Friðlýsing Drangajökulssvæðisins – Raunhæfur valkostur

Á myndinni má sjá ármót Rjúkanda og Hvalár á Drangajökulsvíðernum. Þarna hyggst Vesturverk byggja vinnubúðir sínar, landvernd.is
Á myndinni má sjá ármót Rjúkanda og Hvalár á Drangajökulsvíðernum. Þarna hyggst Vesturverk byggja vinnubúðir sínar.
Drangajökull og svæðið umhverfis hann hefur hátt verndargildi sem óbyggð víðerni, bæði á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða. Tímabært er að friðlýsa Drangajökulsvíðerni.

Hvalárvirkjun hefur verið slegin af, a.m.k. í bili. Landvernd telur að nú megi nota tímann sem gefst til að hugleiða betur tækifæri sem kunna að felast í friðlýsingu víðerna við Drangajökul. Það er að mati Landverndar raunhæfur og betri  valkostur fyrir byggðina en virkjun.

Sorry, we couldn't find any posts. Please try a different search.

Óbyggðum víðernum fer ört fækkandi

„Drangajökull og svæðið umhverfis hann hefur hátt verndargildi sem óbyggð víðerni, bæði á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða. Víðernum fer ört fækkandi í hinum manngerða heimi og óvíða er samspil eyðibyggða og víðerna eins áberandi og á norðanverðum Ströndum. Svæðið sem hér um ræðir er víðfeðmt óbyggða- eða eyðibyggðasvæði, lítt eða ekkert raskað af hálfu manna, og hefur haldið náttúrulegum einkennum sínum.“ Svo segir í nýlegri skýrslu um friðlýsingu Drangajökulsvíðerna: Valkostur við virkjun – Umhverfisskýrsla, frá 2019.

Umhverfismat Hvalárvirkjunar fór fram á árunum 2016 og 2017; Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að virkjunin hefði veruleg og óafturkræf neikvæð áhrif. Einnig taldi stofnunin líklegt að virkjun hefði neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu þar sem upplifun ferðamanna kæmi til með að breytast á svæðinu.

Í framangreindri skýrslu eru áhrif Hvalárvirkjunar og friðlýsingar borin saman með viðurkenndum aðferðum og skv. grunnreglum laga um umhverfismat áætlana og þeim alþjóðasamningum sem lögin byggja á – í þeim tilgangi að stuðla að upplýstri umræðu.

Byggja þarf upp innviði

Friðlýsing viðerna við Drangajökul fæli í sér að varðveita sem best það náttúrufar og landslag  sem við þekkjum í dag. En meira þarf til. Innviði svæðisins og útjaðra þess þyrfti að styrkja, annars vegar til að tryggja verndun svæðisins og hins vegar til að skjóta rótum undir störf í heimabyggð. Á árinu 2016 er áætlað að um 20.000 ferðamenn hafi sótt Árneshrepp heim og af þeim heimsóknum hafi skapast 10 til 12 störf. Með því að friðlýsa svæðið og byggja upp innviði þess stendur von til að gestum geti fjölgað mikið og jafnframt að þeir dvelji lengur.

Staðfesting á verðmæti svæðisins

Í raun er friðlýsing staðfesting á stöðu svæðisins, vörumerki, sem skapar því sérstakan sess í vitund ferðamanna og ferðaþjónustuaðila. Að vissu leyti má líkja friðlýsingu við vottun sem felur í sér staðfestingu þriðja aðila á að „hið vottaða“ uppfylli tiltekin lágmarksviðmið og að upplýsingar framleiðandans séu áreiðanlegar, eins og segir í framangreindri skýrslu.

Ávinningur í nærliggjandi byggðum

Fyrirliggjandi rannsóknir benda til að áhugi fólks á að heimsækja víðerni fari vaxandi og enn fremur að greiðsluvilji þess hóps til að nota  þjónustu sem þarf til njóta fegurðar og upplifunar víðerna sé talsverður. Ávinningurinn af því að laða frekari gesti að Drangajökulssvæðinu næði ekki aðeins til nærliggjandi byggða heldur einnig til byggða sem farið er um til að komast á svæðið. Í framangreindri skýrslu segir að jákvæðra efnahagslegra áhrifa af friðlýsingu víðerna við Drangajökul myndi gæta í Árneshreppi, en einnig í nærliggjandi byggðum, svo sem á Hólmavík og í Kaldrananeshreppi (Drangsnesi og Bjarnarfirði). Þessi svæði yrðu eðlilegur áningarstaður á leið til og frá friðlandi við Drangajökul; þar væri hægt að versla, njóta matar á veitingastað eða jafnvel gista. Þannig geta jákvæð áhrif friðlands borist víða, eins og gárur á vatni.

Friðlýsing leysir ekki allan vanda

Með hliðsjón af niðurstöðum fjölmargra rannsókna er full ástæða er til að ætla að friðlýsing Drangajökulsvíðerna geti haft jákvæð áhrif á samfélagið í Árneshreppi. Vandi byggðarinnar er þó flókinn og erfitt er að fullyrða hversu mikil áhrifin verða til skemmri tíma, eða hvort þau hafi úrslitaþýðingu fyrir viðhald byggðarinnar í núverandi mynd. En til lengri tíma litið gefur friðlýsing meiri von um framtíð byggðarinnar en þau áform um Hvalárvirkjun sem nú hafa verið lögð til hliðar.

Margir taka saman höndum við friðlýsingar

Að lokum er rétt að geta þess að friðlýsingar eru almennt gerðar í samstarfi ríkisvaldsins, sveitarfélags og landeigenda. Nú þegar hafa landeigendur Dranga lagt sitt lóð á vogarskál friðlýsingar. Vonandi bætast fleiri landeigendur og sveitarfélög í þann hóp svo áformin nái fram að ganga.

Greinin birtist fyrst í BB

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd