Arfleifð Árneshrepps

Drangaskörð á Ströndum, landvernd.is
Strandafjöllin, dulúðleg og ægifögur, umvefja lítið samfélag við ysta haf, Árneshrepp á Ströndum. Rakel Valgeirsdóttir og Valgeir Benediktsson skrifa um arleifð Árneshrepps.

Strandafjöllin, dulúðleg og ægifögur, umvefja lítið samfélag við ysta haf, Árneshrepp á Ströndum. Svolítið eins og í ævintýrunum er annar heimur handan þessara fjalla. Annar tími. Lífstaktur sem tifar ekki í kapp við klukkuna því honum ræður óútreiknanleg náttúran. Duttlungafull, gjöful, krefjandi, jafnvel yfirþyrmandi og svolítið erfið í sambúð en svo undur falleg og heillandi. Hún er harður húsbóndi sem setur þröngar skorður, mótar íbúana og þjappar þeim saman. Án samstöðu og samvinnu gæti samfélag í Árneshreppi aldrei dafnað. Þar reiðir sig hver á sjálfan sig en, þegar allt bregst, hver á annan.

Árnesstapar á Ströndum, Árneshreppi, ljósmyndari Rakel Valgeirsdóttir, landvernd.is
Árnesstapar á Ströndum, ljósmyndari: Rakel Valgeirsdóttir

Inn í 20. öldina stigu 444 Árneshreppsbúar. Stórhuga og kjarkmikið fólk sem lagði alúð í að byggja upp samfélagið sitt, atvinnuvegina, félagslífið og í að mennta sig og börnin sín. Stofnaði ungmennafélög, tvö frekar en eitt, lestrarfélag og bókasafn, ræktunarsamband fyrir bæði sauðfé og nautgripi, leikfélag, sparisjóð, rak fjórar verslanir og byggði sundlaug. Þetta fólk bjó í þremur póstnúmerum, tefldi í gegnum sveitasímann og aflaði þar frétta sem ef til vill voru ekki alltaf ætlaðar þeim sem á hlýddu. Ræktaði landið sitt og fjárstofninn, sótti fengsæl fiskimið, klauf rekavið í staura og hlúði að hlunnindum. Tókst á við norðanáttina, hafís, kalin tún og þráláta þokuna af æðruleysi. Framsýnt fólk sem vissi að menntun barna í heimabyggð er undirstaða hvers byggðarlags og reisti barnaskóla á Finnbogastöðum. Hann varð fljótt að grunnstoð í samfélaginu sem sinnt var af miklum metnaði og þrautsegju af allra hálfu. Það þótti ekki tiltökumál þó að börn þyrftu að ganga eina eða tvær dagleiðir í skólann, þar beið þeirra menntun og félagslíf sem ekki fékkst heimafyrir.

Trékyllisvík á Ströndum, Árneshreppi, landvernd.is
Trékyllisvík á Ströndum, ljósmyndari: Rakel Valgeirsdóttir

Það er ríkidæmi að fá að alast upp í Árneshreppi, eiga þar rætur. Á því er erfitt að festa hendi en það felst í samspili sögunnar, náttúrunnar og mannlífsins sem mynda þar órofa heild. Í Árneshreppi er harðbýlt en þar er líka fegurðin alltumlykjandi. Hvort tveggja sest í sálina, mótar hana og mýkir. Sögusvið íbúanna sjálfra er það sama og genginna fornkappa, útilegumanna og alþýðuhetja. Álfabústaðir og steinrunnin tröll jafneðlilegur hluti af tilverunni og nágranninn á næsta bæ. Í þessu umhverfi er gott að alast upp, þarna er gott að vera og gott að búa. Um það þarf enginn að efast.

Finnbogastaðafjall, Ströndum Árneshreppi. Ljósmynd: Valgeir Benediktsson, landvernd.is
Finnbogastaðafjall, Ströndum Árneshreppi. Ljósmynd: Valgeir Benediktsson

Á síðastliðnum 100 árum hefur íbúafjöldi hreppsins samt dregist saman um rúmlega 500 manns. Þar býr enn fólk sem kann að lesa í landið, lífstakturinn er sá sami og viðfangsefnin líka þó íbúunum fækki og atvinnuhættir þróist. Sauðkindin og sjósókn hafa verið lífæð Árneshrepps frá upphafi byggðar þar og eru enn. 

Á undanförnum 35 árum hefur svo ferðaþjónusta hægt og bítandi fest sig í sessi. Með mikilli elju hefur tekist að byggja upp tjaldstæði, gistiheimili, hótel, Ferðafélagsskála og veitingastað. Afþreyingu á borð við gönguleiðsagnir, sleðaferðir og siglingar að ógleymdu Minja- og handverkshúsinu Kört þar sem menningararfur svæðisins á sér griðarstað og er miðlað áfram til gesta. Og þó að Krossneslaug sé eldri en öll þessi uppbygging er hún áfangastaður flestra gesta svæðisins og skildi engan undra. 

Kríur á flugi í Trékyllisvík, Árneshreppi. Ljósmyndari: Rakel Valgeirsdóttir

Þeir sem sækja Árneshrepp heim skynja sérstöðu svæðisins. Hafa orð á henni og sækja í hana aftur. Þrjá mánuði á ári iðar Árneshreppur af lífi. Þá er fólk í tæplega 60 húsum í hreppnum, á veturna er ljós í glugga á tólf heimilum. Ferðaþjónustan er orðin að lífæð, í það minnsta þrjá mánuði á ári. Sá tímarammi er ekki sniðinn að því að það sé ekkert að sjá og upplifa í Árneshreppi hina níu mánuðina, þvert á móti. Heldur því að það er verulega erfitt að halda úti ferðaþjónustu svona fjarri stærstu þéttbýliskjörnum landsins á öðrum árstímum. Og samgöngum. 

Samgöngur eru og hafa verið stærsti áhrifaþáttur byggðar í Árneshreppi í áratugi. Eiginlega alveg síðan sveitin komst í vegasamband árið 1966. Stór hluti af þeim vegi er nánast óbreyttur. Í 80 daga á ári er ekki til samgönguáætlun fyrir Árneshrepp. Í bókum ríkisins heitir það G-regla og á ekki við um neitt annað sjálfstætt sveitafélag á landinu. Vegurinn um Veiðileysuháls liggur hátt og hann lokast hratt, honum hefur dvalist á vegaáætlun. Vegurinn um Kjörvogshlíð er hins vegar stórhættulegur, þar geta fallið snjóflóð og skriður svo þétt að þau verða varla talin. Sá vegur fær ekki enn að verma vegaáætlun. Og varast skal að villa þessum vegum saman við verkáætlun Vesturverks vegna Hvalárvirkjunar, þeir fyrirhuguðu slóðar eru fyrir norðan byggðina og hafa ekkert með heilsárssamgöngur í Árneshrepp að gera.

Hvalá rennur um Drangajökulsvíðerni, ljósmynd Rakel Valgeirsdóttir, landvernd.is
Hvalá í Árneshreppi, ljósmynd: Rakel Valgeirsdóttir

Það þarf engan að undra að ungt fólk flykkist ekki að til að búa sér og börnum sínum heimili í því þjónustuleysi sem ríkið hefur vogað sér að sýna Árneshreppsbúum. Tæplega 20 manns tóku á móti árinu 2020 í Árneshreppi. Skólastofur Finnbogastaðaskóla standa auðar. Því fylgir sorg að sjá samfélagið dragast saman. Sorgin verður enn sárari þegar utanaðkomandi aðilar, stór fyrirtæki og lífeyrissjóðirnir okkar, sjá sér gróðavon í smæðinni, neyðinni. Leggja til atlögu, smokra sér inn og höggva skörð í það samfélag sem eftir stendur. Kvarna úr samstöðunni. Þær leikreglur eru margnotaðar og virðast, því miður, alltaf vera jafn skilvirkar.

friðaða náttúran, heiðavötnin, fallvötnin og víðernin mega ekki verða megavött

Að leggja ríflega þriðjung af landi hreppsins, meðal annars ósnortin víðerni, undir virkjunarsvæði fyrir mannlausa virkjun norðan við byggðina undir því yfirskini að verið sé að bjarga samfélaginu í Árneshreppi er, svo vægt sé til orða tekið, óheiðarlegt.

Þvert á móti er verið að grafa undan þeirri framtíð sem fólk hefur lagt allt sitt í að byggja upp. Ferðaþjónusta í Árneshreppi byggist á þeim samhljómi sem mannlíf, saga og náttúra mynda. Hún byggist á sérstöðunni sem þetta litla samfélag á hjara veraldar býr yfir vegna þess að þar endar vegurinn og víðernin taka við. Vegna þess að þarna hafa tengsl sögu, náttúru og samfélags enn ekki rofnað. Í því búa galdrarnir og að þeim erum við flest að leita. Göldrunum og kyrrðinni.

Undanfarið hefur kveðið við falskan tón í þessum samhljómi. Það er þróun sem ríður á að breyta. Arfur kynslóðanna sem á eftir okkur koma, friðaða náttúran, heiðavötnin, fallvötnin og víðernin mega ekki verða megavött.

Rakel Valgeirsdóttir
Valgeir Benediktsson

Greinin birtist fyrst í Ársriti Landverndar

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd