Mikilvægu náttúrusvæði fórnað með landfyllingu í Skerjafirði

Náttúrleg svæði inni í þéttri byggð eru íbúunum nauðsyn. Stjórn Landverndar telur heppilegast að ráðist verði í uppbyggingu íbúðabyggðar á svæðinu án landfyllingar og hvetur Reykjavíkurborg til þess að endurskoða hugmyndir sínar um landfyllingu og ígrunda vel.

Við sendum Skipulagsstofnun athugasemd vegna frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum í Nýja Skerjafirði. Hana má finna í heild sinni neðst í greininni.

Stjórn Landverndar hefur mikin skilning á mikilvægi þess að þétta byggðina á höfuðborgarsvæðinu til að draga úr útþennslu byggðarinnar og skapa betri forsendur fyrir skilvirkri samfélagsþjónustu og almenningssamgöngum. Frekari byggð í Nýja Skerjafirði er skref í þessa átt. En áform um landfyllingar vekja áhyggjur.

Ósamræmi á milli stefnu og áætlana

Borgin hefur sett sér metnaðarfulla stefnu í umhverfis og auðlindamálum. Þar er meðal annars fjallað um mikilvægi þess að vernda líffræðilegan fjölbreytileika og tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda. Samkvæmt stefnunni er líffræðilegum fjölbreytileika ætlað að vera leiðarljós við hönnun og viðhald grænna svæða.

Einn málaflokkur umhverfis og auðlindastefnunnar er skipulag og þar er því haldið fram að skipulag efli þjónustu vistkerfa og líffræðilegan fjölbreytileika í borginni. Þessi markmið samrýmast með ekki áætlunum um landfyllingu í Nýja Skerjafirði sem mun hafa áhrif á náttúrlegt yfirbragð og lífríkið.

Þétting byggðar er eitt mikilvægasta umhverfismálið

Þétting byggðar er eitt mikilvægasta loftslags og náttúruverndarmálið á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess skapar þéttingin líflegt borgarumhverfi, styttir vegalengdir sem fara þarf til að sækja þjónustu og bætir umhverfisleg og samfélagsleg gæði, þegar vel er að staðið. Í þeim tilfellum sem hún heppnast vel, bætir hún aðgengi fólks að grænum svæðum og fallegri náttúru.
Frekari uppbygging á húsnæði í Vatnsmýrinni þar sem flugvöllurinn er nú er á framtíðaráætlun borgarinnar. 

Mikilvægu náttúrusvæði fórnað

Með landfyllingunni er ætlunin að fórna mikilvægu náttúrusvæði og byggja íbúðarhúsnæði ofan á því. Þetta mun óhjákvæmilega umbreyta landslagi og spilla þeirri fallegu og lífríku fjöru sem þarna er í dag.

Undanfarna áratugi hefur fjörum á höfuðborgarsvæðinu verið spillt með landfyllingum og því hafa þær fjörur sem eftir eru mikið upplifunar- og verndargildi. 

Í frummatsskýrslu Eflu kemur fram að framkvæmdin muni hafa talsvert neikvæð áhrif á fuglalíf og verndarsvæði og verulega neikvæð áhrif á gróður, strand- og sjávarlífríki. 

Varanlegt tap á búsvæðum fugla og annarra fjörulífvera

Landfyllingin myndi fela í sér varanlegt tap á búsvæðum fugla samkvæmt frummatsskýrslunni. Óljóst er hvort að mótvægisaðgerðir vegna þessa muni skila tilsettum árangri og talið að það taki langan tíma, ár eða áratugi.

Á svæðinu má finna klóþangsfjöru, leirur, grýttan sandleir og klóþangsklungur. Það síðastnefnda hefur mjög hátt verndargildi og er afar sjaldgæf vistgerð í umdæmi Reykjavíkurborgar. Þá hefur fjaran sjálf mjög hátt verndunargildi. Því ætti Reykjavíkurborg frekar að huga að því að vernda svæðið en að byggja á því.

Hvers virði eru náttúruverndarlögin?

Rétt er að halda til haga að leirurnar sem áætlað er að landfyllingin muni þekja, njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögunum. Sýna verður fram á með sannfærandi hætti að ríkir samfélagshagsmunir í húfi séu í húfi. Það er erfitt að færa sannfærandi rök fyrir samfélagslegri nauðsyn þess að spilla leirum sem þessum sem lítið er eftir af á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í ljósi þess að tímaspursmál er hvenær flugvellinum verður fundinn nýr staður. Við þá tilfærslu verður sannarlega hægt að byggja íbúðarhúsnæði á svæðinu.

Umhverfis og auðlindastefna gerir lítið gagn ef ekki er unnið eftir henni

Skerjafjörður er sérstaklega nefndur í Umhverfis og auðlindastefnu bogarinnar og ein áhersla stefnunnar varðar friðun Skerjafjarðar. Auðsýnt er að ekki er hægt að ráðast í landfyllingu á svæði sem stendur til að friða. Við hvetjum til þess að borgin líti á áætlanir sínar um Nýja Skerjafjörð í samhengi við stefnu sína um umhverfis og auðlindamál. Eftir röskun og landfyllingu verður útkoman manngert grjótmannvirki.

Náttúruleg svæði eru íbúunum nauðsyn

Náttúrleg svæði inni í þéttri byggð eru íbúunum nauðsyn. Stjórn Landverndar telur heppilegast að ráðist verði í uppbyggingu íbúðabyggðar á svæðinu án landfyllingar og hvetur Reykjavíkurborg til þess að endurskoða hugmyndir sínar um landfyllingu og ígrunda vel.

Samkvæmt frummatsskýrslunni er það raunhæfur valkostur að byggja upp íbúðarhúsnæði á svæðinu án landfyllingar. Með því móti er hægt að ná fram markmiði um þéttingu byggðar, varðveita verðmætt lífríki og veita íbúum nú og í framtíðinni tækifæri til að upplifa lifandi lífríki á leirunum í grennd við byggðina.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd