Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins skrifar.
Maðurinn er athafnasöm, hugmyndarík og útsjónarsöm vera. Frá upphafi hefur hann notað þessa hæfileika sína til þess að komast af, búa sér í haginn og koma næstu kynslóð á legg. Í þúsundir ára stóð þessi barátta, þar sem náttúruöflin og hæfileikar mannsins vógust á vogarskálum, og ýmist gekk eða rak. Náttúruhamfarir, sjúkdómar, stríð og önnur óáran héldu fólksfjölgun í skefjum.
Enginn getur brugðist við nema mannkynið
Tiltölulega nýtilkomnar framfarir í læknavísindum og tækni hafa valdið fólksfjölgun og bættum lífskjörum í heiminum. Nú er svo komið að tæknin, breyttir lífshættir og afleiðingar þessa eru komin á það stig að mannkyninu er hætta búin. Loftlagsbreytingar eru staðreynd. Enginn nema mannkynið sjálft getur brugðist við.
Við í Rauða krossinum þurfum stöðugt að takast á við alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga og því miður er fyrirséð að þær áskoranir munu aukast og verða alvarlegri. Umræða um loftslagsmál er ekki ný í alþjóðahreyfingu Rauða krossins. Árið 2007 á ríkjaráðstefnu Rauða krossins, þar sem fulltrúar 194 ríkisstjórna mættu, var samþykkt hvernig bregðast skyldi við þeim mannúðarvanda sem loftlagsbreytingar sannarlega valda.
Loftslagsbreytingar auka vopnuð átök
Frá árinu 2007 má færa rök fyrir því að loftslagsbreytingar hafi sannarlega haft áhrif á að vopnuð átök hafa brotist út. Mjög alvarleg og langvarandi átök, sem má að verulegu leyti rekja til þurrka, hafa hrakið milljónir á flótta og valdið dauða hundraða þúsunda. Vopnuð átök og loftslagsbreytingar hafa svo aftur valdið fæðuskorti og jafnvel hættu á hungursneyð. Afleiðingar ofsaveðurs, annarra náttúruhamfara og vopnaðra átaka hafa afar neikvæð áhrif á lífsgæði og velferð fólks og kostað margan lífið. Flóttamannastraumur kemur svo í kjölfarið og gætu svokallaðir loftslagsflóttamenn jafnvel skipt tugum milljóna á næstu áratugum. Framþróun byggir að verulegu leyti á menntun, sér í lagi stúlkna og á valdeflingu kvenna. Áhrif loftslagsbreytinga geta sannarlega gert þetta að engu, þar sem áhrifanna gætir mest.
Loftslagsmálin eru mannúðarmál.
Rauði krossinn gegnir á mannúðarsviði stoðhlutverki við stjórnvöld í hverju landi. Í okkar huga eru loftslagsmálin svo nátengd mannúðarmálum að varla má þar á milli skilja. Takist ekki að snúa vörn í sókn má búast við svo stórfelldum náttúruvám, átökum og hamförum að mannlegur máttur fengi ei megnað hót. Látum það ekki gerast. Líf komandi kynslóða veltur á okkar gjörðum. Hér er ekkert plan B.