Hólmsá

Hólmsá er í hættu, Hólmsárvirkjun er í biðflokki, verndum náttúruna. landvernd.is
Hólmsá er í hættu. Hættum að virkja fyrir stóriðju. Verndum landið.

Landsvirkjun og Orkusalan ehf. hafa farið fram á skoðun þriggja mismunandi virkjana í Hólmsá í Skaftárhreppi. Í fyrsta lagi er um að ræða virkjun við Einhyrning, annarsvegar með miðlunarlóni (Hólmsárlóni) og hinsvegar án miðlunar. Þriðja hugmyndin er svo Hólmsárvirkjun við Atley við eystri mörk Fjallabaksleiðar syðri. Verði önnur virkjananna við Einhyrning byggð útilokar það virkjun við Atley og öfugt. Í núverandi rammaáætlun er virkjanahugmyndin sem inniheldur miðlunarlón í verndarflokki en hinar tvær í biðflokki.

Svæðið þar sem til stendur að byggja Hólmsárlón er mikið nýtt af ferðamönnum, bæði erlendum og innlendum. Lónið markar sár í annars ósnortin og fögur víðerni sem eru mikilvæg auðlind fyrir ferðaþjónustu á svæðinu enda liggur Fjallabaksleið syðri þarna um. Ofan lónsstæðis er hinn snotri Axlarfoss í fögru stuðlabergsumhverfi. Svæðið er skammt austan Torfajökuls, einnar helstu náttúruperlu Íslands, og Brytalækir eru skammt frá virkjunarsvæðinu, en Hólmsá sækir m.a. vatn þaðan. Nýlega hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að bæta Torfajökulssvæðinu á yfirlitsskrá Íslands með tilnefningu til heimsminjaskrár UNESCO í huga. Virkjanirnar myndu valda óafturkræfum áhrifum og skerða upplifun ferðamanna af víðernum norðan Mýrdalsjökuls.

Hólmsárvirkjun við Atley efst í Skaftártungum yrði í jaðri hálendisins við eystri mörk Fjallabaksleiðar syðri með 10 ferkílómetra miðlunarlóni. Virkjunin myndi hafa verulega neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna á þeirri leið. Um er að ræða óröskuð víðerni austan Mýrdalsjökuls sem teygja sig niður á láglendi, en þangað sækja ferðamenn í vaxandi mæli. Gert er ráð fyrir tengingu við raforkuflutningskerfið við Sigöldulínu, í um 30 km fjarlægð frá virkjuninni. Þessi lína myndi skera heiðarlönd Skaftártungu og valda mikilli sjónrænni mengun þar sem fjölfarnir fjallvegir tengjast, Fjallabaksleið syðri og Fjallabaksleið nyrðri. Ekki er fyllilega ljóst hvort Sigöldulína beri þá orkuaukningu og myndi stækkun hennar hafa óæskileg áhrif á Friðland að Fjallabaki, Fjallabaksleið nyrðri og flest útivistarsvæði að Fjallabaki. Hólmsárfoss er skammt ofan fyrirhugaðs miðlunarlóns og hefði lónið neikvæð sjónræn áhrif séð frá áningarstað ferðamanna við fossinn. Vatnsrennsli Hólmsár skerðist neðan stíflu við Atley og hefði það áhrif á Hrossafoss sem yrði vatnsminni. Birkiskógur vex í hlíðum Snæbýlisheiðar og um 40 hektarar af birkiskógi myndu fara undir vatn. Safastör finnst í votlendi á svæðinu sem færi undir vatn en hún finnst á fáum stöðum á Íslandi. Fuglavarp er meðfram Hólmsá, neðan Hólmsárfossa. Þar er annað tveggja varpsvæða helsingja á Íslandi og færi hluti varpsvæðisins undir vatn.

Efri Hólmsárvirkjun yrði um 70 MW að stærð og félli í kostnaðarflokk 3 af 5 hjá síðustu rammaáætlun, en virkjun við Atley er nokkru minni og óhagkvæmari, 65 MW í 4 flokki.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd