Við höfum skilað inn umsögn vegna frumvarps til laga um skipulagslög (uppbygging innviða), 573. mál. Umsögnina má finna í heild sinni neðst í greininni.
Ósamræmi við árósarsamninginn
Stjórn Landvernd sér ýmsa kosti í því að bæta aðstæður til samstarfs á milli sveitarfélaga um raflínuskipulag. Með því má eflaust koma í veg fyrir óþarfa tafir og misskilning og flýta nauðsynlegum framkvæmdum til að bæta raforkuöryggi á Íslandi. En stjórn Landverndar varar við ákvæðum sem veikja faglega umfjöllun og aðkomu almennings; ákvæði sem eru í ósamræmaleg við Árósarsamninginn og tilskipanir Evrópusambandsins sem Ísland hefur undirgengis vegna EES. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra og er ávísun á frekari deilur og málaferli.
Landvernd minnir á að ESA hefur átalið íslensk stjórnvöld fyrir brot á EES samningnum þegar kemur að lögum um mat á umhverfisáhrifum og aðkomu almennings að ákvörðunum sem varða umhverfið og að lagasetning á Íslandi hefði brotið m.a. gegn þátttökurétti almennings.
Hagsmunir stóriðju ofar hagsmunum almennings?
Landvernd ítrekar að hér er fyrst og fremst um hagsmunamál stóriðju að ræða og engir varnaglar eru settir inn í frumvarpið þannig að hið gríðarlega þrýstiafl sem stórfyrirtæki eru misnoti ekki þær breytingar sem kynntar eru í frumvarpinu sér til handa. Landvernd ætti ekki að þurfa að minna Alþingi á að upphaflegt markmið þessara breytinga er almannaheill en ekki framfylgd stóriðjustefnu fyrri ríkisstjórna, virkjunaraðila og Landsnets.
Tryggja verður aðkomu almennings að ákvarðanatöku
Ákvarðanataka í málum sem hafa víðtæk áhrif á marga þætti til langs tíma taka eðlilega nokkurn tíma svo tryggja megi að allar hliðar málsins séu vel upplýstar og lýðræðislegum sjónarmiðum sé haldið til haga. Langar línulagnir um landið eru gríðarlega flóknar, snerta á mörgum umhverfis- og samfélagsþáttum og því er eðlilegt að nægur tími og fjölbreytt aðkoma almennings verði tryggð.
Umhverfismat og skipulagsferli
Stjórn Landverndar telur mjög varhugavert að skipulagsferli, matsáætlun og umhverfismat framkvæmdar eigi öll að fara fram samtímis. Hér er um að ræða skerðingu á aðkomu almennings annars vegar að skipulagsáætlunum og hins vegar að umhverfismati einstakra framkvæmda.
Með þessu er umsagnarmöguleikum almennings fækkað niður í einn sem eykur hættu á því að framkvæmdin verði óvönduð og við undirbúning hennar skorti mikilvægar upplýsingar.
Gríðarmikilvægt er að skipulag og matsáætlun verði aðskilin frá mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.
Mikilvægt er að stjórnvöld segi skýrt til um að niðurstöður umhverfismats eigi að virða og að niðurstaða umhverfismat sé grundvöllur og forsenda fyrir veitingu framkvæmdaleyfis.
Aukin aðkoma almennings nauðsynleg
Stjórn Landverndar hefur sent inn umsagnir við þær hugmyndir sem hér er lýst á öllum stigum sem þær hafa komið fram. Breytingarnar sem hér er lýst eru veigamiklar, takmarka möguleika almennings til þess að standa vörð um umhverfi sitt og eru unnar án aðkomu umhverfisverndarsamtaka. Auk þess hefur ekki verið sinnt athugasemdum samtakanna um áform, drög að frumvarpi eða frumvarp sem var til umfjöllunar umhverfis- og samgöngunefndar í desember 2020 um mikilvægi þátttökuréttar almennings. Landvernd ítrekar því hvatningu til ráðuneytis og Alþingis að breyta frumvarpinu þannig að nægur tími sé gefin til ákvarðanatöku um svo veigamikil mál og að aðkoma almennings sé betur tryggð bæði með því að aðskilja skipulagsgerð og umhverfismat sem og að taka fram að framkvæmdaleyfi sé kæranlegt til úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála.
Að lokum hvetur Landvernd til þess að lögin kveði á um að óhlutdrægni og lýðræðisleg vinnubrögð séu ávallt höfð í heiðri í starfi stjórnsýslunefndar og að aðkoma almennings og kæruréttur séu tryggð á öllum stigum í samræmi við ákvæði Árósasáttmálans.