Ölfusdalur er norðan Hveragerðis
Ölfusdalur

Ölfusdalur liggur norðan við Hveragerði og skiptist í Reykjadal og Grændal til norðurs. Litrík hverasvæði og heitar laugar og lækir setja svip sinn á svæðið. Ölfusdalur, Reykjadalur og Grændalur eru mjög vinsælt göngu- og útivistarsvæði en gönguleiðir liggja frá Hveragerði, upp dalina og tengjast gönguleiðum um Hengil, Mosfellsheiði og að Þingvallavatni. Á árunum 1958-1962 voru boraðar 8 holur í Ölfusdal en ekkert varð af virkjanaframkvæmdum þá. Árið 2003 lét Sunnlensk orka ehf. hreinsa nokkrar af þessum holum í þeim tilgangi að nýta þær til raforkuframleiðslu en talið er að unnt sé að framleiða allt að 10 MW af raforku með holunum. Virkjunarhugmyndin fellur nú í biðflokk þar sem ekki allir faghópar rammaáætlunar hafa metið hana. Núverandi hugmynd um nýtingu í Ölfusdal snýr að varmastöð sem myndi sinna hitaveitu í Sveitarfélaginu Ölfus. Sú hugmynd hefur verið send til umfjöllunar í fjórða áfanga rammaáætlunar sem virkjanakostur fyrir varmavinnslu.

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is