Skólar á grænni grein vinna eftir skrefunum sjö, skref tvö er að meta stöðu umhverfismála í skólanum.
Staða umhverfismála er metin í upphafi hvers grænfánatímabils (á u.þ.b. tveggja ára fresti). Matið er í höndum umhverfisnefndarinnar en best er að aðrir nemendur og starfsmenn komi einnig að matinu með einhverjum hætti. Gott er að nota til þess umhverfisgátlista sem hafa verið þróaðir fyrir hvert og eitt þema.
Skoða Umhverfisgátlista
Umhverfisnefndin, helst í samvinnu við fleiri nemendur, velur sér þema eða þemu til að vinna að og fyllir út í matsblöð sem tilheyra þeim þemum. Annar möguleiki er að taka stöðuna í öllum þemunum og meta út frá niðurstöðunum hvaða þema verður tekið fyrir á tímabilinu.
Til eru tvö matsblöð fyrir hvert þema, annars vegar matsblað sem nemendur leikskóla og yngri bekkir grunnskóla geta fyllt út og hins vegar matsblað fyrir eldri bekki grunnskóla, framhaldsskóla og jafnvel háskóla. Ákjósanlegast er að nemendur sjái að mestu leyti um matið. Umhverfisnefndin getur séð um að fylla út matsblöðin en einnig geta allir bekkir eða hluti bekkjanna fengið eyðublöð til að fylla í.
Matsblöðin eru að sjálfsögðu ekki bindandi og mega skólar meta stöðuna með öðrum hætti en matsblöðin gefa til kynna. Þau eru aðeins hugsuð til viðmiðunar til að auðvelda matið.
Hafa skal í huga
- Fór mat á stöðu umhverfismála fram í upphafi tímabils?
- Sáu nemendur að mestu um það mat, t.d. með hjálp gátlista fyrir nemendur?
Við mælum með því að skólar fylli í matsblöðin rafrænt til að spara pappír. Sé nauðsynlegt að prenta þau út mælum við með að það sé gert í A5 broti, þ.e. tvær blaðsíður á hvorri hlið og báðum megin.