Norðausturland
Verndarflokkur
Vatnsafl
Jökulsá á Fjöllum er lengsta og vatnsmesta áin sem fellur úr norðanverðum Vatnajökli og þarna eru margar virkar eldstöðvar. Svæðið er talið eitt það mest framandi og sérkennilegasta á hálendi Íslands og áin rennur meðal annars um Vatnajökulsþjóðgarð, Jökulsárgljúfur og Öskju, Herðubreiðarfriðland, Hvannalindir, votlendi við Öxarfjörð, við Kverkfjöll og nálægt Ódáðahrauni.
Dettifoss og Hljóðaklettar
Náttúrufegurð er talin mikil á svæðinu. Árgljúfrið er stöllótt, efsti og víðasti farvegurinn er grafinn af stærsta hamfarahlaupinu en sjálf rennur áin í þrengsta og dýpsta gljúfrinu. Hlaupin surfu og plokkuðu allt sem fyrir varð, meðal annars gígaröð í farveginum þar sem nú standa Hljóðaklettar, furðulegar myndir ljóna, trölla og kastala.
Vatnasvið Jökulsár á Fjöllum er nær óraskað
Vatnasvið Jökulsár á Fjöllum er enn næstum óraskað. Áin rennur með árstíðabundnum sveiflum í náttúrulegum farvegi og skilar framburði til sjávar. Aðeins allra neðst, á söndunum í Kelduhverfi, hafa verið reistar fyrirhleðslur til að draga úr landbroti. Tvær af hverjum þremur stórám jarðar hafa nú verið stíflaðar og rennsli þeirra miðlað. Í Evrópu (utan Íslands) eru aðeins eftir alveg óraskaðar þrjár stórar ár. Ísland er nánast eina landið í Evrópu þar sem enn eru heilleg stór eða sæmilega stór vatnakerfi.
Einar Benediktsson reyndi að selja Dettifoss
Einar Benediktsson reyndi á sínum tíma að selja erlendum auðjöfrum Dettifoss en taldi fossinn reyndar miklu hærri en hann raunverulega er. Síðan hafa verið uppi nokkrar hugmyndir um virkjun Jökulsár og eiga flestar það sameiginlegt að veita ánni austur á land, nú síðast hugmyndir um Arnardalsvirkjun og Helmingsvirkjun, en þær falla í verndarflokk samkvæmt rammaáætlun.
Lífríki
Eitt af mikilvægustu fuglasvæðum í Evrópu
Mikið fálkavarp er að finna við Jökulsá á Fjöllum.
Fjölbreytt fuglalíf við Jökulsá á fjöllum
Fuglalíf er fjölbreytt í Arnardal og Möðrudal, þar finnast meðal annars níu tegundir anda og nokkur fálkasetur. Heiðagæs er algeng en 5% íslensk-grænlenska stofnsins verpur þarna.
Eitt af mikilvægustu fuglasvæðum í Evrópu
Svæðið við Jökulsá á Fjöllum er talið meðal mikilvægra fuglasvæða í Evrópu (nr. 43 af Important Bird Areas (IBAs) in Europe).
Votlendið er víða afar fjölbreytt og er á skrá yfir helstu votlendi í Evrópu.
Umhverfi
Langt suður af Möðrudal liggur vegurinn inn í Kverkfjöll um mynni Arnardals. Arnardalur er grænn og vel gróinn og þar eru lítt kannaðar mannvistarleifar sem talið er að geti verið frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar.
Áin fellur um einstök náttúrusvæði
Jökulsá á Fjöllum rennur um mikilvæg svæði á landinu, meðal annars Vatnajökulsþjóðgarð, Jökulsárgljúfur og Öskju, Herðubreiðarfriðland, Hvannalindir, votlendi við Öxarfjörð og Kverkfjöll.
Virkjunarhugmyndir
Arnardalsvirkjun fellur í verndarflokk en með virkjun hefði Arnardal verið sökkt, uppistöðulón hefðu myndast víða, þar á meðal frá Arnardalsöldu austur á Grjót og við ármót Hölknár, og Dettifossi hefði verið breytt, en fossinn er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Auk þess myndi lón í Arnardal eyða öllu heiðagæsavarpi í dalnum (740 pör eða 2% stofnsins árið 2002).
Helmingsvirkjun fellur í verndarflokk Rammaáætlunar en með virkjun hefði grunnrennsli Jökulsár á Fjöllum verið virkjað, lón í farvegum Kreppu og Jökulsár hefðu verið mynduð og 49 km aðrennslisgöng hefðu verið grafin undir Jökulsá á Dal að stöðvarhúsi sem hefði risið skammt sunnan við Skriðuklaustur í Fljótsdal.
Náttúrukortið
Kynntu þér náttúrukortið.
Skoðaðu þá einstöku staði sem eru í hættu vegna virkjana.
Landvernd er málsvari náttúrunnar
Hjálpaðu okkur að vernda einstaka náttúru Íslands. Vertu með í Landvernd.