Nægjusemi sem mikilvægt gildi allra

Nægjusemi er hvorki skortur né fórnir heldur ákvörðun um að taka ekki þátt í lífsgæðakapphlaupi og neyslu á forsendum annarra.
Nægjusemi er ekki afturhvarf til fortíðar heldur ávísun á betri líðan og leiðarljós til sjálfbærrar þróunar.

Ímyndaðu þér líf þar sem þú upplifir þakklæti, gleði, hamingju, rósemd og sátt. Ef þú hefur tileinkað þér nægjusemi er líklegt að þú upplifir einmitt þessar tilfinningar. Ímyndaðu þér síðan hvaða áhrif nægjusemin hefði á samfélagið í heild. Já, hugsaðu þér ef nægjusemi réði ríkjum í stóra samhenginu á sviði stjórnmála og samfélags – það myndi hjálpa okkur að hverfa frá ofnýtingu auðlinda og forgangsraða notkun þeirra eftir þörfum okkar allra.

Mannkynið stendur á tímamótum og er tilneytt að breyta um stefnu til að koma í veg fyrir verstu sviðsmyndir loftslagshamfara. Ákall vísindamanna og Sameinuðu þjóðanna um róttækar breytingar samfélaga hefur verið skýrt lengi. Hérlendis kom nýlega út fjórða skýrsla vísindanefndar um loftslagsmál. Þar er einmitt dregin sú ályktun að loftslagsbreytingar kalli á róttækar breytingar á hugarfari og gildismati mannkyns.

Núverandi lifnaðarhættir okkar í vestrænum löndum eru ekki lífvænlegir til framtíðar. Þess vegna þurfum við að hugsa hlutina upp á nýtt þar sem gildi eins og efnishyggja, einstaklingshyggja, samkeppni og græðgi víkja fyrir gildum sem styðja við sjálfbæra þróun eins og nægjusemi, virðingu, þakklæti, kærleika, réttlætiskennd, samkennd og umhyggju. 

Hungraða hagkerfið

Við höfum hannað hagkerfi sem krefst endalauss vaxtar og byggir á neyslu og þörfum sem kalla á meira af öllu alltaf – meiri orku, meiri einkaneyslu, meiri vöxt o.s.frv. En endalaust meira af öllu gengur ekki upp heldur eyðileggur heiminn, eins og vísindamenn benda ítrekað á og við upplifum í gegnum loftslagshamfarir, minnkandi líffræðilega fjölbreytni, mengun og hnignun vistkerfa. Ofneysla er bæði kerfislægt og menningarlegt vandamál. Þess vegna þurfa aðgerðir einstaklinga, samfélags og stjórnvalda að haldast í hendur. Öll þurfum við að læra að setja mörk og virða þolmörk náttúrunnar.

Ætli valdhafar viti að nægjusemi er ein af forsendum fyrir sjálfbærri þróun og er einnig nefnd í skýrslu IPCC sem mikilvæg loftslagsaðgerð? Hafa þeir heyrt af því að bein tengsl eru milli aukins hagvaxtar og aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda?

Hagkerfi sem heldur á lofti öðrum markmiðum en sífelldum hagvexti, eins og velsældarhagkerfi eða kleinuhringjahagkerfi, væri skref í rétta átt.  Er ekki kominn tími til þess að við, þjóðin, vísum valdhöfum í þessa átt og krefjumst breytinga á hagkerfinu sem bæta í senn hag almennings og loftslags til framtíðar? Og að við Íslendingar stöndum við skuldbindingar okkar varðandi loftslagsmál, sjálfbæra þróun, líffræðilega fjölbreytni og hringrásarhagkerfi?

Nægjusemi á ábyrgð allra

Nægjusemi er hvorki skortur né fórnir heldur ákvörðun um að taka ekki þátt í lífsgæðakapphlaupi og neyslu á forsendum annarra. Nægjusemi er heldur ekki afturhvarf til fortíðar heldur ávísun á betri líðan og leiðarljós til sjálfbærrar þróunar. Að hverfa frá neysluhyggju og iðka nægjusemi ætti ekki að vera erfitt fyrir þann hluta samfélagsins sem hefur allt til alls og oftast miklu meira en nóg.

Þótt margt fólk vandi sig við þessa leið, dugar það samt ekki til því stjórnvöld þurfa að smíða rammann og fyrirtækin verða líka að taka þátt. Allt samfélagið þarf að endurskilgreina hvað sé gott og eftirsóknarvert líf, hvaða gildi við viljum að einkenni samfélagið okkar, hvaða framfarir við viljum sjá – og hvernig samfélagið getur vaxið og dafnað á annan og mikilvægari hátt en á forsendum neyslunnar.

Til að vekja athygli á nægjusemi sem mikilvægri aðgerð í loftslagsmálum og í átt að sjálfbærri þróun stendur Landvernd nú fyrir hvatningarátakinu Nægjusamur nóvember. Þar er að finna ýmsan fróðleik um nægjusemi, þar sem dregið er fram það jákvæða við að falla ekki fyrir gerviþörfum. Þar er að finna greinar, verkefni og leiki fyrir skóla og aðra áhugasama, hugvekjur og upplýsingar um viðburði átaksins.

Taktu þátt! 

Það er bæði gefandi og valdeflandi að gerast þátttakandi í jákvæðum breytingum. Hvert og eitt okkar getur haft áhrif á ríkjandi hugsunarhátt og hegðun. Um leið höfum við áhrif á stjórnvöld um að gera nauðsynlegar breytingar svo kerfið verði í takt við gildi samfélagsins. Þannig getum við gert nægjusemi að leiðandi afli og andsvari við ríkjandi hagkerfi. Stöndum saman og vísum valdhöfum í rétta átt!

Greinin birtist fyrst á heimildin.is 20. nóvember 2023

Goðafoss í Skjálfandafljóti.

Orkuskiptahermir

Skoðaðu orkuskiptahermi Landverndar. Orkuskiptin geta farið fram án þess að eyðileggja einstaka íslenska náttúru.
Opna...

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd