Kaldakvísl er staðsett á Sprengisandsleið sem er ein fjölfarnasta hálendisleið landsins og liggur hún um Skrokköldu. Þar eru miklar víðáttur og sjá má fjölbreytilegt landslag sem einkennist af landmótun jökla og eldsumbrota. Líparítfjöllin, Nyrðri- og Syðri-Háganga, eru áberandi kennileiti hálendisins. Skrokkalda er á miðri Sprengisandsleið, á milli Hofsjökuls í vestri og Vatnajökuls í austri. Þar er gríðarleg víðátta með tilheyrandi fjalla- og jöklasýn. Gilið undir Skrokköldu sunnanverðri er víðfrægt fyrir blómstrandi eyrarrósina, sem á sumrin fangar ferðalanga sem leið eiga hjá. Hugmyndir eru um 45 MW vatnsaflsvirkjun á svæðinu, ásamt 60 km háspennulínu sem myndi gjörbreyta ásýnd svæðisins. Virkjanaframkvæmdir, með tilheyrandi efnistöku, vega- og línulögnum, munu raska náttúrulegri ásýnd svæðisins á Sprengisandi. Fyrirhuguð staðsetning Skrokkölduvirkjunar er u.þ.b. 5 km frá mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs sem er á heimsminjaskrá UNESCO.
Hágöngur og Skrokkalda
Stíflumannvirki voru byggð á Hágöngusvæðinu árið 1998 til að mynda miðlunarlón fyrir virkjanirnar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Við það fóru 37 km² af fögru landsvæði undir vatn, þar á meðal jarðhitasvæði. Þá var vegslóði lagður í Sveðjuhrauni og boruð þar djúp hola í tilraunaskyni í tengslum við hugmyndir um jarðvarmavirkjun.
Umrætt svæði er nær því að vera í miðju hálendisins og uppbygging mannvirkja þar með tilheyrandi virkjanabyggingum, vegagerð og línu- og pípulögnum myndi höggva stórt skarð í hjarta hálendisvíðerna landsins. Þrátt fyrir byggingu Hágöngustíflu og skemmdir sem unnar voru á jarðhitasvæðum í lónstæðinu eru sýnileg áhrif vegna þessara mannvirkja með minnsta móti. Kemur þar m.a. til að ekki var byggður upp vegur frá Sprengisandsleið að stíflumannvirkjunum eins og til stóð. Í staðinn var notast við gamalt vegstæði.
Líkt og Hálslón, Ufsarlón og Kelduárlón myndu virkjanir við Hágöngur og Skrökköldu þrengja enn frekar að Vatnajökulsþjóðgarði og rýra gildi hans. Ef Hágöngulón hefði ekki verið komið fyrir stofnun þjóðgarðsins hefðu eðlileg mörk hans verið vestan við Hágöngur.
Skrokkölduvirkjun og Hágönguvirkjun á miðhálendi Íslands eru dæmi um virkjanir sem myndu skerða gríðarlega stór og dýrmæt víðerni vestan Vatnajökuls og skiptir engu hvort þær eru einar og sér eða báðar saman. Fleiri virkjanir myndu þar af leiðandi valda varanlegri eyðileggingu á svæðinu austan Hágangna. Ennfremur er Hágöngusvæðið ekki aðeins á hinum virka, jarðfræðilega rekás heldur er það einnig á einu virkasta eldsumbrotabelti jarðar í nánasta umhverfi heita reitsins undir Íslandi. Verndargildi þess er því hátt.
Umhverfi
Jökulmenjar á svæðinu eru áreyrar Köldukvíslar undir Hágöngulóni. Kaldakvísl og Sveðja falla í manngert Hágöngulón.
Á svæðinu má sjá líparítgúlana Hágöngur nyrðri og syðri rísa upp úr móbergi og hraunlögum frá síðari hluta ísaldar, sem er nútímahraun.
Lítt þekkt háhitasvæði er að finna á Hágöngusvæðinu, en það er nú að hluta til undir Hágöngulóni. Yfirborðsjarðhita var aðallega að finna á þremur stöðum en tveir þeirra lentu undir vatni er Hágöngulón var fyllt. Þriðji staðurinn er vestast í Sveðjuhrauni. Á svæðinu virðist vera megineldstöð og er ekki ólíklegt að í henni sé askja þótt hún sjáist ekki.
Virkjunarhugmyndir
Hugmyndir eru um 45 MW vatnsaflsvirkjun á svæðinu þar sem virkjuðu rennsli yrði veitt eftir 9 km löngum jafnt hallandi göngum frá Hágöngulóni að neðanjarðar stöðvarhúsi vestan í Skrokköldu.
Leggja þyrfti háspennulínu frá virkjuninni, líklega að landskerfi við Vatnsfellsvirkjun eða um 60 km vegalengd.
Óvissa er um sjónræn áhrif langrar háspennulínu á náttúru og ferðaþjónustu og ekki hefur verið tekið inn í mat á hugmyndinni mögulegar línulagnir yfir hálendið.
Skrokkölduvirkjun er áætluð 45 MW og skiptir sem slík litlu máli í orkubúskap landsins. Á hinn bóginn þyrfti að leggja um 60 km af háspennumöstrum og línum nálægt Sprengisandsvegi suður til Vatnsfells með umtalsverðu tilheyrandi raski, veglagningu, sjónrænum áhrifum og eyðileggingu á hálendisinu sem landslagsheild.