Viðskiptaráð á villigötum

Það þarf kerfisbreytingu og nýja hugsun til að leysa þann vanda sem hefur skapast af sífelldri sókn í meiri orku.
Viðskiptaráð heldur á lofti mikilvægi einkaframtaks í orkumálum og að losa fyrirtækin undan oki skriffinnsku til að flýta fyrir orkuframkvæmdum. Það er hættuspil að sniðganga og gengisfella þær reglur sem eiga að tryggja að nýting orkuauðlinda landsins valdi sem minnstum náttúruspjöllum.

Viðskiptaráð birti nýlega skýrsluna Orkulausnir og þau Elísa Arna Hilmarsdóttir og Gunnar Úlfarsson skrifa um málið í Viðskiptablaðinu.

Fyrirtæki í eigu almennings hafa fram til þessa borið gæfu til að veita Íslendingum hita og rafmagn á hagstæðu verði svo eftir hefur verið tekið. Viðskiptaráð, eins og við var að búast, heldur á lofti mikilvægi einkaframtaks í orkumálum og að losa fyrirtækin undan oki skriffinnsku til að flýta fyrir orkuframkvæmdum.

Ofuráhersla Viðskiptaráðs á orkufreka starfsemi

Ef marka má skýrsluna hefur Viðskiptaráð litla trú á öðrum greinum íslensks atvinnulífs en þeim sem þurfa á mikilli raforku að halda. Viðskiptaráð gefur til kynna að til að tryggja velsæld á Íslandi um langa framtíð verði að liðlega tvöfalda raforkuframleiðslu landsins með því að opna allar dyr fyrir fjárfestum.

Útreikningar Eflu á villigötum

Almennt viðurkenndar hagfræðikenningar virðast miður ekki vera í miklum metum hjá Viðskiptaráði. Er það til að komast að niðurstöðu sem hagsmunaöflun í vissum hluta atvinnulífsins eru þóknanleg?

Í skýrslunni er byggt á útreikningum verkfræðistofunnar Eflu um hagrænan ávinning af því að ríflega tvöfalda framleiðslu raforku á næstu tveimur áratugum.

Útreikningar Eflu standast ekki skoðun eins og Hagfræðistofnun HÍ hefur bent á. Efla beitir þeirri einföldun að reikna ávinning á þeim forsendumn að ef ein atvinnugrein vex ekk þá sé það beint tap fyrir þjóðarbúskapinn. Litið er framhjá ruðningsáhrifum; ef ein atvinnugrein vex ekki skapast meira svigrúm fyrir aðrar atvinnugreinar að nýta fjármagn og vinnuafl.

Tjón á náttúru landsins og víðernum, sem óhjákvæmilega fylgir liðlega tvöföldun á raforkuframleiðslu, er ekki metið til fjár. Ef bæði ruðningsáhrif og tjón á náttúru landsins væru með talin er hugsanlegt að meintur hagrænn ávinningur yrði neikvæður, en ekki í stórum plús eins og segir í skýrslu Viðskiptaráðs. Vinnubrögð af þessu tagi auka ekki traust á Viðskiptaráði og ráðgjafa þess, Eflu. 

Hagsæld á Íslandi hvílir á mörgum stoðum

Undanfarin 10 ár hefur verðmætasköpun í samfélaginu vaxið um 36% skv. upplýsingum Hagstofunnar. Á sama tíma hefur raforkunotkun vaxið um 12 % skv. upplýsingum Orkustofnunar. Þessi aftenging hagvaxtar og raforkunotkunar er staðreynd þrátt fyrir að stjórnvöld, atvinnulífið og orkufyrirtækin hafi látið hjá líða að koma á hvötum og ráðgjöf til að bæta orkunýtni og efla orkusparnað. Það er því greinilega orðum aukið að hagvöxtur og hagsæld á Íslandi byggi á sífellt meiri raforkuframleiðslu. En eitt er víst; aukinni raforkuframleiðslu fylgir alvarleg gengisfelling á íslenskri náttúru og víðernum; fágætum gæðum í mikilli og vaxandi eftirspurn sem eru uppspretta lífsfyllingar og atvinnumöguleika.

Orkusparnaður og betri nýting eru besti virkjanakosturinn

Í samfélagsskýrslu Norðuráls fyrir árið 2021, fyrirtækis sem notar 25% af allri raforku sem framleidd er í landinu, segir að verið sé að fjárfesta í nýrri framleiðslulínu sem notar um 40% minni orku en aðrar framleiðslulínur fyrirtækisins.

Þær góðu fréttir berast frá Landsvirkjun að bæta megi nýtingu nokkurra virkjana umtalsvert án þess að auka vatnsmiðlun með öllum þeim neikvæðu árhrifum sem slíkum framkvæmdum fylgja.

HS-Orka er að auka framleiðslu raforku í tveimur jarðvarmaorkuverum sínum með betri nýtni. Í kerfisáætlun Landsnets eru uppi áform um umtalsverðar bætur í dreifikerfinu sem skapa líka forsendur fyrir minni flutningstöpum og betri nýtni. Orkuskipti og náttúrvernd geta því afskaplega vel farið saman ef rétt er á málum haldið. Hver og einn getur sett inn sínar forsendur og þannig reiknað út framtíðina í orkuskiptahermi Landverndar og orkuskiptahermi Orkustofnunnar.

Röng skilaboð til íslensks atvinnulífs

Því miður virðist sem orkufyrirtækin og samtök í atvinnulífinu geri afar lítið til að leiðbeina íslensku atvinnulífi um orkusparnað og orkunýtni. Þess í stað er lögð ofuráhersla á að ráða starfsmenn sem hafa það hlutverk að sannfæra Íslendinga um að þeir þurfi að tvöfalda raforkuframleiðslu sína. Í PR deildum íslenskra fyrirtækja er mikið að gera og grænþvottur eykst, en lítið ber á auknum umsvifum hjá þeim deildum sem raunverulega er þörf fyrir; deildunum sem vinna að því að bæta sjálfbærni í íslensku atvinnulífi.

Höfnum lukkuriddurum sem skeyta engu um náttúruna

Grænni samgönguinnviði, orkunýtni, orkusparandi aðgerðir og orkuskipti ber að setja í algjöran forgang þar sem þau eru grundvöllur þess að Íslendingar axli ábyrgð í loftslagsmálum.

Það sem Viðskiptaráð kallar hins vegar eftir, er að greiða leið lukkuriddara með hendur fullar fjár svo þeir geti hagnast á kostnað íslenskrar náttúru. Því er nauðsynlegt, eins og bæði OECD og Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðurinn hafa lagt til, að innleiða mengunarbótaregluna við orkuöflun á Íslandi: Sá borgi sem veldur tjóni. Eyðilegging íslenskrar náttúru og víðerna yrði kostnaður sem við veltum yfir á framtíðina. Við þurfum að lifa í þessu landi í satt við komandi kynslóðir og náttúru landsins. Velsæld til langrar framtíðar er í húfi.

Við vitum vel hvernig orkan nýtist best

Það er alkunna að hagkvæmast er að nýta raforku beint með rafhlöðum. Sífellt koma fram nýjar og betri lausnir þannig að við blasir að samgöngur á landi hérlendis geta alfarið gengið fyrir rafmagni með fyrirliggjandi tæknilausnum.

Það er einnig alkunna að mikil orka fer til spillis ef umbreyta á raforku í rafeldsneyti. Eins og staðan er nú eru horfur á að innanlandsflug og strandveiðiflotinn geti innan fyrirsjáanlegrar framtíðar gengið fyrir rafmagni.

Miðað við hve hratt hefur gengið að bæta forsendur fyrir rafdrifnum samgöngum á landi er alls ekki er óhugsandi að innan tveggja ártuga verði tæknilegar forsendur fyrir því að millilandaflug og lengri skipasiglingar gangi beint fyrir raforku. Viðskiptaráð virðist ekki hafa neina trú á slíkum framförum og reiknar því vænta notkun raforku í orkuskipti í topp.

Í orkuskiptahermum Landverndar og Orkustofnunar er auðvelt að sjá hve jákvæð áhrif tækniframfarir geta haft á orkuþörfina.   

Við getum gert svo miklu betur

Eftirspurn eftir ódýrri orku verður alltaf óendanleg. Forgangsröðun og bætt nýtni kemur í veg fyrir orkuskort og hófsemi er dyggð sem ekki má gleymast. Það þarf kerfisbreytingu og nýja hugsun til að leysa þann vanda sem hefur skapast af sífelldri sókn í meiri orku.

Stóriðjan tekur til sín 80% af raforku landsins. Raforkuframleiðsla Íslendinga er sú mesta í heimi miðað við fjölda íbúa en á sama tíma skilar hún fjórðu minnstu landsframleiðslu í heimi pr. orkueiningu. Svigrúmið til að bæta nýtni er veruleg ef marka má sjálfbærniskýrslu Norðuráls og fleiri vísbendingar. Ef hægt er að bæta nýtni raforku í stóriðju skapast stórkostleg tækifæri til orkuskipta án frekari eyðileggingar á náttúru og víðernum landsins.

Verum varfærin – íslensk náttúra er í húfi

Hræðsluáróður um yfirvofandi orkuskort og sviðmyndir sem sýna hömlulausa sókn eftir frekari virkjunum eru ógn við náttúru landsins.

Tilraunir til að sniðganga og gengisfella þær reglur sem eiga að tryggja að nýting orkuauðlinda landsins valdi sem minnstum náttúruspjöllum eru hættuspil. Það er nefnilega nóg til ef skynsemin ræður för! Sýna verður mikla varfærni ef það reynist nauðsynlegt að afla á frekari raforku.

Viðskiptaráð kallar eftir snörum viðbrögðum við meintum orkuskorti. En þá gleymist að afar verðmæt íslensk náttúra og víðerni eru í húfi. Vönduð og fagleg rammaáætlun og marktækt mat á umhverfisáhrifum sem grundvöllur ákvarðanatöku eru verkfærin. Það tekur tíma að beita faglegum og lýðræðislegum vinnubrögðum: Flas er sjaldan til fagnaðar.

Landvernd kallar eftir orkuskiptum sem við getum verið stolt af sem þjóð, að við forðumst  orkuskipti sem setja fjárfesta og ofurvöxt orkugeirans í forgang.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 24. febrúar 2023. 

Goðafoss í Skjálfandafljóti.

Orkuskiptahermir

Skoðaðu orkuskiptahermi Landverndar. Orkuskiptin geta farið fram án þess að eyðileggja einstaka íslenska náttúru.
Opna...

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd