Stóra-Laxá er í hættu, verndum náttúruna, afþökkum stóriðju, landvernd.is
Stóra-Laxá er í hættu á að vera virkjuð.

Stóra Laxá á upptök sín sunnan Kerlingarfjalla, rennur um 90 km og sameinast Hvítá við Vörðufell. Hún er fræg laxveiðiá sem rennur um ósnortið, heiðarland sem er mótað af jöklum ísaldarinnar og býr áin og umhverfið yfir mikilli náttúrufegurð á við hin stórfenglegu Laxárgljúfur sem áin hefur grafið í móberg síðan að ísöld lauk.

Virkjunarhugmyndir

Uppi eru áform um að virkja Stóru-Laxá. Er hún flokkuð í biðflokk rammaáætlunar. 

Landsvirkjun vill virkja Stóru-Laxá ofan Laxárgljúfra. Samkvæmt upplýsingum Orkustofnunar er reiknað með að gljúfrin sem slík verði ósnortin en vatnsmagn muni minnka. Þá er gert ráð fyrir að hleypa verði vatni framhjá virkjuninni til að tryggja fiskgengd í Laxárgljúfrum, en laxveiði er í Stóru-Laxá og efstu veiðistaðir neðarlega í Laxárgljúfrum. óvíst er um áhrif virkjunarinnar á laxveiði.

Virkjun Stóru-Laxár mun fylgja mikil röskun á landi ofan Laxárgljúfra í nágrenni Helgaskála. Á svæðinu eru fyrir tvær samsíða 220kV háspennulínur sem liggja frá Sultartanga að Brennimel í Hvalfirði. Virkjanaframkvæmdir myndu fela í sér fjögur uppistöðulón, alls 12,5 km2 að stærð. Stærsta lónið, Illugaverslón 6,7 km2, yrði helsta miðlunarlónið fyrir virkjunina. Umhverfisáhrif virkjunarinnar eru lítt þekkt á þessari stundu, en ljóst má vera að hún gjörbreytir ásýnd svæðisins ofan Laxárgljúfra.

Fyrirhuguð virkjun myndi minnka rennsli í Laxárgljúfrum ásamt því að tvö stór lón austan gljúfranna yrðu mynduð sem myndu færa stór votlendissvæði á kaf. Auk þess myndu skurðir, göng, stöðvarhús, vegir, háspennulínur og stíflur breyta ásýnd ósnortinna víðerna á suðurmörkum miðhálendisins.

Heimild: Orkustofnun

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is