Grænfánaúttekt og úttektalotur Skóla á grænni grein

Markmið verkefnisins þurfa að vera sýnileg nemendum og starfsfólki, tilvalið er að hafa sérstakan stað eða grænfánavegg þar sem upplýsingum um grænfánastarfið er miðlað til annarra, landvernd.is
Þegar umsókn hefur verið skilað kemur starfsmaður Skóla á grænni í grænfánaúttekt. Í úttekt skoðum við skólann og veitum ráðgjöf.

Úttekt

Eftir að skóli sendir inn umsókn um grænfána fer starfsmaður Skóla á grænni grein yfir umsóknina og finnur tíma fyrir úttekt í kjölfarið.

Í úttektinni skoða starfsmenn Skóla á grænni grein skólann og það starf sem þar hefur verið unnið. Í úttekt gefst tækifæri til að ræða um tækifæri og hindranir verkefnisins í skólanum og geta starfsmenn Skóla á grænni aðstoðað, frætt og komið með hugmyndir að lausnum.

Í úttektinni styðjast starfsmenn við matsblað. Skólar þurfa ekki að fylla matsblaðið út, en það er ágætt að nota það til viðmiðunar t.d. við skrif á greinargerð.

Fundur með umhverfisnefnd

Rætt er um hvernig til tókst á tímabilinu, hvernig skrefin sjö voru stigin og hvað var gott og hvað megi betur fara. Horft er til þess hvort þátttaka í verkefninu virðist almenn í skólanum og hvort nemendur séu virkir, sýni áhuga og hafi framtíðarsýn. Einnig hvort markmiðum hafi verið náð að mestu, en mikilvægt er að þau hafi í upphafi verið sett fram á skýran og tiltölulega vel mælanlegan hátt.

Skólinn skoðaður

Skoðað er hvort vinna skólans í sjálfbærni og umhverfismálum sé sýnileg t.d. með markmiðum, umhverfissáttmála og/eða stefnu á áberandi stað ásamt því að fá að sjá verkefni sem unnin hafa verið á tímabilinu.

Spjallað við nemendur

Spjallað við hóp nemenda um grænfánann og um vinnu þeirra í verkefninu. Litið er inn í bekki.

Í kjölfar úttektar sendir starfsmaður Skóla á grænni grein skólanum skriflega endurgjöf þar sem farið er yfir hvað hefur gengið vel og hvort það sé eitthvað sem mætti bæta, og þá með tillögum hvernig.

Standist skólinn úttekt er afhending grænfána skipulögð. 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd