Loftslagshópurinn gagnrýninn á aðgerðaáætlun

loftslagshopurinn.fimmvodruhals.2020, landvernd.is
Grasrótarhópur Landverndar í loftslagsmálum skilaði nýverið inn umsögn sinni við uppfærðri aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.

Loftslagshópurinn samanstendur af fjölbreyttu fólki á öllum aldri. Hópurinn hittist reglulega, fræðist um loftslagsmál og skipuleggur ýmsa viðburði og gjörninga í þágu loftslagsins.

 Í umsögn sinni fagnar hópurinn að ný uppfærð áætlun sé komin út og að hún sé metnaðargjarnari enn sú fyrri. Sérstaklega finnst hópnum jákvætt að brugðist hefur við fjölda umsagna um fyrri áætlun, að vefurinn CO2.is hafi verið settur í loftið og að betur sé greint frá árangri hverrar aðgerðar.

Á sama tíma hefði hópurinn viljað sjá stjórnvöld setja sér mun háleitari markmið. Kannanir hafa sýnt að 61% þjóðarinnar vill að tekið sé jafn alvarlega á loftslagsbreytingum eins og Covid-19 faraldrinum.

Athugasemdir hópsins eru fjölbreyttar og þvert á kafla áætlunarinnar. Hópurinn bendir auk þess á mikilvægi þess að rétt sé greint frá fjármögnun áætlunarinnar og t.d. gert grein fyrir tekjum sem fylgja áætluninni. Það gefur ranga mynd af fjármögnun að halda því fram að 46 milljarðar renni til loftslagsmála á næstu árum. Í áætluninni er t.d. tekinn með kostnaður vegna uppbyggingar borgarlínu, sem er fyrst og fremst nauðsynlegt samgönguverkefni fyrir höfuðborgina og mun hafa í för með sér jákvæð afleidd áhrif m.a. á loftgæði og lýðheilsu.

Hópurinn leggur til sjö nýjar aðgerðir fyrir stjórnvöld.

1.Ísland í alþjóðlegu samhengi

Við óskum eftir því að í næstu loftslagsáætlun verði sett fram markmið um alþjóðlegt samstarf, m.a. þegar kemur að loftslagsflóttafólki og stuðningi við þriðja heims lönd.

2.Rafvæðing flugsamgangna

Við óskum eftir því að ríkið styðji íslenska flugrekstraraðila við kaup eða leigu á rafknúnum vélum í innanlandsflugi

3.Minnka ferðaþörf með stafrænum lausnum

Við óskum eftir því að stafrænar lausnir verði nýttar til þess að draga úr ferðaþörf fólks, t.d. á spítala, í skóla og vinnu.

4.Olíulaust Ísland 2035

Við óskum eftir því að stjórnvöld setji sér markmið um að hætta alfarið notkun jarðefnaeldsneytis fyrir árið 2035.

5.Ábyrgur fréttaflutningur og ábyrgð stjórnvalda

Við óskum eftir því að stjórnvöld fordæmi opinberlega tilfelli þar sem þjóðarleiðtogar afneita loftslagsbreytingum. Auk þess óskum við eftir því að ríkisútvarpið leggi meiri áherslu á sanna og áreiðanlega fjölmiðlaumfjöllun.

6.Lækkun á raforkuverði til grænmetisframleiðslu

Við óskum eftir því að ríkið stígi það löngu tímabæra skref að lækka verð á raforku til grænmetisframleiðslu.

7.Bætt eftirlit með kolefnisspori Íslendinga

Við óskum eftir því að heildar kolefnisspor neyslu Íslendinga sé reiknað. Þeim upplýsingum verði reglulega miðlað til almennings, því viðurkennning og þekking á almennu umhverfisspori er fyrsta skrefið til að skapa hvata til að draga úr neyslu.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd