Almennt og víðtækt ósætti hefur ríkt um starfsemi kísilvers í Helguvík. Frá sjónarhorni
umhverfismála getur það ekki þjónað hagsmunum Íslendinga, sérstaklega ekki íbúa
Reykjanesbæjar, að brenna árlega þúsundum tonna af
kolum í bakgarði bæjarins.
Umhverfisstofnun metur að
losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi ykist um 10% yrði kísilverið
ræst á ný. Þá er ótalin önnur
mengun og óþefur sem af starfseminni hlýst.
Mikla raforku þarf til að keyra kísilverið en íslenskt samfélag þarf á henni að halda fyrir
orkuskiptin.
Fjöldi íbúa fann fyrir verulegum óþægindum eða upplifði
veikindi vegna mengunar frá verinu
þann stutta tíma sem það var starfrækt á árunum 2016 – 2017. Alls hafa um 350 athugasemdir
borist frá íbúum Reykjanesbæjar varðandi áform um að opna kísilverið á nýjan leik.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur ítrekað lýst yfir
andstöðu sinni við að kísilverið verði
endurræst og Umhverfisstofnun lýst yfir að áhrifin yrðu „
talsvert neikvæð“.
Arion banki hefur skilgreint
græna framtíð, þar sem bankinn segist m.a. hafa sett sér metnaðarfulla
umhverfis- og loftslagsstefnu.