Norska orkufyrirtækið Zephyr AS áformar að reisa næststærstu virkjun landsins á Fljótsdalsheiði – allt að 500 MW vindorkuver sem gengur undir nafninu Klausturselsvirkjun.
Hvert mastur yrði allt að 250 m að hæð og hver spaði allt að 80 m að lengd. Framkvæmdasvæðið yrði á stærð við hálft Þingvallavatn eða jafn stórt og 5.756 fótboltavellir lagðir saman. Sjónmengun vindorkuversins næði yfir miklu stærra svæði því mannvirkin myndu sjást vel víða úr Vatnajökulsþjóðgarði og öllum heiðum og fjöllum í nágrenninu, m.a. Snæfelli. Þannig skerðast víðerni svæðisins og upplifunin af þeim.
Ósnortinni náttúru breytt í iðnaðarsvæði
Við hvert mastur þarf 1.200 fm mikið styrktan pall undir krana sem notaðir eru til að koma möstrunum á sinn stað og undir hvert mastur þarf auk þess 120 fm öfluga undirstöðu.
Veg sem þolir mikla þungaflutninga þarf að hverju mastri. Gríðarlega umfangsmikil jarðvegsskipti þarf til að að koma fyrir öllum þessum vegum sem gætu orðið tugir km að lengd. Öllu þessu til viðbótar þarf að grafa upp allt að 12 m breitt belti fyrir jarðvegsstrengi um langan veg.
Óhjákvæmilegt yrði að opna nýjar og stórar efnistökunámur vegna framkvæmdanna.
Mengun og óþægindi fyrir menn og dýr
Spaðarnir sem notaðir eru í vindorkuver nútímans innihalda ýmis óæskileg spilliefni sem fylgja trefjaplastframleiðslu – og auðvitað slitna þeir með árunum. Afleiðingin er hætta á örplastmengun. Stærstan hluta spaðanna er ekki hægt að endurvinna, heldur þarf að urða þá.
Hljóð- og ljósmengun fylgir öllum vindorkuverum; á möstrunum eru blikkandi ljós sem valda óþægindum og truflun um langa leið.
Sveiflukenndur þytur frá spöðum vindorkuvera veldur hljóðmengun og áhrif lágtíðnihljóða á dýralíf og fólk eru nú til sérstakrar rannsóknar.
Þekkt er að vindorkuver eru skaðræði fyrir fugla.
Framkvæmdaaðilar
Zephyr Ísland, dótturfélag hins norska Zephyr AS orkufyrirtækis, stendur fyrir áformunum um Klausturselsvirkjun.
Móðurfélagið Zephyr AS áformar 9 önnur vindorkuver á Íslandi. Það hefur lent í harðvítugum deilum við norsk samfélög, m.a. þegar það setti upp vindorkuver á hið stórbrotna fjall í Haramsøy í óþökk íbúa.
Höfnum Klausturselsvirkjun
Landvernd hefur hleypt af stokkunum undirskriftasöfnun við áskorun á norska orkufyrirtækið Zephyr AS að falla frá þessum áformum og á sveitarstjórn Múlaþings að hafna öllum slíkum hugmyndum.