Aðalfundur Landverndar haldinn 23. maí 2024

Stjórn Landverndar boðar til aðalfundar samtakanna kl. 17:00 fimmtudaginn 23. maí í Hlöðunni í Gufunesi í Reykjavík og hefst 17:00. Húsið verður opnað 16.30.  Á aðalfundi er mörkuð stefna samtakanna og rafrænni kosningu til stjórnar lýkur þar. 

Fundargestir eru beðnir að skrá sig fyrirfram.

Dagskrá

16:30 Húsið opnar

17:00 Þorgerður María, formaður Landverndar setur fundinn

17:02 Ávarp umhverfisráðherra

17:10 Aðalfundarstörf 

  • Kosning fundarstjóra og fundarritara, tillaga: Katrín Oddsdóttir og Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson
  • Kosning í nefndir fundarins, kjörnefnd, allsherjarnefnd og laganefnd
  • Skýrsla stjórnar
  • Kynning ársreiknings og hann lagður fram til samþykktar
  • Kosning skoðunarmanna reikninga, tillaga: Þorleifur Þór Jónsson og Rannveig Thoroddsen
17.30 Grænfáninn – Menntun til framtíðar
17.30 Rafrænni kosningu lýkur
17.35 Hugvekja – Bjarni Bjarnason, jarðfræðingur

17:50 Kaffi og skemmtiatriði

18:05 Ályktanir aðalfundar ræddar, afgreiðsla

18:35 Lagabreytingatillaga lögð fram og atkvæði greidd um hana

18.40 Tillaga um hækkað árgjald lögð fram og afgreiðsla 

18.45 Almennar umræður

19.00 Tónlistaratriði

19.05 Ný stjórn kynnt

19.15 Viðurkenning Landverndar veitt

19.20 Veitingar, skemmtun og samvera

 

Nánari upplýsingar

Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa skráðir félagar sem greitt hafa félagsgjald undanfarins starfsárs a.m.k. viku fyrir aðalfundinn. Hið sama gildir um fulltrúa aðildarfélaga, fyrirtækja og stofnana sem eru í Landvernd. Málfrelsi, rétt til setu og tillögurétt á aðalfundi hafa allir skráðir félagar í Landvernd.

Tillögur stjórnar  að ályktunum aðalfundar 2024:

1. Auðlindir í almannaþágu   

Auðlindir lands og sjávar eru sameiginleg eign þjóðarinnar. Nýting þeirra verði sjálfbær og í almannaþágu. Þær verði hvorki afhendar til ótímabundinna nota né framseldar sem eign. Alþingi gæti þess í allri sinni vinnu. Landvernd skorar á Alþingi að samþykkja auðlindaákvæði í stjórnarskrá.  

2. Loftslagsmál 

Landvernd lýsir áhyggjum af því hve litlum árangri Ísland hefur náð í loftslagsmálum. Þrátt fyrir markmið stjórnvalda hefur heildarlosun aukist en ekki minnkað, þó að samdráttur hafi náðst á nokkrum sviðum. Enn liggur ekki fyrir aðgerðaáætlun í loftslagsmálum með tímasettum og mælanlegum markmiðum líkt og í nágrannalöndum okkar. Ófullnægjandi er að einblína á orkuskipti. Minnka verður ágang á náttúru, vernda og endurheimta vistkerfi, auka jöfnuð, bæta lýðheilsu og tryggja réttlæti. Landvernd minnir stjórnvöld á ábyrgð þeirra gagnvart alþjóðlegum samningum og kynslóðum framtíðar.  

3. Hálendisþjóðgarður   

Landvernd skorar á stjórnvöld að hefja að nýju vinnu við undirbúning þjóðgarðs eða þjóðgarða á hálendinu. Sátt virðist meðal almennings og stjórnvalda um nauðsyn þess að friða víðerni, jökla og einstaka náttúru hálendisins. Tækifærið er því núna til að ljúka þeirri vinnu og friða þau svæði sem við viljum öll vernda.  

   4. Sjókvíaeldi   

Sjókvíaeldi er áberandi og vaxandi iðnaður á Vestfjörðum og Austfjörðum. Íslendingar eiga að ákveða hvers konar álag á náttúru er ásættanlegt og allur iðnaður á að laga sig að því. Núverandi umgjörð um sjókvíaeldi er óviðunandi þar sem umhverfisáhrif eru viðamikil en lagaumhverfi virðist aðlagað að þörfum eldisiðnaðarins. Notkun greinarinnar á hugtakinu sjálfbærni er grænþvottur. Setja þarf lög um eldið með vistkerfisnálgun og mælanleg markmið fyrir umhverfi og lífríki. Gefa þarf nýjum lögum tíma til reynslu og óháður eftirlitsaðili þarf að annast mat á árangri. Á meðan verði engin frekari leyfi gefin út. Standist eldisiðnaðurinn ekki viðmið um áhrif á umhverfi sitt skulu vera ströng viðurlög og varða leyfissviptingu séu brot endurtekin. Tímamörk á leyfisveitingum eru nauðsynleg.

5. Orkumál  

Í breyttri heimsmynd ber okkur skylda til að endurskoða alla raforkuframleiðslu, sölu og notkun nú og til framtíðar. Stjórnmálamenn þurfa að sýna hugrekki og ábyrgð við að horfa fram á veginn og setja sér stefnu um hvernig orku er forgangsraðað og náttúruvernd. Þar þarf að huga sérstaklega að því að ekki verði gengið á einstaka náttúru Íslands og víðerni og að hagur almennings verði í fyrirrúmi.  

6. Verndun hafsins  

Ísland ráðist í viðamiklar rannsóknir á vistkerfum hafsbotnsins og ákvarði út frá þeim hvaða 30% hafsvæða skuli vernduð á grundvelli mikilvægra vistkerfa. Þá verði 5% allra hafsvæða við landið undir strangri vernd þar sem aðkoma mannsins er að öllu leyti takmörkuð. Þetta er hornsteinn að því að ná markmiðum Kunming-Montréal samningsins sem Ísland hefur skrifað undir og miðar að því að friða 30% land-, haf- og strandsvæða fyrir 2030 sem og að endurheimta 30% af röskuðum svæðum.  

7. Tjáningarfrelsi og náttúruvernd  

Landvernd skorar á stjórnvöld og fjölmiðla að styðja við náttúruvernd og þátttöku almennings í henni. Landvernd minnir á Árósasamninginn og hlutverk frjálsra samtaka. Þau eiga ekki að vera tæki í höndum stjórnvalda. Stjórnvöldum ber að tryggja rétt almennings, stuðla að vitundarvakningu og tryggja aðgengi að upplýsingum og réttláta málsmeðferð í umhverfismálum. Þá ber stjórnvöldum að styðja við félög, samtök og hópa sem vinna að umhverfisvernd. Landvernd telur því að í auglýsingu um styrkveitingar umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins til frjálsra félagasamtaka gæti misskilnings um hlutverk þeirra. En þar segir.

Vinna er nú í gangi við endurskoðun og einföldun á heildarstyrkjakerfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og er við þá vinnu horft til þess að styrkveitingar hverju sinni styðji við áherslumál stjórnvalda á þeim tíma.“  

Sókn stórfyrirtækja í náttúruauðlindir hefur aldrei verið meiri. Afköst og tæknilegt afl við stórframkvæmdir er meira en nokkru sinni. Styrkur umhverfisverndarsamtaka til að vinna fyrir náttúruna og rétti manna og dýra til heilnæms og heilbrigðs umhverfis hefur að sama skapi minnkað. Vandinn er þekktur á heimsvísu. Umhverfisfréttamennska á undir högg að sækja, þaggað er niður í fólki sem vinnur í loftslags- og náttúruvernd og dæmi um að það sé svipt atvinnu. Tilgangur náttúruverndar er dreginn í efa og gerður tortryggilegur og þekking véfengd. Landvernd skorar á stjórnvöld að tryggja afkomu og þátttöku starfandi náttúruverndarsamtaka í landinu og styðja við lýðræðisleg störf þeirra og alls fólks sem vinnur að málum tengdum umhverfis- og náttúruvernd í fjölmiðlum, hjá opinberum  stofnunum, á pólitískum vettvangi og á almennum vinnumarkaði.

 8. Vernd votlendis og endurheimt vistkerfa   

Votlendi þekja um 3% af yfirborði lands en geymir um 30% af kolefni þess í jarðvegi sínum. Mjög hefur verið gengið að íslensku votlendi, sérstaklega á láglendi. Friða þarf 30% landsvæða með tilliti til mikilvægra vistkerfa og endurheimta 30% af framræstu votlendi fyrir árið 2030. Gera þarf áætlun um frekari endurheimt til 2050. Þetta er hornsteinn að því að ná markmiðum Kunming-Montréal samningsins sem Ísland hefur skrifað undir og miðar að því að friða 30% land-, haf- og strandsvæða fyrir 2030 sem og að endurheimta  30% af röskuðum svæðum. 

9. Stofnum Reykjanesþjóðgarð 

Staða náttúruverndar á Reykjanesi er óviðunandi og umsjón með Reykjanesfólkvangi lítil og minnkandi. Landvernd telur kominn tíma til að undirbúa stofnun þjóðgarðs á Reykjanesi, við anddyri Íslands milli alþjóðaflugvallarins og höfuðborgarinnar. Náttúran á Reykjanesi er einstök og nú á umbrotatímum má kalla það skylduverkefni íslenska ríkisins að skipuleggja fræðagarð í nýjum þjóðgarði á Reykjanesskaga þar sem margvísleg tækifæri eru, fyrir jarðvísindi, listir, menningu og menntun.

10. Sérstakt ráðuneyti umhverfismála

Landvernd leggur til að sérstakt ráðuneyti umhverfis- og loftslagsmála verði stofnað hið fyrsta. Verndun umhverfis og loftslags eru mikilvægustu verkefni samtímans og öflugt ráðuneyti fyrir þessa málaflokka er nauðsyn. Reynsla af því að hafa orku- og umhverfismál í sama ráðuneyti sýnir að verndarsjónarmið lúta í lægra haldi.

Aðrar ályktanir bárust ekki.  

Kosið verður um fimm stjórnarsæti til tveggja ára á aðalfundinum í ár.

Kosning til stjórnar Landverndar er rafræn. Hún hefst sunnudaginn 19. maí og lýkur á aðalfundi Landverndar 23. maí. 

Tíu manns sitja í stjórn Landverndar, kosnir til tveggja ára.  Góð hefð er fyrir því að stjórn Landverndar sé virk í náttúruverndarumræðunni og komi fram fyrir samtökin á margvíslegum vettvangi.

Hér má sjá frambjóðendur til stjórnar Landverndar 2024 – 2026.

Tillaga að lagabreytingum fyrir aðalfund Landverndar 2024

Gerð er tillaga um að við a-lið 9. gr. bætist:

„Þó skulu einstaklingar, 25 ára og yngri, undanþegnir félagsgjöldum.“

 

Greinargerð:

Mikilvægt er fyrir Landvernd að virkja ungt fólk til starfa með samtökunum og tryggja nýliðun. Lagt er til að einstaklingar, 25 ára og yngri, verði undanþegnir félagsgjöldum til að hvetja þennan hóp, sem er að stórum hluta enn á skólabekk og án fastra tekna, til þátttöku í starfi samtakanna.

 

29.4.2024

Laganefnd
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir
Margrét Auðunsdóttir
Þorgerður María Þorbjarnardóttir

Leið 31 gengur alveg inn á bílaplanið, en síðasta ferð er rétt rúmlega 19:00. Gengur á 15 mín fresti, fer um Grafarvoginn.
Stoppustöðin „Miðgarður“ í Rimahverfinu er nokkuð nálægt, kannski ca 7-10 mín labb eftir nánast þráðbeinum göngustíg. Leið 6 gengur þangað (örar ferðir, fer eftir stofnbrautum niður í bæ).
Olís í Foldahverfi er örlítið lengra labb en þar stoppa leiðir 24 (fer í Ártún, Mjódd, Garðabæ t.d.), leið 6 og leið 18 (Hlemmur-Ártún-Spöng).
Svo er Spöngin í ca 2 km fjarlægð, þar eru t.d. leiðir 6, 18, 24 og 7 (Mosó-Egilshöll-Spöng). Leið 7 gengur þó ekki mjög lengi á kvöldin.
Frá þessum stoppistöðvum eru göngustígar sem eru þægileg gönguleið, lítið af götum að fara yfir og þægilegt að fara yfir á t.d. rafmagnshlaupahjóli ef fólk er að nýta slíkan ferðamáta.

Öllum býðst að fylgjast með aðalfundi Landverndar í streymi. Smelltu hér til að komast inná það. Athugaðu að þú gætir þurft að endurræsa slóðina við upphaf streymis. 

Smelltu á myndina til að lesa.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd