Fyrirspurn um framgang aðgerðaáætlunar um Árósasamninginn 2018-2021
Sent Guðmundi Inga Guðbrandssyni Umhverfis- og auðlindaráðherra þann 25. nóvember 2020.
Ágæti ráðherra,
Snemma árs 2019 var gefin út hjá stjórnarráðinu aðgerðaáætlun um Árósasamninginn þar sem fylgja átti eftir innleiðingu Árósasáttmálans og ákvæðum í stjórnarsáttmálanum. Meðal aðgerða voru fræðsla til dómara og ráðuneyta um samninginn (aðgerð 1), mat á áhrifum af þátttöku almennings á ákvarðanatöku í skipulags- og framkvæmdaverkefnum (aðgerð 7), greining á löggjöf til að bæta þátttökuréttindi almennings og umhverfisverndarsamtaka (aðgerð 9) og síðast en ekki síst að tryggja að aðgangur almennings að réttarúrræðum á Íslandi sé í samræmi við ákvæði Árósasamningsins (aðgerðir 11 og 12). Þessar aðgerðir eru allar mjög aðkallandi og mikilvægar til þess að tryggja sanna innleiðingu Árósasamningsins og þar með fullnustu EES reglna.
Við minnum á að ESA komst að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu sl. vor að Alþingi og ríkisstjórnin hefði gerst brotleg við EES reglur sem byggja á Árósasamningnum haustið 2018 þegar lög sem gerðu úrskurði úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála að engu voru sett í flýti. Sú niðurstaða sýnir skýrt að Alþingi og ríkisstjórn eru ekki upplýst um mikilvægi og gildi aðkomu almennings að ákvarðanatöku og að innleiðing Árósasamningsins inn í íslenskt stjórnkerfi hefur enn ekki tekist. Viðbrögð við bréfi þar sem Landvernd innti forsætis, sjávarútvegs- og landbúnaðar og umhverfis- og auðlindaráðherra eftir svörum í kjölfar úrskurðar ESA voru enginn í tilfelli tveggja fyrstnefndu ráðherranna og Umhverfis- og auðlindaráðuneytið sagðist ætla að bíða lokaniðurstöðu ESA í málinu, sem enn hefur ekki borist.
Nú líður að lokum kjörtímabilsins og tæplega ár til stefnu til að ljúka þeim verkefnum sem lofað var að leysa. Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands óska því eftir að fá upplýsingar um það hvernig
aðgerðaáætlun um Árósasamninginn miðar. Þá óska samtökin eftir afriti af endurmati aðgerðaáætlunarinnar fyrir árin 2018 og 2019 en samkvæmt áætluninni átti endurmat á henni að fara fram í árslok ár hvert.
Rétt er að geta þess að frumvarp til laga sem lagt var fram á 150. löggjafarþingi (45. mál), hefði tekið af allan vafa vegna aðgerða 11 og 12 í aðgerðaáætlun um Árósasamninginn. Það dagaði upp í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Afrit af þessari fyrirspurn hefur því verið sent á flutningsmenn frumvarpsins.
Virðingarfyllst,
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar
Tryggvi Felixson formaður Landverndar
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands