„Góður áfangi í verndun hafs og lífbreytileika, en betur má ef duga skal!“

Stjórn Landverndar hefur sent frá sér yfirlýsingu:

Góður áfangi í verndun hafs og lífbreytileika, en betur má ef duga skal!

 

Stjórn Landverndar fagnar niðurstöðu milliríkjaráðstefnu hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni sjávar á svæðum utan lögsögu landa (BBNJ). Fimmtán ára barátta hefur borið árangur.

Samkomulagið er gott dæmi um að alþjóðleg samstarf til að vinna gegn eyðilegginu náttúru og umhverfis er tímafrekt verkefni. Alþjóðlegt samstarf er algjörlega nauðsynlegur þáttur í umhverfisvernd og ber árangur.

Um 70 % af yfirborði jarðar er haf og samkomulagið nær til þessa svæðis utan 200 mílna lögsögu þjóða. Samkomulagið er því mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, taps á líffræðilegum fjölbreytileika og mengun.

Samkomulagið segir að 30 % af hafsvæðum utan lögsögu ríkja skuli vernda. Það er rík þörf á því þar sem stjórnlausar og ósjálfbærar fiskveiðar hafa verið stundaðar á mörgum svæðum. Rétt er að minna á að í hópi fyrirtækja sem stunda veiðar af þessu tagi eru fyrirtæki í eigu íslenskra útgerðarfélaga sem skrásett eru erlendis. Íslendingar hafa því átt þátt í þessar rányrkju sem nú er verið að reyna að koma böndum á.

Nú blasir við það verkefni að tilgreina þau svæði í heimshöfunum sem mest þörf er fyrir að vernda. Stjórn Landverndar hvetur íslensk stjórnvöld til að sýna framsýni og metnað og láta til sín taka á vettvangi Sameinuðu þjóðanna svo þessi vernd komist á sem fyrst.

Stjórn Landverndar fagnar einnig nýrri reglugerð um verndun viðkvæmra hafsvæða og botnvistkerfa í íslenskri lögsögu. Reglugerðin fest í sessi svæði sem þegar njóta friðunar og skilgreinir þrjú ný svæði þar sem botnveiðar verða óheimilar. Þetta er viðleitni stjórnvalda til að vernda líffræðilega fjölbreytni og skref í þá átt að ná nýjum markmiðum um vernd 30 % hafsvæða heimsins. En þetta er aðeins lítið skref. Til að  Ísland nái þeim markmiðum sem stefn er að fyrir 2030 þarf að bæta vernd á tilgreindum svæðum og bæta umtalsvert fleiri svæðum við. Til lengri tíma litið þarf að stöðva allar veiðar sem spilla hafsbotni og lífbreytileika og finna aðferðir sem leysa fiskveiðar með botnvörpu af hólmi. Stjórn Landverndar hvetur stjórnvöld til að stuðla að rannsóknum og nýsköpun sem hefur þetta að markmiði.

Yfirlýsing þessi er send utanríkisráðherra, matvælaráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og til fjölmiðla.

Frekari upplýsingar veitir Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar í síma 8435370

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd