Völundur Jóhannesson – minningarorð

Völundur Jóhannesson.
Völundur Jóhannesson húsasmiðameistari, náttúrubarn og landverndari, fæddur þann 23. ágúst 1930 í Haga í Aðaldal, hefur kvatt þennan heim.

Völundur Jóhannesson húsasmiðameistari, náttúrubarn og landverndari, fæddur þann 23. ágúst 1930 í Haga í Aðaldal, hefur kvatt þennan heim. Hann var bráðkvaddur 30. ágúst 2021 á sínum uppáhaldsstað, í skrúðgarði sínum í Grágæsadal á Brúaröræfum.

Völundur var náttúrubarn og hugsjónamaður sem naut sín best í faðmi öræfa og óbyggða. Í marga áratugi var hann talsmaður náttúrunnar og óbyggða og barðist fyrir því að öræfin væru látin í friði fyrir virkjunarframkvæmdum og háspennulínum.

Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) nutu liðstyrks Völundar í langan tíma og svo var Völundur traustur félagi í Landvernd til síðasta dags. Hann stofnaði Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og var formaður þess fyrstu 20 árin enda voru öræfaferðir hans yndi og áhugamál. Hann þekkti öræfin norðan Vatnajökuls eins og lófann á sér og var fróður um náttúrufar, örnefni og sögu öræfanna. Með sínum náttúruverndarsjónarmiðum átti Völundur þátt í því að Kringilsárrani var friðlýstur árið 1975.

Völundur Jóhannesson.
Völundur á nírðæðisafmælisdeginum í skrúðgarði sínum í Grágæsadal.

Við gróðurvin við vatnið í Grágæsadal reistu Völundur og félagar hans lítið sæluhús sumarið 1967. Grágæsadalur liggur í um 640 metra hæð á vestanverðum Brúaröræfum. Fljótlega fór Völundur að huga að uppgræðslu á lítt grónu landi í kringum skálann. Það var svo seinna sem Völundur bjó til undraverðan skrúðgarð og ævintýraheim á þessum sælureit sínum. Innan um ótal blóm, trjáplöntur og kartöflugarð eru göngustígar, bekkir og bænahús með gras- og blómaþaki. Þar er einnig að finna minningarreit um landslagið sem fór undir Hálslón með gróðri sem Völundur bjargaði úr lónstæðinu ásamt steinum úr Rauðurð og víðar.

Völundur hlaut náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti 2015 fyrir sitt einstaka ræktunarstarf í 640 metra hæð auk þess fyrir baráttu sína fyrir vernd hálendisins og fyrir framsýni í uppbyggingu á fjölförnum leiðum á hálendinu.

Gróður og steinar úr lónstæði Hálslóns, varðveitt í skrúðgarði Völundar Jóhannessonar í Grágæsadal.
Gróður og steinar úr lónstæði Hálslóns er varðveitt í skrúðgarði Völdundar í Grágæsadal.

Völundur ræktaði garðinn sinn í fyllstu merkingu orðanna, hvort sem var í Grágæsadal, í garðinum  heima á Egilsstöðum eða í hugum allra sem urðu svo lánsöm að kynnast honum og hans baráttu- og áhugamálum.

Landvernd kveður traustan félaga og þakkar honum fyrir sína hugsjónavinnu í þágu náttúruverndar og öræfaupplifunar. Landvernd vottar fjölskyldu Völundar innilega samúð. Blessuð sé minning Völundar Jóhannessonar.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd