Við skorum á Arionbanka að framfylgja sinni grænu stefnu í verki. landvernd.is

Áskorun um endalok kísilversins í Helguvík

Ég skora á Arion banka að standa við loforð um að leggja sitt af mörkum fyrir græna framtíð með því að afskrifa kísilverið í Helguvík.

Yrði kísilverið ræst á ný myndi það auka losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi og valda annarri mengun, draga til sín verulega raforku og valda íbúum ónæði og heilsubresti. 

AFHENDING

Áskorun á Arionbanka vegna kísilvers í Helguvík. Afhending undirskrifta. landvernd.is
Alls skrifuðu 1.848 undir áskorunina. Á myndinni afhendir Tryggvi Felixson formaður Landverndar Benedikt Gíslasyni bankastjóra Arion banka undirskriftirnar, þann 23. maí, 2022.
Almennt og víðtækt ósætti hefur ríkt um starfsemi kísilvers í Helguvík. Frá sjónarhorni umhverfismála getur það ekki þjónað hagsmunum Íslendinga, sérstaklega ekki íbúa Reykjanesbæjar, að brenna árlega þúsundum tonna af kolum í bakgarði bæjarins.

Umhverfisstofnun metur að losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi ykist um 10% yrði kísilverið ræst á ný. Þá er ótalin önnur mengun og óþefur sem af starfseminni hlýst.

Mikla raforku þarf til að keyra kísilverið en íslenskt samfélag þarf á henni að halda fyrir orkuskiptin.

Fjöldi íbúa fann fyrir verulegum óþægindum eða upplifði veikindi vegna mengunar frá verinu þann stutta tíma sem það var starfrækt á árunum 2016 – 2017. Alls hafa um 350 athugasemdir borist frá íbúum Reykjanesbæjar varðandi áform um að opna kísilverið á nýjan leik.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur ítrekað lýst yfir andstöðu sinni við að kísilverið verði endurræst og Umhverfisstofnun lýst yfir að áhrifin yrðu „talsvert neikvæð“.

Arion banki hefur skilgreint græna framtíð, þar sem bankinn segist m.a. hafa sett sér metnaðarfulla umhverfis- og loftslagsstefnu.