Kárahnjúkavirkjun virkjar rennsli Jökulsár á Dal, Jökulsár í Fljótsdal, Kelduár og þriggja þveráa hennar. Virkjunin er sú stærsta á landinu.
Kárahnjúkavirkjun virkjar rennsli Jökulsár á Dal, Jökulsár í Fljótsdal, Kelduár og þriggja þveráa hennar. Virkjunin er sú stærsta á landinu.

Kárahnjúkavirkjun virkjar rennsli Jökulsár á Dal, Jökulsár í Fljótsdal, Kelduár og þriggja þveráa hennar. Virkjunin er langstærsta virkjun Íslands og ein stærsta framkvæmd Íslandssögunnar með 690 MW afl, sem er álíka mikið og í öllum núverandi virkjunum í Þjórsá og Tungnaá samanlagt. Virkjunin knýr jafnframt stærsta álver landsins sem staðsett er á Reyðarfirði og var hún gangsett árið 2007. Stíflurnar þrjár sem mynda Hálslón eru stærstu stíflur landsins og sú stærsta þeirra, Kárahnjúkastífla er sú stærsta í Evrópu. Bygging Kárahnjúkavirkjunar er afar umdeild enda gífurlegt rask sem henni fylgir og ýmis rök fyrir því að bygging hennar hafi ekki verið nægilega vel ígrunduð og svæðið rannsakað með tilliti til umhverfisáhrifa áður en hafist var handa. Virkjunin drekkti miklum víðernum, mikilvægum búsvæðum villtra dýra, gróðurvin í yfir 600 m hæð ásamt stórfenglegum jarðmyndunum, gljúfrum og fossaröðum sem eiga sér engar hliðstæður. Auk þess safnast leir í lónið, þornar og dreifist þegar þurrt og er og hvasst og veldur miklu uppfoki á hálendi Austurlands. Virkjunin heldur áfram að valda ýmiskonar raski á náttúru svæðisins, svo sem jarðvegsrofi á Kringilsárrana sem er friðaður. Sjónræn áhrif eru þar að auki mjög mikil, sérstaklega ofan af toppi Snæfells sem er hæsta fjall utan jökla á Íslandi.

Kárahnjúkar

Hafrahvammagljúfur voru meðal þeirra náttúrufyrirbæra sem fóru undir Kárahnjúkastíflu og norðurenda Hálslóns. Virkjunin er langstærsta virkjun Íslands og stærsta framkvæmd Íslandssögunnar með 690 MW afl, sem er álíka mikið og í öllum núverandi virkjunum í Þjórsá og Tungnaá samanlagt.

Í þessari virkjun er virkjunum tveggja jökulfljóta steypt saman í eina. Vatn úr Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal er leitt inn í Valþjófsstaðafjall við Fljótsdal í jarðgöngum í um ríflega 500 m hæð yfir sjávarmáli, og steypt í fallgöngum niður í stöðvarhús með sex hverflum inni í fjallinu í um 30 m hæð yfir sjávarmáli.

Jökulsá í Fljótsdal er veitt úr farvegi sínum til stöðvarhússins með stíflum austan við Snæfell og fer í farveg sinn á ný út úr stöðvarhúsinu.

Með þremur stórum stíflum við Kárahnjúka er Jökulsá á Dal ásamt öflugri þverá sinni, Kringilsá, veitt rúmlega 40 km langa vegalengd yfir í Jökulsá í Fljótsdal og drekkt í 57 km² stórt miðlunarlón, Hálslón.

Upphaflega var Kárahnjúkavirkjun hluti af risastórri áætlun um að leiða Jökulsá á Fjöllum líka yfir í Hálslón, sem kölluð var „Lang-Stærsti-Draumurinn“, skammstafað LSD. Svipuð áætlun var uppi um vatn á hálendi Noregs en ekkert varð af henni vegna umhverfisáhrifa, sem þó hefðu orðið miklu minni en á norðurhálendi Íslands.

Báðar þessar stórbrotnu áætlanir byggðust á þeirri miklu nýtni vatnsaflsins sem felst í mikilli fallhæð.

Eftir að framkvæmdir fóru af stað við Kárahnjúka kom fram í vinnu við 1. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma að Kárahnjúkavirkjun væri annar tveggja virkjanakosta á Íslandi sem hefðu mest umhverfisáhrif. Hin væri virkjun Jökulsár á Fjöllum. 

Engu að síður er uppi þrýstingur virkjanaáhugamanna um svonefnda Helmingsvirkjun sem felast myndi í að nýta vatn úr Jökulsá á Fjöllum á svipaðan hátt og í LSD áætluninni.

Kárahnjúkavirkjun er ágætt dæmi um þá áhættusækni sem ríkti á landinu á árunum 2002-2008 og lögfræðingur Landsvirkjunar sagði að Kárahnjúkavirkjun væri „erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu-, tæknilegu-, umhverfislegu- og markaðslegu tilliti, … í raun eyland í raforkukerfinu…“.

Á tímabili var tvísýnt um að hægt væri að bora vatnsþétt göng í gegnum 6-7 km kafla misgengis sem ekki var rannsakað fyrirfram, en sá kafli var í lok framkvæmda.

Virkjunin og tilheyrandi rask

Allt er stórt í sniðum við Kárahnjúkavirkjun. Hún knýr stærsta álver landsins. Þrjár stærstu stíflur landsins eru þar og sú stærsta, Kárahnjúkastífla, er stærsta stífla sinnar gerðar í Evrópu, 185 m há og 10 milljón tonna þung stífla. Vatnsborðssveifla Hálslóns er sú hraðasta og mesta sem vitað er um, en um 50-70 m þar sem rennsli í lónið er 100 sinnum meira í ágúst en í febrúar.

Tíu milljón tonn af fínum leir berst árlega í lónið og það er svo gruggugt að skyggni í vatninu er aðeins 2 cm. Lítið líf þrífst því í lóninu.

Miðað við framburð frá jökli er gert ráð fyrir því að það fyllist af sandi og leir á 400 árum. Sjá má merki þess við útfall Kringilsár að vegna hlýnunar og aukinna áhrifa bráðnunar Brúarjökuls geti það fyllst á miklu styttri tíma. Að lokum sæti því í stað hins djúpa Hjalladals eftir flatt land af leirum.

Fyrri hluta sumars er mikill meirihluti Hálslóns þurrar leirur af nýjum leir sem skapar mikla leirstorma þegar vind hreyfir svo að þar er ólíft og lítið skyggni. 

Svo mikill leir berst úr lóninu í Lagarfljót að það hefur kólnað, liturinn breyst úr sérkennilegum bláma í brúnan lit og fiskigengd minnkað í því og þverám þess.

Um 40 km² af grónu landi fóru undir Hálslón og Kelduárlón, mest af því nokkurra metra þykkur jarðvegur. Það er mesta jarðvegseyðing í einu stökki af mannavöldum í sögu þjóðarinnar.

Hálslón dregur nafn af Hálsinum, 15 km bogadregin „Fljótshlíð íslenska hálendisins“ sem sökkt var í lónið.

Lónið drekkti einnig Hjalladal, sem var dýpsti og skjólsælasti dalur Norðurhálendisins og mikilvægt burðarsvæði hreindýra á vorin og bjó að auki yfir merkilegu sethjallalandslagi á landsvísu.  Í vestanverðum dalnum var fjórðungi hins friðaða Kringilsárrana drekkt í lónið.

Vegna hins gríðarlega framburðar á leir og sandi var Jökla hraðvirkasta jökulsá landsins hvað varðaði landmyndun. Hún gróf mestu árgljúfur landsins, Hafrahvammagljúfur, að mestu á aðeins 700-800 árum og var á góðri leið með að grafa ný og litfögur gljúfur klettamyndana og flúða á botni Hjalladals á innan við öld, þegar honum var sökkt.

Jökla sá um að hreinsa Hafrahvammagljúfur með því að sverfa þau með sandi, en með því að taka ána úr gljúfrunum munu þau smám saman fyllast af grjóti sem hrynur ofan í það. Fullyrðingar um að þurrkun gljúfranna opni aðgengi að því standast því ekki og raunar hefur alla tíð verið hægt að ganga niður í þau um svonefnt Niðurgöngugil.

Tugir fossa hurfu með Kárahnjúkavirkjun, þrír þeirra í flokki ellefu stórfossa landsins, þar af tveir samliggjandi fossar í Jökulsá í Fljótsdal á hæð við Gullfoss. Töfrafoss eða Kringilsárfoss var stærsti fossinn á hálendinu vestan Snæfells.

Hættan við rask á svæðinu gagnvart eldfjallakerfinu sem Kárahnjúkar eru hluti af virtist ekki hafa verið skoðuð ítarlega áður en ráðist var í virkjunarframkvæmdir. Grímur Björnsson, jarðeðlisfræðingur hjá Íslenskum Orkurannsóknum, talaði t.d. snemma um skort á rannsóknarvinnu yfirvalda varðandi umhverfismat áður en ráðist var í virkjunina og sagði að skort hefði á að taka tillit til landslags, jarðsigs, eldvirkni og áhrifa á hafið. Hann óttaðist að svo stór virkjun á virku sprungusvæði uppfyllti seint öryggisskilyrði og gæti því reynst hættuleg.

Sjónræn áhrif eru mikil og víðfeðm. Mannvirkin og gífurleg lónstæði sjást af mörgum af helstu útsýnisstöðum Norðausturhálendisins.

Deilur um virkjun – með og á móti

Miklar og harðar deilur urðu um Kárahnjúkavirkjun, sem skiptu þjóðinni í tvær fylkingar.

Með virkjunarframkvæmdum var Folavatni fyrir austan Snæfell drekkt í hið auruga Kelduárlón vegna Hraunaveitu. Töluvert álftavarp hafði verið í kringum vatnið. Rök margra fyrir virkjun voru þau að svæðið sem sökkt yrði væri lítt þekkt og lítilsvirði og ekki ástæða til að áætla virði þess án virkjunar. Fylgjendurnir töldu virkjunina einu leiðina til að efla atvinnulíf og byggð á Austurlandi.

Talið var að framkvæmdirnar myndu skapa mikla atvinnu, tekjur og uppbyggingu og að íbúum Austurlands myndi fjölga til frambúðar um 1500. Gert var ráð fyrir að 80% starfsmanna við framkvæmdir yrðu Íslendingar, aðeins 20% útlendingar og að unninn yrði bugur á atvinnuleysi fjórðungsins. Með virkjun áttu útflutningstekjur þjóðarinnar að aukast verulega.

Nýir vegir áttu að opna aðgengi að svæðinu og skapa nýtingu þess sem ferðamannasvæðis á marga lund, til dæmis við stíflurnar þar sem fólk gæti unað við siglingar á lónunum og margs konar útivist.

Tryggt átti að vera að komið yrði í veg fyrir uppfok og leirstorma úr þurrum botni lónsins fyrri part sumars með margs kyns ráðum, til dæmis dreifingu rykbindiefna úr flugvélum.

Andstæðingarnir bentu á dæmalaus óafturkræf spjöll og óbætanlegt tjón á náttúruverðmætum á kostnað kynslóða framtíðarinnar. Atvinnuleysi myndi ekki minnka þegar svo einhæft atvinnulíf væri í boði. Meiri, dreifðari og varanlegri uppbygging myndi verða með því að virkja ekki, heldur nýta svæðið sem þjóðgarð með einstæðum náttúruverðmætum fyrir markvissa og örugga uppbyggingu ferðaþjónustu. Rangt væri að meta ekki náttúruverðmæti sem fórnað væri en hægt væri að horfa út í heim og læra af reynslu annarra. 

Aukning þjóðarframleiðslu yrði innan við 2% og virðisaukinn, sem skilaði sér í þjóðarbúið, yrði næstum þrefalt minni en í sjávarútvegi eða ferðaþjónustu. Arður af virkjuninni yrði of lítill og mestur hluti hans færi úr landi.

Vegna hinna stórfelldu landspjalla og óstöðvandi leirstorma fyrri part sumars myndu ferðamenn ekki flykkjast til útiveru við stíflurnar.

Efnahagur og samfélag

Í ljós hefur komið að leirstormar úr þurru lónstæði Hálslóns fyrri part sumars eru óviðráðanlegir og óverandi er þar ef vind hreyfir, einmitt þegar hlýjast er, sólríkast og þurrast.

Einhver fólksfjölgun hefur þó orðið í Fjarðabyggð og næsta nágrenni álversins í Reyðarfirði. En nú liggur fyrir að arður af virkjanaframkvæmdum vegna stóriðju hefur verið lítill hér á landi, jafnvel þótt fórnir vegna eyðileggingar náttúruverðmæta séu ekki teknar með í reikninginn.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur upplýst í fjölmiðlum að arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sé ekki viðunandi og að þjóðin hafi ekki notið nægilegs arðs af fyrirtækinu og rekstrinum.

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is