Ófærufossar í Skaftá
Ófærufossar

Skaftá á upptök sín í Skaftárjökli í vestanverðum Vatnajökli. Jökulhlaup eru algeng í Skaftá en þau verða vegna jarðhita undir jökli í Skaftárkötlum. Það svæði sem Búlandsvirkjun hefur verið áformuð á er stórbrotið, enda rétt við Eldgjá, hina 75 km löngu gossprungu sem er hluti af Kötlukerfinu og gaus árið 939. Ófærufoss fellur ofan í gjána, sem tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði og er svæðið mjög vinsælt til útivistar.

Skaftá

Vatnasvið Skaftár og svæðið frá Langasjó og til sjávar um Kúðafljót býr yfir fjölbreyttri og fágætri náttúru.  Hiklaust má telja það eitt hið verðmætasta á landinu hvað náttúrufar, landslag og víðerni varðar, þar sem vatnasvið eru enn óröskuð en slíkt er orðið fátítt í heiminum.

Þar eru jöklar, jökulár og jökulsandar, bergvatnsár, fjölbreyttar og sérkennilegar gosmyndanir, víðáttumiklar hraunbreiður, eitt fegursta fjallavatn Íslands, gljúfur, grónar heiðar langt inn til landsins og í byggð vatnsmikil lindasvæði og þar eru enn eftir talsvert víðfeðm lítt snortin votlendi, og kjarr og skógur frá því fyrir landnámstíð er í Skaftártungu.

Óvíða hefur saga mannlífs ofist með jafn átakanlegum hætti saman við jarðsögulega atburði. Skaftáreldar og Móðuharðindin ollu ægilegustu hungursneyð sem þekkt er á Íslandi og hvergi svarf fastar að en í Eldsveitunum. Saga heiðarbýlanna ofan hálendisbrúnarinnar er merkileg og sagnir eru um forna byggð við Tólfahring langt inn með Skaftá sem Jón Steingrímsson Eldklerkur segir að farið hafi í eyði löngu fyrir sinn dag. Fjallabaksleið nyrðri og hin forna leið norðan Mýrdalsjökuls sem nú er gjarnan kennd við Fjallabak syðra tengjast báðar byggð í Skaftártungu og við Svartanúpi er fyrsta varðan af tæplega 800, sem  mörkuðu Fjallabaksleið frá Skaftártungu vestur í Landsveit.

Umfram allt er landið mótað af eldvirkni og líklega má telja það kvikasta hluta Íslands og þann sem mest hefur breyst frá landnámi.

Hér runnu tvö stærstu hraunflóð sem þekkt eru frá sögulegum tíma á jörðinni, úr Eldgjá árið 939 og Skaftáreldar 1783-4.

Móbergshryggirnir við Langasjó eru taldir vera stórfenglegasta dæmi þessarar gosmyndunar á Íslandi og þar með á jörðinni allri þar sem móbergshryggir eru ekki þekktir annars staðar.

Eldgjá má með réttu kalla eitt af undrum Íslands, gossprungu og sigdal sem spannar 75 km og teygir sig alla leið frá Mýrdalsjökli og austur að Vatnajökli.

Gígaröðin sem kennd er við Laka er líka stórkostleg náttúrusmíð. Rétt austan við gígaröðina hjá Laka eru gervigígar sem taldir eru einstakir að formi og niðri í sveit, í Landbroti, setur þyrping hundruða grágrænna gervigíga svip á landið.

Lífríki

Á Skaftáreldahrauni hafa þróast óvenjuleg vistkerfi sem sum eiga sér jafnvel hvergi sinn líka annars staðar á jörðinni.

Á láglendi er hraunið vaxið samfelldri og þykkri mosabreiðu þar sem hraungambri (Racomitrium lanuginosum) er ríkjandi og víða einráður. Svipuð mosagróin hraun eru nokkuð víða á Íslandi, einkum á Suðurlandi, en hvergi annars staðar hefur mosinn náð sambærilegri grósku.

Í Eldhrauni sem nú er þakið hraungambra á sér stað mjög merkileg gróðurframvinda og hafa Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun gert að tillögu sinni að friðlýsa hraunið.

Á hálendi er mosi ekki jafn ríkjandi og deilir plássi með greinóttri grárri runnfléttu, hraunbreyskingi (Stereocaulon vesuvianum). Vistkerfið þar, flokkað sem breyskjuhraunavist, er talið fágætt á heimsvísu. Vel grónar heiðar teygja sig langt inn af núverandi byggð, jafnvel alveg upp í rúmlega 500 m hæð yfir sjó.

Það má heita merkilegt hvað samfelldur gróður er þar víðáttumikill þegar höfð eru í huga þau miklu áföll sem yfir hann hafa dunið, ekki bara við gos í Eldgjá og Skaftárelda heldur líka frá Kötlu, Grímsvötnum og líklega fleiri eldstöðvum við jaðar Vatnajökuls. Kannski má þakka það mikilli úrkomu og tiltölulega mildu loftslagi.

Hið mikla áfok sem þarna hefur borist yfir í aldanna rás leynir sér þó ekki. Jarðvegur er víða gríðarlega þykkur og djúpar vatnsrásir í hlíðum, en þær eru þó oftast grónar.

Við jaðar Eldhraunsins spretta upp lindir. Í austurjaðri hraunsins eiga Grenlækur og Tungulækur upptök sín en þeir eru einhverjar eftirsóttustu sjóbirtingsár á landinu og mikil verðmæti þar í veiði. Lindirnar við Botna í Meðallandi eru fimmta til sjötta mesta lindasvæði á landinu.

Á vatnasviði Skaftár er mikið fugla- og dýralíf. Má þar nefna votlendi sem er á lista yfir alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði (Important Bird Areas IBAs) og er meðal helstu votlendissvæða Norðurlanda.

Einnig má nefna að grunnvatnsmarflóin Crangonyx islandicus finnst á þessu svæði en hún finnst aðeins á eldvirka belti Íslands og þekkist hvergi í heiminum utan þess.

Virkjun myndi hafa áhrif á vatnsrennsli um Eldhraunið og þau áform að friðlýsa það. Vatnsmagn í Tungufljóti myndi stórminnka með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir það fiskalíf sem þar er.

Umhverfi

Á svæðinu eru mikil verðmæti í landslagi og víðernum. Landið býr yfir einstakri og sérstæðri náttúrufegurð og óvenjulegum formum og litum enda er það fjölsótt af ferðamönnum og miklir möguleikar til uppbyggingar í ferðaþjónustu. Langisjór er tært fjallavatn en um stuttan tíma á 19. öld rann jökulvatn úr Skaftá í vatnið og litaði það.

Á vatnasviði Skaftár er eitt af mestu lindasvæðum landsins, Eldvatn í Meðallandi. Tilgátur eru uppi um að fjórðungur þess vatns sem fram kemur í lindum neðan Eldhrauns sé komið með grunnvatni sem á rætur að rekja til Skaftár við gamla Skaftárgljúfrið við Skaftárdal.

Samkvæmt rannsóknum á efnainnihaldi grunnvatns safnast þarna saman þrír megin grunnvatnsstraumar; jökulbráðarvatn frá Skaftárkötlum, vatn frá dýpri hlutum Skaftárkatlasvæðisins og regnvatn sem fallið hefur á svæðinu suðaustan Skaftár. Erfitt er að segja til um áhrif virkjunar á grunnvatnsrennslið.

Fyrirhuguð Búlandsvirkjun hefði gríðarlega víðtæk landslagsáhrif. Hún myndi gjörbreyta ásýnd fagurs og eftirsótts ferðamannasvæðis við Skaftá, drekkja vel grónum dal undir vatn og þurrka út Tungufljót í núverandi mynd. Ef lindirnar í Meðallandi og Landbroti verða fyrir áhrifum stækkar sjónrænt áhrifasvæði framkvæmdarinnar verulega.

Virkjunarhugmyndir

Suðurorka áformar að reisa 150 MW Búlandsvirkjun í Skaftá. Virkjunin myndi fela í sér virkjun Skaftár í 319 m hæð yfir sjó, rétt við Hólaskjól en þar er gangnamannahús og vinsæll dvalarstaður ferðamanna á sumrin. Þar yrði reist stífla þvert yfir ána og bæði Skaftá og bergvatnsánni Syðri-Ófæru veitt í göngum til suðurs inn í grunnan dal við Kálfasléttur eða Þorvaldsaura. Þar yrði gert miðlunarlón, 9-10 km² að flatarmáli við hæstu vatnsstöðu. Stöðvarhús yrði við suðausturenda lónsins og vatninu þaðan veitt um önnur göng í suðaustur og út í Skaftá við endann á Skálarheiðinni, skammt frá bænum Búlandi sem virkjunin dregur nafn sitt af.

Þessi virkjun yrði að mörgu leyti nokkuð flókin í rekstri og miðað við stærð er áhrifasvæði hennar stórt og áhrifin mikil. Veruleg óvissa er um óbein umhverfisáhrif sem gætu orðið víðtæk og alvarleg.

Rök á móti virkjunum
Hefði áhrif á þrjár ár á svæðinu

Framkvæmdin myndi hafa áhrif á þrjár ár; Skaftá sjálfa, Syðri-Ófæru og Tungufljót. Skaftá yrði tekin úr farvegi sínum við Hólaskjól og veitt til baka við Búland. Þetta myndi þýða að farvegur Skaftár yrði vatnslítill eða nær þurr á 14-15 km belti. Framkvæmdin myndi einnig hafa áhrif á Syðri-Ófæru sem tekin yrði rétt áður en hún rennur í Skaftá, og Tungufljót en þar yrði stíflað í Rásgljúfri og miðlunarlónið á Þorvaldsaurum yrði í farvegi þess. Talið er að vatnsmagn í Tungufljóti þar sem það rennur í Kúðafljót myndi minnka um 50% og áin yrði í raun ekki lengur til í núverandi mynd.

Mannvirki og stíflur myndu rísa

Þó nokkur mannvirki myndu rísa ef af virkjun yrði ásamt tilheyrandi raski. Reist yrði stífla þvert yfir Skaftá rétt ofan Hólaskjóls. Þarna rennur Skaftá á breiðum aurum umkringd grónu hrauni í fjölbreyttu landslagi. Stíflan yrði um 2,5 km á lengd og 8 m á hæð þar sem hún er hæst og mjög áberandi í landslagi, til dæmis ofan af vinsælum útsýnisstað austan Eldgjár þar sem ferðamenn litast um þegar þeir fikra sig niður af veginum frá Fjallabaki. Upp frá stíflunni er gert ráð fyrir að byggja garð yfir 2 km leið upp með Skaftá, garð sem lægi eins og farvegur árinnar nokkurn veginn þvert á stífluna. Á þessum slóðum liggur vegurinn frá Fjallabaki niður að Skaftá og þar renna lindalækir í jökulána í fjölbreyttu og vel grónu hrauni. Einnig þarna vilja ferðalangar nema staðar, taka myndir og virða fyrir sér litla náttúruperlu sem mun gjörbreytast við framkvæmdina. Talsvert stórt (næstum 10 km²) en grunnt lón mun verða í breiðum en grunnum dal sem Tungufljót rennur um og í virkjanaskýrslum er kenndur við Þorvaldsaura. Dalurinn er þó að heita má algróinn. Þar sem afrennsli virkjunarinnar er skilað til baka út í Skaftá er gert ráð fyrir frárennslisskurði, varnargarði og einni stíflu í viðbót sem ætlað er að beina vatninu til austurs, eftir farvegi Skaftár meðfram Síðuheiðum. Nýir vegir og slóðar yrðu lagðir við stífluna, sunnan stíflunnar á Þorvaldsaurum og við og norðan Búlands.

Væri flókin í rekstri

Talið er að virkjunin yrði flókin í rekstri. Í vestanverðum Vatnajökli eru virk jarðhitasvæði sem kennd eru við Skaftárkatla. Hvor ketill um sig tæmist árlega eða annað hvert ár og koma hlaupin fram í Skaftá. Þeim fylgir gríðarlegur aurburður. Hann má ekki komast í hið fyrirhugaða grunna miðlunarlón, né í hverfla virkjunarinnar, og þess vegna er áformað að hleypa ánni framhjá virkjuninni, sína réttu leið, í Skaftárhlaupum. Gert er ráð fyrir að miðhluti stíflunnar yfir Skaftá verði útbúinn með gúmmílokur sem hægt verði að leggja niður og hleypa þannig flóðinu niður eftir ánni en að hlaupi loknu verða þær blásnar upp aftur í fulla stífluhæð. Ekki hafa verið birtar upplýsingar eða spár um hversu langt aurburður flóðanna mun ná að berast eftir ánni, hvar hann situr eftir eða hversu miklu áfoki má búast við, t.d. í þeim hluta árinnar (allt að 15 km á lengd) sem verður nær þurr eftir framkvæmdina.

Fyrirsjáanlegt er að aur myndi hlaðast upp ofan við stífluna í Skaftá en ekki liggur fyrir mat á því hversu mikið magnið yrði né hvernig ætti að fjarlægja hann eða hvar ætti að koma honum fyrir.

Margir fossar myndu þorna upp

Neðan uppistöðulónsins myndi rennsli árinnar breytast og margir fossar nálægt Skaftárdal þorna upp að mestu. Að öllum líkindum bærist því minna af seti til sjávar. Setið sæti eftir og fok ykist yfir vetrarmánuðina.

Fokhætta og önnur umhverfisáhrif

Mikil óvissa er um umhverfisáhrif virkjunarinnar, t.d. er mikil óvissa um fokhættu frá aur í farvegi Skaftár, einkum á þeim hluta sem þornar með framkvæmdinni og frá framburði sem safnast fyrir ofan stíflunnar. Gert er ráð fyrir að vatn yrði farið að safnast í lónið um mánaðamótin apríl-maí og að það yrði orðið fullt nálægt miðjum júní. Snemma vors gæti því verið fokhætta úr lóninu en á svæðinu er þykkur áfoksjarðvegur og verulegt set myndi berast inn í lónið með ánni.

Tíðni Skaftárhlaupa gæti aukist

Þá virðist virkni Skaftárkatla vera að aukast og mun það að öllum líkindum viðhalda og jafnvel auka tíðni Skaftárhlaupa og þar með magni þess sets sem sitja mundi eftir í farveginum. Ekki er vitað hvaða áhrif fok frá uppistöðulónum og farvegi gætu haft á lífríki sjávar.

Áhrif á grunnvatn, lindir og veiði

Áhrif framkvæmdarinnar á grunnvatn og lindir í byggð eru mjög óviss en gætu orðið veruleg og afdrifarík. Við Botna í Meðallandi, nánast í miðju Eldhrauninu, koma upp vatnsmiklar lindir (5.-6. stærsta lindasvæði á Íslandi) og í austurjaðri hraunsins eru lindirnar sem mynda Grenlæk og Tungulæk. Talið er að þetta vatn eigi sér þrenns konar uppruna: í úrkomu sem fellur á hraunið, í leka frá Skaftá gegnum hraunið og að lokum bræðsluvatn undir jarðhitaáhrifum sem runnið hefur neðanjarðar eftir fornum gljúfrum Skaftár (sem fylltust af hrauni í Skaftáreldum) alla leið frá Vatnajökli en kemur fram í lindunum. Mjög óvíst er hvernig og að hvaða marki virkjun Skaftár gæti haft áhrif á þessar lindir sem búa yfir margs konar verðmætum. Þær eru fágæt náttúrufyrirbæri á heimsvísu og verndargildi þeirra mikið. Um er að ræða eitt af stærstu lindasvæðum landsins, lítt snortið og í fögru og sérstöku umhverfi. Óvíst er hvaða áhrif breyting á lindunum gæti haft á fuglalíf, vatnalíf og votlendi í Meðallandi og í Landbroti. Miklir fjárhagslegir hagsmunir eru í veði vegna veiði í Tungulæk og Grenlæk auk þess sem vatnið er nýtt í fiskeldi.

Mikilvægt svæði til beitar

Lónsstæðið er á grónu svæði sem hingað til hefur verið mikilvægt til beitar. Þetta er á svæði þar sem þarf að fara varlega í beitarmálum, meðal annars vegna nálægðar við virkustu eldfjöll landsins.

OR: https://orkustofnun.is/gogn/Skyrslur/OS-2015/OS-2015-04-Vidauki-35.pdf

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is