Vörðufell er móbergs- og grágrýtisfjall, staðsett á láglendi Hvítár, sunnan Laugaráss og á toppi þess er Úlfsvatn. Víðsýnt er af toppi Vörðufells á helstu tinda Suðurlands og upp á hálendið. Fyrstu hugmyndir um Vörðufellsvirkjun í Hvítá í Árnessýslu komu fram árið 1963, en þá komu fram áform um að byggja dæluvirkjun við Vörðufell sem yrði varaaflsstöð fyrir álverið í Straumsvík. Vatni yrði dælt úr Hvítá upp í Úlfsvatn á Vörðufelli sem síðan yrði notað til miðlunar og orkuframleiðslu. Vatnsstaða yrði hækkuð talsvert með stíflum og vatni tappað úr því þegar þörf væri. Við virkjunina myndi vatnið því stækka talsvert og gróður eyðast. Stöðvarhús og skurður yrðu á Höfðaflötum vestan fjallsins en þar er lítt raskað votlendi með ríkulegu fuglalífi. Hvítá í Árnessýslu er ein lengsta á landsins en hún á upptök sín í Hvítárvatni, við Langjökul. Áin hefur ekki verið virkjuð fyrir raforkuframleiðslu hingað til.