Náttúruvernd og loftslagsmál eru nátengd. Stærsta ógnin sem stafar að mannkyni á eftir hamfarahlýnun er eyðing náttúrunnar, búsvæða plantna og dýra og tap á líffræðilegri fjölbreytni.
Óröskuð náttúra er verðmæt fyrir framtíðarkynslóðir og lífbreytileika
Raskað land losar mikið af gróðurhúsalofttegundum og á Íslandi er langmesta losunin frá landi í slæmu ástandi.
Vernd dregur úr losun
Ráðgjafafyrirtækið McKinsey hefur komist að því að með því að vernda 30% hafsvæða og 30% landssvæða í heiminum má draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda (Valuing nature conservation | McKinsey).
Við erum hluti af náttúrunni
Við erum hluti af náttúrunni. Lausnir á þeim vanda sem við stöndum fyrir snúast um að vinna með henni en ekki gegn henni.
Mannkynið byggir afkomu sína á auðlindum Jarðar. Náttúran er undirstaða heilbrigðra samfélaga. Við byggjum alla okkar tilveru á náttúrunni, hnignun hennar þýðir hnignun okkar.
Náttúran er undirstaða afkomu manna
Þegar kerfi Jarðar eru í jafnvægi eru meiri líkur á að mannkynið hafi það sem það þarf til að lifa.
Við þurfum mat, vatn og skjól til að lifa. Einnig þurfa samfélög fólks að búa við nægjanlegt hreinlæti, menntun og heilbrigðisþjónustu.
Heilbrigð vistkerfi eru þjóðaröryggismál
Öll matvælaframleiðsla í heiminum er háð heilbrigðum vistkerfum og þeirri þjónustu sem þau veita. Vistkerfi sjá til dæmis til þess að binda kolefni og brjóta niður úrgang og koma þeim aftur út í hringrásir sem eru mikilvægar öllu lífi á jörðinni.
Engin þjóð í heiminum framleiðir jafn mikið rafmagn á íbúa og Íslendingar. Það er raunar svo mikið að við getum ráðstafað 80% orkunnar til fáeinna orkufrekra fyrirtækja.
Þessi fyrirtæki hafa einmitt komið sér fyrir á Íslandi vegna þess að orkuverðið er mjög hagstætt miðað við það sem býðst annarsstaðar.
Því er engin ástæða til að hafa áhyggjur af að ekki sé eða verði til nægjanlegt rafmagn til að lýsa upp heimili landsmanna eða að lífskjörum verði ógnað með rafmagnsleysi.
Stóriðja og gagnaver nota 80% orkunnar
Stórnotendur á Íslandi (málmframleiðsla og gagnaver) nota 79,3% alls rafmagns á Íslandi. Aðrir notendur, heimili og fyrirtæki nota 17,8% orkunnar, þar af nota heimilin aðeins 5% orkunnar.
Við þurfum að forgangsraða því hver á að fá orkuna okkar. Ættum við ekki að velja verkefni sem eru mikilvæg fyrir samfélagið?
Rafmagnsframleiðsla með vatni og vindi sveiflast eftir veðurfari
Af og til kemur rigningarlítið sumar á Íslandi. Þá getur orðið skortur á vatni til að knýja virkjanir. Sú staða getur komið upp að raforkan sem er framleidd er beint til stórnotenda (stóriðju) en aðrir þurfa að taka á sig raforkuskerðingu.
Sum fyrirtæki semja um að kaupa rafmagn á lægra verði gegn því að taka á sig skerðingu ef til hennar kemur
Sum fyrirtæki (t.d. fiskimjölsverksmiðjur) semja um kaup á ótryggu rafmagni og greiða lægra verð fyrir vikið. Þá skuldbinda þau sig til að taka á sig orkuskerðingu þegar þessi staða kemur upp.
„Rafmagnsvinnsla úr vatni eða vindi er sveiflukennd. Meðan við stýrum ekki veðrinu verða sveiflur í afköstum vatnsaflsvirkjana og vindmyllna.“
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur
En hvað með hinn almenna notanda?
Landsnet á að tryggja flutning raforku til almennings og fyrirtækja en setur stóriðju í fyrsta sætið og tengir gjarnan stóran iðnað við fjarlægar virkjanir um svokallaðar stóriðjulínur, oft langt frá byggð.
Landsnet og RARIK þurfa að bæta flutning raforku til almennra notenda. Til dæmis með notkun jarðstrengja, sem eru ódýrari til lengri tíma.
Landsnet er hlutafélag í eigu Landsvirkjunar, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða og því í eigu landsmanna.
Heimildir: Orkutölur 2020, Orkustofnun
Í raforkukerfinu í dag er laus orka sem dugar fyrir rafvæðingu allra bíla. En fjölbreyttur ferðamáti verður að vera stór hluti af því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis á Íslandi ásamt öðrum orkusparandi aðgerðum.
Talað er um að það þurfi 8% þeirrar raforku sem framleidd var á Íslandi árið 2016 til þess að rafvæða allan bílaflotann eins og hann leggur sig fyrir 2040. Þetta þýðir að við förum létt með rafvæðingu samgangna án nýrra virkjana.
Stóriðja skilur lítið eftir á Íslandi nema þau störf sem henni tengjast.
Stóriðja og annar iðnaður sem er í eigu alþjóðlegra auðhringja byggir ekki á sérstöðu svæðanna og getur því auðveldlega horfið úr landi um leið og gróði þeirra er ekki nægjanlegur.
Með því að byggja atvinnu einstakra svæða á náttúru- og menningararfi eða sérþekkingu og ástríðu þeirra sem vilja búa þar verða störfin nátengd svæðunum og mannauðnum sem þar býr.
Mikilvægt er að setja ekki öll eggin í sömu körfu.
Í kjölfar bankahrunsins 2008 var það ekki stóriðjan sem rétti af efnahag Íslands heldur þjónusta við ferðamenn. Hugum að því að ferðamenn sækja Ísland heim vegna þeirra einstöku landslagsheilda sem hér eru, ekki vegna stóriðju.
Þetta er allt spurning um forgangsröðun. Ef garðyrkjufyrirtæki á Íslandi fengju orkuna á sama afslætti og stóriðjan gætum við framleitt nær allt grænmeti fyrir innlandsmarkað hér á landi sem væri stórt skref í átt að minna kolefnisspori.
„Ekki er unnt að segja fyrir um líftíma og framleiðslugetu jarðvarmavirkjana þegar ákvörðun um virkjun er tekin enda auðlindin hulin og margir óvissuþættir um viðbrögð við vinnsluálagi.
Öll þau háhitakerfi sem nýtt eru og fyrirhugað er að nýta eru ósjálfbær í þeim skilningi að með nýtingu er gengið varmaforða auðlindarinnar.“
Þetta er almennt viðurkennt meðal vísindamanna. Algengt virðist að ganga út frá þeirri forsendu að nýting miði við að varmaorka þeirra endist í 50 ár. Ef uppfylla á skilyrði um sjálfbærni jarðvarmavirkjana væri eðlilegt að miða við mun lengri endingartíma og leggja áherslu á fjölnýtingu orkulindarinnar en ekki raforkuframleiðslu eingöngu. Yfirleitt er nýting jarðvarmans á háhitasvæðum fjarri því að standast skilyrði um sjálfbæra þróun þegar vövkvaupptaka úr jarðhitageymunum er mikil og stöðug og endingin miðuð við aðeins um hálfa öld.
Jarðhitasvæðin okkar eru flest einstök á heimsvísu hvað varðar gerð og ásýnd. Til að komast að því hvað þau geta gefið af sér þyrfti að raska þeim verulega með mannvirkjum, borunum og öðru slíku. Það teljum við óásættanlegt.
Mengun í útblæstri
Mengun vegna gufu og affallsvatns jarðvarmavirkjana er ekki aðeins brennisteinsvetni heldur ýmis eiturefni s.s. arsen og kadmíum. Þessum efnum hefur lítill gaumur verið gefinn í íslenskri umræðu og því til svarað að sum þeirra séu í óvenju litlu magni hér á landi. Þó ber að hafa í huga að þessi efni eru til staðar, þau eru varasöm og safnast fljótlega upp ef affall er mörg hundruð sekúndulítrar.
[…] Allar háhitavirkjanir á Íslandi eru ótímabærar á meðan fullnægjandi lausnir á hættulegu affalli þeirra eru ekki fyrir hendi eða þykja of dýrar. Það þýðir að affallið fer út í umhverfið eins og raunin er við Bjarnarflag en þar berst það með grunnvatnsstraumum í Mývatn og Laxá.
Á Þeistareykjum má ekki leiða affallið í dæld á rekhryggnum en með því gæti hættuleg mengunin borist í grunnvatn. Óþekkt er hvert grunnvatnsstraumurinn liggur en allt krefst þetta mikillar varkárni.
Við leggjum til að nær allar hugmyndir um háhitavirkjanir verði settar í bið- eða verndarflokk á meðan starfsemi á háhitasvæðum hefur sýnt sig að vera háskaleg og framkalla óafturkræf náttúruspjöll.“
Heimildir: