Stjórn Landverndar hefur sent umhverfisnefnd Alþingis bréf með athugasemdum vegna frumvarps til laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Stjórn Landverndar getur tekið undir öll megin atriði frumvarpsins en gerir alvarlegar athugasemdir við fáein mikilvæg atriði.
Stjórnin telur, eins og áður hefur komið fram í yfirlýsingu, að fella beri út tillögu að bráðabirgðarákvæði III, sem felur í sér heimild fyrir hækkun stíflu í Laxá í Aðaldal, að fengnu samþykki Umhverfisstofnunar og Landeigendafélags Laxár og Mývatns
Þá gerir stjórn Landverndar athugasemdir við tillögu að bráðabirgðaákvæði II. Í því ákvæði segir að Umhverfisstofnun skuli þegar hefjast handa við undirbúning friðlýsingu landsvæða sem ekki falla undir löginn en engu síður er mikilvægt að vernda. Skal umhverfisráðherra tilkynna landeigendum og viðkomandi sveitarstjórnum og öðrum hagsmunaaðilum hvað áformað sé að gera í þessu samhengi, en að öðru leyti gildi náttúrverndarlögin um alla málsmeðferð.
Stjórn Landverndar telur nauðsynlegt að ákvæði um þetta atriði séu skýrari. Í Skútustaðahreppi er fjöldi náttúruminja sem hafa afar hátt verndargildi vegna mikilvægis fyrir lífríki vatnsins og sem sérstæðar jarðmyndanir og landslag. Hér má vísa til svæða sem falla undir verndarflokka I og II á náttúruverndarkorti fyrir Mývatnssveit. Þar til friðlýsingu á þessum svæðum lýkur þarf að vera í gildi bráðabirgðarákvæði sem kveða á um að ekki megi veita framkvæmda- og byggingaleyfi á þessum svæðum nema að heimild Umhverfisstofnunar liggi fyrir.
Þá gerir stjórnin athugasemd við nokkur önnur atriði:
Í fyrsta lagi, að sett verði reglugerð um varnir gegn hverskonar mengun á vatnasviði Mývatns- og Laxár samhliða gildistöku laganna. Rannsóknir á eðli og orsökum sveiflna í fæðukeðju Mývatns sýna að stærð og stofn silunga og anda stjórnast af fæðuframboði. Fremur vægar truflanir á vistkerfinu geta orðið til þess að mýsveiflur magnist, en mýið er undirstöðufæða í vistkerfi Mývatns og Laxár. Í tengslum við jarðvarmavirkjanir og iðnaðarstarfsemi getur verið talsverð hætt á mengun vatns og það getur haft áhrif á vistkerfið. Því er nauðsynlegt að reglur um þetta liggi fyrir við gildistöku laganna.
Í öðru lagi, að lögin kveði á um að við gerð verndaráætlunar á svæðinu verði höfð góð samvinna við umhverfis og náttúruverndarsamtök. Mývatn og Laxá hafa mikið gildi á landsvísu og alþjóðlega og því nauðsynlegt að samvinna sé ekki einskorðuð við aðila á svæðinu, eins og lagt er til í frumvarpinu, heldur nái jafnframt til aðila utan svæðisins sem starfa á landsvísu s.s. Landverndar, Fuglaverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Í þriðja lagi, að lögin kveði á um að leita beri til rannsóknarstöðvarinnar við Mývatn um umsögn og ráðgjöf um framkvæmdir og aðgerðir sem hugsanleg geta haft áhrif á lífríki vatnsins. Rannsóknarstöðin er og verður áfram miðstöð þekkingar um vatnið og þá þekkingu ber að virkja við mat á áhrifum framkvæmda á svæðinu.