Þegar lífvera er flutt af mannavöldum inn á nýtt svæði er hún kölluð framandi lífvera og ef hún skaðar lífríkið sem þar er fyrir þá er hún orðin framandi ágeng lífvera. Einkenni ágengra framandi lífvera eru m.a. að þær fjölga sér hratt, þær geta lifað á mjög fjölbreyttu fæði eða við fjölbreyttar aðstæður. Minkur, lúpína og skógarkerfill eru dæmi um ágengar framandi tegundir á Íslandi.

Vistkerfi eru viðkvæm fyrir breytingum

Samspil lífvera innan vistkerfa er oft flókið og margbreytilegt og ef mikilvæg tegund tapast úr vistkerfi getur það verið mjög slæmt fyrir kerfið í heild. Býflugur eru t.d. mikilvægir frjóberar og án þeirra eiga sumar plöntur erfitt með að fjölga sér. Það sama á við ef ný tegund kemur inn í vistkerfi af mannavöldum. Fjöldi tegunda eykst jú tímabundið en sumar nýjar tegundir geta valdið því að aðrar tegundir hörfa eða jafnvel hverfa úr vistkerfinu.

Hvar á lífveran heima?

Allar tegundir lífvera eiga sér upprunaleg heimkynni þar sem þær þróuðust yfir langan tíma. Þessar lífverur eru kallaðar innlendar tegundir. Innlend lífvera er sú sem er innan náttúrulegs útbreiðslusvæðis og hefur þróast þar eða komist þangað með náttúrulegum hætti. Tófa og holtasóley er dæmi um innlendar tegundir sem voru á Íslandi áður en maðurinn kom. 

Tegundir á flakki

Þegar lífvera er flutt af mannavöldum inn á nýtt svæði er hún kölluð framandi tegund og ef hún skaðar lífríkið sem þar er fyrir þá er hún orðin ágeng framandi tegund. Skaðinn getur verið samkeppni við aðrar tegundir um næringu og búsvæði og einnig þegar nýja lífveran étur innlendar tegundir sem eru ekki vanar því að vera étnar. Ágengar framandi lífverur eru ein af fimm helstu ógnum við lífbreytileika í heiminum. Einkenni ágengra framandi tegunda eru m.a. að þær fjölga sér hratt, þær geta lifað á mjög fjölbreyttu fæði eða við fjölbreyttar aðstæður. Þær valda innlenda lífríkinu skaða. Alaskalúpína, skógarkerfill og minkur eru dæmi um framandi tegundir sem maðurinn flutti til landsins og þessar tegundir eru þar að auki ágengar.

Vágestir í vistkerfum

Alaskalúpína myndar sambýli við örverur í rótunum sem vinna næringarefnið nitur úr andrúmslofti. Alaskalúpínan myndar þéttar breiður, breytir eiginleikum jarðvegs og gjörbreytir gróðurfari, m.a. útrýmir lyngi og öðrum lágvaxnari gróðri. Skógarkerfill vex hratt, myndar stórar breiður og skyggir á annan gróður. Hann er hávaxnari en lúpínan og nær meira að segja að vaxa inn í lúpínubreiður. Minkur er alæta sem fjölgar sér hratt og hefur haft mikil áhrif á fugla og útbreiðslu þeirra á Íslandi. Þessir eiginleikar lúpínu, skógarkerfils og minks hjálpar þeim að breiðast út, sem getur valdið lífríkinu skaða. 

Hvaða framandi tegundir verða ágengar?

Það verða alls ekki allar framandi tegundir ágengar, t.d. eru túlípanar og stjúpur framandi plöntutegundir á Íslandi en þær eru ekki þekktar fyrir að vera ágengar og henta því ágætlega í garðrækt. En ef tegund fjölgar sér hratt og getur lifað við fjölbreyttar aðstæður þá eru meiri líkur á að hún geti orðið ágeng á nýjum stað. Fjölmargar framandi tegundir berast til landsins á hverju ári og sumar þeirra geta farið að valda usla og mögulega orðið ágengar eins og t.d. grjótkrabbi, glærmöttull og ýmsar plöntur og trjátegundir. Dæmi um framandi ágengar tegundir erlendis eru kanínur í m.a. Ástralíu, gráíkornar í Evrópu og sebraskeljar,  vatnaplantan vatnapest og ýmsar tegundir barrtrjáa víða í heiminum.

Nú vitum við betur

Tegundir geta farið á flakk með því að „húkka sér far“ með mannfólki (smádýr í mold, padda í ferðatösku, fræ í skósóla, krabbalirfa í kjölfestuvatni skipa) en stundum eru þær fluttar viljandi á milli svæða af mannfólki. Í gamla daga vissi fólk ekki betur, en í dag er vitað að ágengar framandi tegundir geta valdið miklum skaða og eru ein helsta ógnin í heiminum við lífbreytileika. Ágengar framandi tegundir geta verið af öllum stærðum og gerðum, alls kyns plöntur, dýr, smádýr og sjúkdómsvaldandi örverur og sveppir.

Þumalputtaregla

Ef framandi lífvera er orðin ágeng á einum stað, þá eru líkur á að hún verði ágeng á fleiri stöðum.

Mynd eftir Erling Ólafsson.

Efnið birtist áður í bókinni Náttúra til framtíðar.

Náttúra til framtíðar | 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2021 |