Ekki hugnast öllum að vindmyllur verði settar upp víða um landið, enda muni slíkt móta svipmót þess og valda raski.
Túrbínusvæði verða engir yndisreitir, segir Kristín Helga Gunnarsdóttir og varar við gullgröfurum í vindorkuframleiðslu.

„Gullgrafarar eru mættir og gagnvart þeim ber að standa vörð. Óbyggð heiðalönd sem tekin verða undir vindorkuver fá til framtíðar skilgreiningu sem iðnaðarsvæði og því verður ekki breytt aftur svo glatt. Á Íslandi eru stór ósnortin víðerni sem Íslendingum ber að gæta gagnvart heimsbyggðinni allri,“ segir Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur.

Náttúran tapar á flýtimeðferð

„Sá boðskapur að hraða beri orkuskiptum á Íslandi er ágætur, svo langt sem hann nær. Náttúran hlýtur þó alltaf að tapa á slíkri flýtimeðferð. Endurskipuleggja þarf samfélög út frá því að mannfólkið taki minna til sín af umhverfinu og dragi úr efnishyggju og neyslu. Mannkynið stendur á tímaótum.“

38 verkefni eru til skoðunar

Vindurinn er hvass og deildar meiningar eru um þær hugmyndir sem eru uppi í orkumálum. Sjónir margra hafa beinst að ágæti þess að setja upp vindorkustöðvar og þar er allt landið undir. Skv. svonefndu Náttúrukorti á vef Landverndar eru 38 verkefni til nýtingar vindorku á Íslandi nú til skoðunar hjá erlendum fyrirtækjum sem starfa með Íslendingum.

Alls 27 þessara virkjanakosta eru komnir inn á vef Orkustofnunar sem tillögur í rammaáætlun um orkunýtingu. Samanlagt virkjanlegt afl þessara hugsanlegu virkjana gæti orðið 2.600 megavött hið minnsta; eða nærri því fjórfalt afl Fljótsdalsstöðvar sem aðrir kalla Kárahnjúkavirkjun.

Áætlanir eru til um fjögur vindorkuver í Borgarfirði, það er í Norðurárdal og Þverárhlíð. Einnig um slíkt í Hvalfirði og tvö í Dölunum. Þetta lætur Kristín Helga mjög til sín taka en með fjölskyldu sinni er hún einn eigenda jarðarinnar Króks í Norðurárdal. Þann stað og nærliggjandi svæð segir hún myndu raskast mjög með vindorkuverum. Sveitin yrði ekki söm. Slíkt segist hún ekki geta sætt sig við, enda slái hjarta sitt og hugsjónir með óspilltri náttúru og vernd hennar.

Mótvindur – samtök andstæðinga vindorkuvera

Þá hafa andstæðingar vindorkuvera nú stofnað með sér óformleg samtök sem nefnast Mótvindur og voru sett á laggirnar í september síðastliðnum. Nafnið er táknrænt og segir sitt um starf samtakanna sem nú eru rekin sem umræðuvettvangur á samfélagsmiðlum, hvað sem síðar verður. Baráttan sé rétt að byrja, að því er virðist.

Lukkuriddarar merkja þúfur

„Vissulega kann að hljóma fallega að nú eigi að virkja vindorkuna og víst er að litlar fallegar myllur eins og við þekkjum til dæmis á myndum frá Hollandi eru fallegar. Falla vel inn í landið og eru umhverfisvænar,“ segir Kristín Helga. 

„Lukkuriddararnir merkja sér þúfur hringinn um landið fyrir orkuver. Þetta eru svona 10 – 20 túbínur á hverju virkjanasvæði til að byrja með og hver túrbína er á við þrjá Hallgímskirkjuturna að hæð. Þetta eru skaðlegir skýjakljúfar. 

Risamöstur og spaðar sem spúa örplasti

Hún bendir á að á völdum stöðum á Vesturlandi, svo sem á Grjóthálsi, standi til að setja upp sautján 250 metra há stálmöstur með spöðum sem verði tugir metra í þvermál. Plastefnið í þeim kvarnist upp á ekki löngum tíma og dreifist yfir land með tilheyrandi mengun og skaða fyrir lífríkið. Að möstrunum þurfi svo að leggja vegi og fara í margskonar rask.

Andstaðan í sveitum Borgarfjarðar við þessi áform er eindregin. Ég hef engan hitt sem hlynntur er þessum ófögnuði þegar búið er að leggja spilin á borðið og skoða stærðir, áhrif og fyrirhugaðar risaframkvæmdir. Ja, nema þá þessa örfáu sem sjá í þessu stóra vinninginn fyrir sig og sína,“ segir Kristín Helga og heldur áfram:

Sótt að sveitarfélögum sem standa illa fjárhagslega

„Fulltrúar erlendu stórfyrirtækjanna herja á sveitarfélög og sveitir sem eru fámennar og aðþrengdar fjárhagslega. Best finnst þeim ef þeir ná að dáleiða heilt sveitarfélag og beygja andófið í upphafi. Næstbest ef þeir kljúfa samfélög í herðar niður vegna ágreinings.

Og þarna bera kjörnir fulltrúar mikla ábyrgð og jafnvel mesta. Einnig við sem erum landeigendur, náttúruverndarar, fólk í atvinnurekstri, ferðaþjónustu, menningarstarfsemi og landbúnaði og hvaðeina.

Fólk í sveitum landsins sem vill lifa með náttúrunni en ekki á móti henni og trúir á framtíðina fyrir næstu kynslóðir. Við verðum að hlaupa út með uppbrettar ermar og kreppta hnefana.“

Gerum ekki sömu mistök og Norðmenn

Í Noregi hefur verið reistur fjöldi vindorkuvera. Heiðalöndum þar lýsir Kristín Helga sem nálapúðum. Búið sé að brjóta dýrmæt víðerni undir há möstur og vindorkuver, hvar framleitt er rafmagn sem leitt er inn á sæstrengi sem liggja til meginlands Evrópu. Þetta hafi leitt til þess að verð á rafmagni í Noregi hafi snarhækkað.

Náttúran þarf að lifa af

„Hvernig talað er fyrir vindorkuverum á Íslandi er lúmskt. Í rokinu á að keyra áfram túrbínur en í kynningar- og áróðursskyni er talað um vindorkulundi eða jafnvel -skóga. Og þó verða þetta engir yndisreitir. Málin verður líka að skoða í stóru samhengi; minni neysla og orkuskipti þurfa að haldast í hendur. Breyta þarf um kúrs og trúin á komandi kynslóðir má ekki glatast. Þau sem lifa hverju sinni eiga ekki náttúruna, þeim er ætlað að gæta hennar fyrir næstu kynslóðir. Þannig lifir plánetan okkur af. Náttúran verður að lifa okkur af.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. nóvember 2022

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is