Skref fyrir skref á Degi umhverfisins

Skref fyrir skref, leiðbeiningar fyrir vistvænna líf. landvernd.is
Skref fyrir skref er leiðbeiningarrit um vistvænni lífsstíl.

Skref fyrir skref 
leiðbeiningarrit um vistvænni lífsstíl.

Landvernd og umhverfisráðuneytið standa að útgáfunni en ritið byggir á norskri fyrirmynd Bit for bit sem Grönn hverdag gaf út. Ritinu er ætlað að vera leiðarvísir að því sem hvert og eitt okkar getur gert til að skapa vistvænni heim og heilsusamlegra umhverfi, öllum til hagsbóta og án þess að dregið sé úr lífsgæðum.

Leiðbeiningunum er ætlað að gefa mynd af því hvernig lífsstíll er samofinn umhverfismálum og opna þannig augu lesenda fyrir mikilvægi málefnisins. Hafa ber í huga að hver og einn verður að vega og meta eigin aðstæður og möguleika á að ástunda vistvænan lífsstíl.

Mikilvægt er að ætla sér ekki um of og taka eitt skref í einu.

Bæklingurinn var gefinn út þann 25. apríl 2008, á Degi umhverfisins.

Skref fyrir skref. Leiðbeiningarrit um vistvænan lífsmáta. landvernd.is
Smelltu á ritið til að skoða

Frá vilja til verks

Ávarp umhverfissráðherra Jónínu Bjartmarz

Öll þekkjum við orðatiltækið vilji er allt sem þarf. Um þessar mundir er að verða nauðsynleg vakning varðandi umhverfismál í hugum fólks og viljinn til að lifa vistvænna lífi er orðinn meiri en áður. Samtímis hafa stjórnvöld unnið að því að skapa nauðsynlegan grundvöll að vistvænum lífsstíl með lögum, reglugerðum og hagrænum hvötum.

Á hverjum degi heyrum við í fréttum hvernig umhverfið í kringum okkur er að breytast. Nú hafa vísindamenn varað við því að hlýnun loftslags af manna völdum geti orðið 1,8- 4,0°C á þessari öld. Í kjölfar þeirra breytinga sem fylgja gæti milljarður manna orðið drykkjarvatnsskorti, hungursneyðum, flóðum og hitabylgjum að bráð. Ég nefni þessa umhverfisvá sérstaklega þar sem rit þetta er gefið út á Degi umhverfisins sem í ár er tileinkaður hreinni orku og loftslagsmálum. Á vettvangi loftslagsmála sem og annarra umhverfismála bíða okkar mikil úrlausnarefni og nú er orðinn áþreifanlegur vilji hjá almenningi til að breyta eigin lífsstíl til þess að verja og bæta umhverfið í eigin þágu og komandi kynslóða.

Stjórnvöldum ber skylda til þess að fræða fólk um hvernig það getur breytt eigin háttum til vistvænni lífsstíls. Umhverfisráðuneytið og Landvernd hafa tekið höndum saman um að búa til þetta rit sem er ætlað einmitt slíkt hlutverk, að leiðbeina fólki frá vilja til verks. Ég þakka Landvernd kærlega fyrir samvinnuna.

Jónína Bjartmarz,
umhverfisráðherra

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd