Hamarsvötn og Þrándarjökull
Hamarsvötn og Þrándarjökull. Ljósmyndari: Skarphéðinn Þórisson

Upptök Hamarsár eru á vatnasviði svokallaðra Hrauna. Hraunasvæðið nær yfir víðlent hálendi allt frá Eyjabökkum við Snæfell austur yfir vatnaskil, um innanverðan Geitdal og Háups að fjallveginum yfir Öxi og niður í drög suðurfjarða Austurlands. Nú þegar hefur verið virkjað mikið á vatnasviði Hraunasvæðis eða allt frá Hálslóni og sunnan við Snæfell þar sem svokölluð Hraunaveita þekur víðfemt svæði með fjórum misstórum uppistöðulónum.

Síðustu lítt röskuðu víðerni Hraunasvæðis eru hinsvegar að finna utar á Hraunum þar sem nú hafa einnig verið sett stórtæk virkjanaáform á dagskrá. Hraunasvæðið er jarðfræðilega sérstætt. Það rís hæst í Þrándarjökli (1248 m) og Hofsjökli eystra (1180 m) og tengist Lónsöræfum á vatnaskilum. „Yfir Hraun“, fyrrum nefnd Sviðinhornahraun, lá alfaraleið úr Fljótsdal til Berufjarðar og Hamarsfjarðar, nú heillandi gönguleið.

Vestan vatnaskila á Hraunum er afréttin Villingadalur fram með óskertri og fossum prýddri Sultarranaá og Fellsá og í hana fellur Strútsá með tvíþrepa Strútsfossi sem gefur Hengifossi ekki eftir um glæsileik. Lítt raskaðar afréttir á Hraunum sem eftir standa eru kjörinn efniviður í sérstakt náttúruverndarsvæði sem gæti í framtíðinni tengst miðhálendisþjóðgarði.

Eftir að Orkustofnun gaf hinsvegar út rannsóknarleyfi á þessum hluta Hrauna myndaðist verulegur þrýstingur og ásókn fyrirtækja í orkuframleiðslu sem vilja ásælast síðasta hluta lítt snortinna víðerna á hálendi Austurlands. Umrætt svæði aðliggjandi Hraunaveitum er í raun nær allt það svæði og vatnasvið sunnan og austan Snæfells sem ekki hefur nú þegar verið lagt undir virkjanir.

Hraunasvæðið

Sá hluti Hraunasvæðis sem hér er til umfjöllunar hefur aðliggjandi landamörk þriggja sveitarfélaga sem mætast á vatnaskilum Hrauna, þ.e. Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps. Um er ræða síðasta lítt raskaða ósnortna víðerni á hálendi Austurlands.

Jarðfræði svæðisins er lítt rannsökuð og þarfnast svæðið heildstæðrar úttektar er varðar jarðfræði, gróðurfar og líffræðilega fjölbreytni.

Innan svæðisins eru tveir jöklar, Þrándarjökull og Hofsjökull, og vatnasvið þess er mjög fjölbreytt.

Á Hraunum eru þekktar þjóðleiðir sem farnar voru á árum áður og má sjá bæði minjar og örnefni sem styðja við merkilega sögu svæðisins, einmitt þar sem áformaðar virkjanaframkvæmdir eru.

Umhverfi

Umhverfi Hraunasvæðisins er einstakt og þeir sem hafa heimsótt svæðið aftur og aftur segja að upplifun sé mjög sterk og tengsl við náttúru hvergi meiri. Þögnin á Hraunum sé svo mikil á góðviðrisdögum að þar upplifi fólk sig sem eitt í heiminum umfram aðra staði sem það hefur heimsótt og það geri hið fallega víðerni og umhverfið algjörlega einstakt.

Virkjanahugmyndir

Í ljósi útgefinna rannsóknarleyfa af hálfu Orkustofnunar og þegar áformaðra skipulagsbreytinga einstakra sveitarfélaga liggur fyrir verulegur þrýstingur og ásókn fyrirtækja í orkuframleiðslu að ásælast í raun síðasta ósnortna víðerni á hálendi Austurlands sem kalla má einu nafni Hraunasvæðið. Segja má að um sé að ræða í heild sinni það svæði og vatnasvið sem ekki hefur þegar verið lagt undir virkjanir, sbr. Hálslón og aðliggjandi Hraunaveitu. Tvö stórtæk áform eru uppi um frekari virkjanir á Hraunum, en það er Hamarsárvirkjun, ríflega 60 MW (4R) og Geidalsvirkjun 9,9, MW. Um er að ræða í raun síðustu lítt snortnu víðerni Hrauna og hálendis Austurlands. Þessi gríðarmiklu virkjanaáform eru hluti af öðrum áformum sem voru í biðflokki 3.áfanga rammaáætlunar þ.e. Hraunavirkjun ofan í Berufjörð.

Hamarsárvirkjun

Að þessum áformum af virkjunarhugmyndum af Hraunasvæði viðbættum þá hefur Orkustofnun gefið út rannsóknarleyfi fyrir svokallaðri Hamarsárvirkjun sem rennur í Hamarsfjörð í Djúpavogshreppi. Þar er afkastageta reyndar áætluð mjög mikil eða 30-75 MW og er illskiljanlegt hvernig fengist hefur rannsóknarleyfi á þessa stöku virkjunarhugmynd sem er hvergi getið um í rammaáætlun og er að auki langt yfir viðmiðum er varðar umhverfismat.

Heimild: Orkustofnun

Geitdalsvirkjun

Geitdalsvirkjun af Hraunum er áætluð 9,9 MW með a.m.k. tveimur stíflustæðum og mun hið stærra vera allt að 1 km að lengd og að jafnaði 18 m hátt. Allir staðhættir eru til að stækka Geitdalsvirkjun verulega síðar meir og yrði það gert með því að sækja meira land og vatn inn á Hraunasvæðið.

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað hefur fallist á gerð skipulagslýsingar í samráði við fyrirtækið Arctic Hydro þar sem áformum Geitdalsvirkjunar er lýst.

Heimild: Múlaþing

 

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is