Áformuð vindorkuver í tugatali

40 vindorkuver um land allt eru á teikniborðinu.
Grein í Morgunblaðinu, þar sem fjallað er um fyrirhuguð vindorkuáform erlendra virkjanafyrirtækja hefur vakið mikla athygli.

Á gagnvirku Náttúrukorti Landverndar gefur að líta tugi áforma um vindorkuver um allt land. Hér má sjá kort unnið upp úr Náttúrukortinu, sem fylgdi viðtali við verkefnisstjóra Náttúrukortsins í Morgunblaðinu 29. desember sl.

Kortið á myndinni hér að ofan er unnið af Morgunblaðinu fyrir greinina en síðan þá hafa bæst við áform á Fljótsdalsheiði sem bætt hefur verið við.  

Mikil viðbrögð hafa verið við greininni og þá ekki síst myndinni, enda sýnir hún áform svo gríðarleg að umfangi að fá svæði landsins yrðu ósnortin, gengju þau eftir. Áformin eru þó misjafnlega langt komin á teikniborðinu. Hvorki hafa verið mótuð lög né reglur um þennan umdeilda orkuiðnað sem er nær allur í eigu erlendra orkufyrirtækja fyrir tilstilli íslenskra milliliða. Þrátt fyrir að umgjörðina vanti eru nokkur þessara verkefna þegar komin í skipulags- og matsferli.  

Þó aðeins lítill hluti áformanna gengi eftir er ljóst að íslenskri náttúru og landslagi er nú ógnað með áður óþekktum atgangi orkugeirans. Einnig er þess að vænta að um leið yrði tekið stórt skref til þess að gerbreyta íslenskum raforkumarkaði og afhendingaröryggi sem mun hafa ófyrirséðar afleiðingar í för með sér, bæði fyrir náttúru landsins og efnahag þjóðarinnar.  

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is