Áskorun til alþingismanna – Tryggið að rammaáætlun þjóni tilgangi sínum

Þjórsárver
Þjórsárver eru eitt helsta djásn landsmanna. Þar má upplifa einstakt samspil jökla, gróðurs og dýralífs. Ljósmyndari Ellert Grétarsson.
Við skorum á alþingismenn til þess að bregðast við göllum á rammaáætlun og breyta henni þannig að hún þjóni raunverulega tilgangi sínum.

Við skorum á alþingismenn til þess að bregðast við göllum á rammaáætlun og breyta henni þannig að hún þjóni raunverulega tilgangi sínum. Jafnframt að fara ekki í hrossakaup með landsvæði í áætluninni. Komi til breytinga á framlagðri tillögu bera að rökstyðja þær með skiljanlegum faglegum rökum.

Tryggjum faglega ákvarðanatöku

Rammaáætlun er stjórntæki sem ætlað er að byggja á faglegri ákvarðanatöku. Við búum í verðmætu landi með stórbrotinni náttúru sem á engan sinn líkan í heiminum. Óbyggð víðerni, fagrir fossar, jarðhitasvæði, eldsumbrot og jöklar mynda töfraheim andstæðna og samspils. Engin fagleg rök hafa komið fram á síðastliðnum 6 árum sem knýja á um að færa landssvæði úr verndarflokki í bið.  Mikilvægi náttúruverndar hefur hins vegar aukist þar sem nýjar rannsóknir varðandi mikilvægi og gildi óbyggðra víðerna hafa komið fram. Að auki hefur ferðaþjónustan farið vaxandi sem atvinnugrein sem hvílir á sérstöðu íslenskrar náttúru.  Í orkuskiptum verða orkusparandi aðgerðir, virk forgangsröðun og samspil náttúruverndar og loftslagsmála að vera í forgangi. Að því loknu er fyrst tímabært að meta þörfina fyrir nýjar virkjanir.

Landvernd hvetur alþingismenn til þess að fara ekki í hrossakaup með landssvæði; ákvarðanir um orkunýtingu og vernd verður að taka á faglegum forsendum. Að auki þarf að styrkja friðlýsingarskilmála, þannig að svæði í verndarflokki séu friðlýst fyrir allri orkuvinnslu.


Vindorka á heima í rammaáætlun

Markmið laga um orkunýtingu og vernd landsvæða er að skoða hvort orkunýting á ákveðnu svæði er fýsilegri en vernd svæðisins.  Þar undir fellur öll orkunýting. Vindorka er þar ekki undanskilin þrátt fyrir að lögin hafi verið sett áður en vindorkukostir komu til tals á Íslandi. Fram úr hófi hefur dregist hjá Alþingi að taka af skarið og breyta lögum 48/2011 þannig að skýrar sé kveðið á um þetta. 

Umhverfisáhrif vindorkuvera eru mikil og óafturkræf; á gróður, fugla, jarðveg, jarðmyndanir, landslag og ásýnd. Vindorkan á heima í rammaáætlun svo hún fái eðlilegan samanburð saman við aðra orkuöflunar möguleika. Norðmenn fóru ekki þessa leið og súpa nú seyðið af því með erfiðum deilum og vindorkuframkvæmdum sem dæmdar hafa verið ólöglegar.

Stærðarmörk eru lélegur mælikvarði

Rammaáætlun þjónar ekki tilgangi sínum ef framkvæmdaraðilar komast upp með að sneiða framhjá henni. Að mati Landverndar eru núverandi viðmiðunarmörk um virkjanaframkvæmdir ónothæfur mælikvarði á það hvort að framkvæmd eigi heima í rammaáætlun eða ekki. Þetta viðhorf hefur Skipulagsstofnun tekið undir. Landsvæði eru misjöfn og náttúra þeirra hefur ólíkt verndargildi.

Til þess að rammaáætlun þjóni tilgangi sínum þyrfti að gjörbreyta þessum viðmiðum og fara fram á að allir sem virkja í þeim tilgangi að selja orkuna inn á raforkunetið, þurfi að sæta niðurstöðu rammaáætlunar. Stærðarmörkin verða jafnframt að lækka og setja skilyrði um að aðeins virkjanir sem ætlaðar eru til staðbundinna einkanota geti verið undanþegnar rammaáætlun.

Stöndum vörð um íslenska náttúru

Ekki má víkja frá faglegri ákvarðanatöku eins og þeirri sem rammaáætlun byggir á. Landvernd hvetur Alþingisfólk til þess að virða faglega ferla við ákvarðanatöku og hafa ávallt í huga þá ábyrgð sem við berum gagnvart íslenskri náttúru sem er einstök í heiminum. Langtímasjónarmið með sjálfbærni og hagsmuni almennings að leiðarljósi eiga að vera í forgrunni, en ekki frekari útþensla orkufreks iðnaðar.

KYNNTU ÞÉR MÁLIN HÉR

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd