Hraðar, hraðar! Orkuskipti eða neysluskipti?

Hraðar, hraðar! Orkuskipti eða neysluskipti? Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur skrifar um brýna nauðsyn þess að segja sannleikann.

Við erum gráðugustu og hættulegustu skepnur jarðar og jafnframt þær skynlausustu af því að við vitum og skiljum en skynjum samt ekki hættuna, skynjum ekki hvaða fórnir við þurfum að færa strax, í hve mikilli hættu framtíðarfólkið okkar er og höldum áfram að gleypa heiminn og gera það sem okkur sýnist.

Óþægilegur sannleikur

Við skynjum ekki að barnarbörnin taka strax afleiðingum gjörða okkar. Við tengjum ekki við að þessi börn fái fljótlega alla okkar neyslu í hausinn, að þau fái í fangið að við bregðumst ekki við af fullum krafti sem einstaklingar, samfélag og jarðarbúar.

Það er í raun furðulegt að við skulum ekki grípa til neyðaraðgerða líkt og í veirufaraldri. Þá skelltum við löndum og heimsálfum í lás, slökktum á öllum kerfum, lokuðum okkur inni, ekki bara eitt þorp, einn bær, ein borg, eitt land, heldur allir og alls staðar. Við getum þetta þegar við sjáum okkur sjálf í öndunarvélum á yfirfullum gjörgæslum – veik eða dáin. Ef við verðum hrædd getum við bylt risasamfélögum á einni nóttu. Þá getum við flykkst í rað-bólusetningar og gengið með grímur.

En þótt við upplifum alvarlegar vistkerfisbreytingar, hopandi jökla, aukinn ofsa í veðrakerfum, flóð og skógarelda, stækkandi eyðimerkursvæði og loftslagsflóttafólk, tökum við alls ekki við okkur eins og í veirufaraldri. Þá tölum við um ráðrúm og aðlögunarferli og að leita tækifæra í mótvægisaðgerðum. Við leitum örvæntingarfull að kapítalískri lausn svo neyslusamfélagið haldi velli. Þægilegar lygar verða haldbetri en óþægilegur sannleikur og það má ekki gera börnin loftslagskvíðin. Versti kvíðinn er þó sá sem sækir að okkur þegar við uppgötvum að valdhafar bregðast ekki við af fullum kafti en forðast umræðuna um neysluskipti eins og heitan eldinn.

Kaupmáttur og sálmasöngur

Nýjar leiðir til að bjarga lífi á jörðinni verða að vera sniðugar og mega alls ekki standa í vegi fyrir hagvexti, kaupgetu og kaupmáttaraukningu neytenda. Það er heilagur sálmasöngur. Og við notum orðið neytendur til að lýsa sjálfum okkur. Við notum það orð frekar en að tala um að við séum almenningur, samferðafólk og jarðarbúar. Við erum neytendur sem lifum á mannsögulegum neyslutímum þar sem svokölluð hagsæld einnar tegundar er að skaða öll lífsskilyrði á jörðinni. Aðrar tegundir hopa undan okkur. Sveltandi ísbirnir leita sér að æti á ruslahaugum. Rauðrefurinn er ræsisdýr í stórborgum. Við þurfum meira pláss, meira land, hærra neyslustig.

Gámaskipin bruna með fjöldaframleitt drasl fram og til baka, yfir súru höfin, til að keyra áfram neysluvélar af því að við erum öll neytendur. Og við þurfum að fá allt og fara allt og vera alls staðar. Jafnvel fjallið Everest, sem fyrst var klifið fyrir sjötíu árum, er í dag fjölfarinn ferðamannastaður. Fjallið er neysluvara. Við keppum í neyslu, verðum að sigra náttúruna og gera helst meira en mest og mæla árangur í neyslugetu og samanburði.

Einhver verður að stoppa okkur. Við gerum það ekki sjálf. Við reynum og við setjum okkur loftslagsmarkmið. Sumir setja sér jafnvel kolefnismarkmið og ferðatakmörk. Við rafvæðum bílaflota, flokkum plast sem enginn veit hvað gert er við, flokkum rusl frá fjarlægum ströndum og flytjum á hauga í öðrum löndum. Við sendum ónýtar tuskur á ókleif fatafjöll erlendis. Þetta eru tilviljanarkenndar tilraunir sem sumar enda hvergi. Og risafyrirtækin bera nær enga umhverfisábyrgð við framleiðslu, hvað þá förgun. Það má ekki styggja freka fyrirtækjakallinn.

Lottótölur og súkkulaðikúlur

Nýlega eignuðumst við svo hið jákvæða orð, orkuskipti. Fljótlega eftir það eignuðumst við slagorðið: Hröðum orkuskiptum! Sem er snilld. Það slær á loftslagskvíðann að hraða jákvæðum breytingum. Og galdurinn við að hraða orkuskiptum er svo að auka raforkuframleiðslu um 125 prósent samkvæmt starfshópi sem umhverfisráðherra skipaði. Gamall hagfræðingur og pólitíkus af annarri öld leiddi hópinn. Ekki vísindamaður, ekki sérfræðingur í málaflokknum. Og 125 prósenta aukning í raforkuframleiðslu er mantran eftir vandræðalega stutt vinnuferli hópsins. Það er tala sem segir ekki neitt. Það er lottótala – súkkulaðikúlur í poka. Miðað við hvað? Miðað við fulla ferð áfram, himinháar kaupmáttarkröfur og endalausan hagvöxt? Miðað við að keyra áfram álverin öll og breyta engu? Miðað við að umturna ekki neyslumynstri? Miðað við að bylta ekki matvælaframleiðslu, endurhugsa ekki ræktun og landbúnað og hið heilaga styrkjakerfi hans? Miðað við að hugsa samfélagið alls ekki uppá nýtt? Miðað við að hraða ekki neysluskiptum en láta áfram eins og að bleiki fíllinn sé ekki til staðar um leið og bleikum fílum fjölgar svo hratt að við troðumst undir þeim? Já, og miðað við að finna ekki að minnsta kosti 125 leiðir til að hraða neysluskiptum.

Brjálæðingur eða hagfræðingur

,,Sá sem trúir á takmarkalausan vöxt á plánetu sem á sér takmörk er annað hvort brjálæðingur eða hagfræðingur,“ sagði hagfræðingurinn Kenneth Boulding á áttunda áratug liðinnar aldar. Þá áttuðu einhverjir sig á því að trúin á endalausan vöxt er skelfilega jarðtortímandi. Samt kennum við sömu setningar og vitnum áfram í eldgömlu -ismana. Við gerum það um leið og jörðin og jarðvistin þarf svo lífsnauðsynlega nýja -isma og allt aðra sýn þar sem allar stjórnmálaákvarðanir verði aðeins teknar út frá vistfræðilegri og náttúruvænni hagsæld – svo plánetan lifi okkur af. En við ætlum að hraða orkuskiptum. Og gamli hagfræðingurinn skilaði umhverfisráðherra hraðsoðnum kapítalískum tillögum um að auka raforkuframleiðslu um 125 prósent sem allra hraðast. Sem er auðvitað grænn gæðastimpill á nýjar virkjanir sem víðast. Helstu ráðamenn og forkólfar sungu í rödduðum kór í fjölmiðlum um nauðsyn þess að hraða orkuskiptum með því að auka raforkuframleiðslu um 125 súkkulaðikúlur – svo neytendur lærðu að kyrja möntruna líka.

Lokaviðvörun og leiðindi

Skömmu síðar sendi milliríkjanefnd um loftslagsmál hjá Sameinuðu þjóðunum frá sér lokaviðvörun sem fór ekki sérlega hátt. Skýrslan er enda unnin af alþjóðlegu teymi alvöru vísindamanna og í henni er lagt mat á stöðu þekkingar meðal þjóða á mótvægisaðgerðum vegna loftslagsbreytinga. Ein niðurstaða þessarar lokaviðvörunnar er að hvergi skorti á lausnir og getu til að takast á við vandann í samfélögum heims. En það sem vantar allstaðar er alvöru pólitískur vilji og stórt hugrekki á heimsvísu. Og þetta er lokaviðvörun frá vísindahópi Sameinuðu þjóðanna. Framtíð komandi kyn¬slóða og afkoma lífríkis á jörðu er í húfi. Fjölmiðlar hlupu ekki með hljóðnemana á milli ráðamanna og orkuforkólfa daginn sem lokaviðvörunin var birt. Hvergi heyrðist hinn raddsterki 125 prósenta raforkuframleiðslukór syngja um hugrekki, vilja og neysluskipti. Þó var táknrænt að rætt var við íslenskan vísindamann í kjöfarið sem læddist í kringum bleika fílinn. Hann talaði um spennandi og skemmtileg tækifærin sem lægju í loftslagsvandanum. Þetta er umræðuaðferðin í neyslusamfélaginu. Við megum ekki styggja freka fyrirtækjakallinn. Hann verður að upplifa sig sem hluta af lausninni en ekki vandanum. Hann verður að fá að teikna einkavirkjanir inn í rammaáætlun og hraða orkuskiptum.

Þannig hentar ekki að ræða lokaviðvörun og neysluskipti. Það má líka ekki vera leiðinlegt því þá verða börnin svo kvíðin.

Greinin birtist fyrst í Ársriti Landverndar 20. maí 2022.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd