Setjum okkur háleitari markmið!

Loftslagshópur Landverndar við Hörpu, landvernd.is
Heildarkvóti jarðarinnar fyrir losun gróðurhúsalofttegunda er að tæmast og Vesturlandabúar bera ábyrgð á 70% af losuninni hingað til. Hraður samdráttur er afar brýnn.

Eftirfarandi texti er ályktun frá Grasrótarhópi Landverndar í loftslagsmálum.

Hópurinn fagnar innilega að nýja aðgerðaáætlunin í loftslagsmálum sé komin út. Við höfum beðið spennt eftir að sjá útkomuna og er margt vel gert – en líka mikið rými til að bæta. Við fögnum því að nú gefist kostur á því að uppfæra áætlunina reglulega. Von er á ítarlegri gagnrýni frá grasrótarhópnum á næstunni. Nauðsynlegt er að við setjum okkur háleitari markmið!

Það er mikilvægt skref að umhverfisráðherra hafi skilgreinda ábyrgð og valdheimild til að fylgja eftir aðgerðum. Áætlunin er viss framför frá hinni síðustu og metnaður hefur verið settur í faglega vinnu við uppfærsluna. Þar má t.d. nefna að: 

  • Brugðist hefur við umsögnum við fyrri útgáfu áætlunarinnar og nýtt í þá nýju.
  • Loftslagsáætlunin er auðlesin að mestu leyti, sem skiptir miklu máli varðandi að auka skilning og aðgengi almennings.
  • Vefurinn co2.is býður uppá aðgengilega eftirfylgni með markmiðum fyrir almenning.
  • Áætlunin er í betra samræmi við losunarbókhald Íslands sem Umhverfisstofnun gefur út, sem eykur gagnsæi um áætlaðan samdrátt í losun.
  • Betur er greint frá árangri hverrar aðgerðar varðandi losun og hvernig aðgerðirnar munu samanlagt nægja til að standast við skuldbindingar Íslands.
  • Gerð er grein fyrir kostnaði og fjármögnun aðgerða.

Staða loftslagsmála á Íslandi í dag er grafalvarleg, við erum ekki að standast núverandi skuldbindingar (Kyoto II) og stjórnsýslan er í molum. Metnaðarfull markmið í dag eru ekki þau sömu og þau voru 2015 þegar Parísarsáttmálinn var undirritaður. Því þarf að gera mun betur.  Það er mikill meðbyr í samfélaginu fyrir meiri metnaði í loftslagsmálunum. Kannanir hafa sýnt að 61% þjóðar vill að tekið sé jafn alvarlega á loftslagsbreytingum og Covid-19 faraldrinum

Setjum okkur háleitari markmið!

Græningjar í Evrópu vilja sjá 60% samdrátt fyrir 2030 og Norðmenn og Þjóðverjar setja sér markmið um 55% samdrátt fyrir 2030. Danmörk setur sér enn hærri markmið. Ísland hefur alla burði til þess að stefna að álíka markmiðum, í það minnsta. 

Heildarkvóti jarðarinnar fyrir losun gróðurhúsalofttegunda er að tæmast og við á Vesturlöndum berum ábyrgð á 70% af losuninni hingað til. Hraður samdráttur Vesturlanda (20% íbúa) er því afar brýnn.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd