verið leiðarljós og meginstef starfs Landverndar síðan:

  • Náttúruvernd
  • Loftslagsmál
  • Sjálfbært samfélag
  • Fræðsla

Hvernig verður kröftum Landverndar best varið næstu árin? Þú getur haft áhrif á það 12. mars.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd