Loftslagsáhrif
Nauðsynlegt er að mati Landverndar að skýr lífsferilsgreining með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin um að fara af stað í að reisa verksmiðjuna. Þar verður að leggja mat á m.a. losun vegna byggingar verksmiðjunnar og orkuöflunar sem og skilgreinda losun frá aðföngum og landnotkun vegna beggja þátta.
Markmið í loftslagsmálum – orkuskipti
Stjórnvöld hafa sett fram metnaðarfull markmið í loftslagsmálum um kolefnishlutleysi fyrir 2040 og amk. 55% samdrátt í losun fyrir 2030 m.v. 2005. Skv. aðgerðaáætlunum og niðurstöðu starfshópa ráðuneytisins á samdráttur í losun að nást að miklu leyti með orkuskiptum. Stjórn Landverndar vill því varpa þeirri spurningu til Skipulagsstofnunar hvort stefnumörkun stjórnvalda í loftslagsmálum komi ekki í veg fyrir að hægt sé að fara fram með framkvæmd sem beinlínis vinnur gegn orkuskiptum með því að nýta orku sem ætti að fara í orkuskipti innanlands, til útflutnings.
Áhrif á náttúru
Nauðsynlegt er að fram fari ítarlegt mat á áhrifum á jarðmyndanir, landslag, fugla og gróður. Þó fyrirhugað verksmiðjustæði sé á svæði sem skilgreint er í skipulagi sem iðnaðarsvæði er þar samt sem áður lítt raskað nútímahraun. Varúðarreglu umhverfisréttar verður einnig að hafa í hávegum þannig að ákvörðun um framkvæmd sé ekki tekin nema að upplýst sé að áhrif á til dæmis fuglalíf, jarðmyndanir og gróður séu innan viðmiða.
Víti til að varast
Allar líkur eru nú á því að kísilver United Silicon í Helguvík verði ekki ræst aftur. Það eru einkar jákvæðar fréttir fyrir íbúa Reykjanesbæjar, fyrir loftslagsbókhald Íslands og fyrir íslenska náttúru. Hins vegar er nauðsynlegt að grannskoða ákvarðanir fyrri ára um mengandi iðnaði á Íslandi. Í Helguvík eru leifar kísilvers United Silicon, fyrirhugaðs kísilvers Thorsil og fyrirhugaðs álvers. Íslenskt samfélag hefur tapað gríðarlegum fjármunum á þessum draugum og nauðsynlegt er að fara yfir hvernig það gat gerst að svo risavaxin áform komust svo langt löngu áður en nauðsynlegar forsendur lágu fyrir.
Það sama gildir með vetnis- og metanverksmiðju á Reykjanesi. Betra er að fara sér hægt og tryggja að allar hliðar málsins séu vel upplýstar áður en ákvörðun er tekin. Þar eru fagleg og lýðræðisleg vinnubrögð mikilvægasta stoðin. Þá er nauðsynlegt að skoða til hlítar áhrif verksmiðjunnar á náttúru landsins bæði beint og í gegnum orkuþörf og að teknu tilliti til annarrar orkufrekrar starfsemi á svæðinu, væntrar og núverandi.