Skipuleggðu þína eigin strandhreinsun. Hér má finna upplýsingar um fyrstu skrefin.
Sjá einnig: Á meðan hreinsun stendur og Að hreinsun lokinni.
Veldu hreinsunarstað
Veldu stað, t.d. strönd, fjöru, árbakka, leikvöll eða tiltekið svæði í nærsamfélaginu. Plast og sorp í umhverfinu fýkur oft út í sjó og því er tilvalið að taka til hendinni sem víðast. Mikilvægt er að kynna sér staðinn vel áður en viðburðurinn er haldinn til að auðvelda skipulagningu.
Ganga skal úr skugga um að staðurinn sé öruggur og aðgengi að honum sé gott.
Fyrir viðburðinn er gott að kanna með hvaða hætti er hægt að komast á staðinn (s.s. almenningssamgöngur, hjólastígar eða aðgengi fyrir bíla).
Athugið hvort að einhver aðstaða sé á staðnum, s.s. salernis- eða nestisaðstaða.
Hreinsunin þarf að vera í sátt og samlyndi við náttúruna og lífríkið. Gangið úr skugga um að hreinsun fari ekki fram á varptíma fugla, en varptíminn stendur hæst á vorin.
Ef um friðland er að ræða er mikilvægt að tilkynna hreinsuna til umsjónaraðila svæðisins. Gæta þarf þess að hreinsunin sé unnin í sátt og samlyndi við landeigendur og lífríki. Ef landið er í einkaeigu er gott að fá leyfi landeigenda.
Hvað á að gera við ruslið?
Mikilvægt er að koma ruslinu til endurvinnslu og gera þarf ráðstafanir fyrir það rusl sem safnast í strandhreinsuninni.
Ef hreinsunin er smá í sniðum gæti nægt að skila ruslinu í næsta grenndargám að hreinsun lokinni. Þegar viðburður er skipulagður þarf að ákveða stað þar sem ruslinu er safnað saman.
Kanna má hvaða endurvinnslustöð er í nágrenninu og ákveða hvernig ruslinu er komið þangað.
Hreinsihópurinn ber ábyrgð á flutningi þess sem safnast á endurvinnslustöðvarnar.
Ef hreinsun er mjög stór í sniðum gæti þurft að fá gám á svæðið. Það getur verið kostnaðarsamt og því gæti þurft að leita styrkja hjá fyrirtækjum eða sveitarfélögum í slíkum tilvikum.
Hvernig á að flokka ruslið?
Mælt er með því að fólk flokki jafnóðum og setji plast í sér poka. Skipuleggjendur þurfa að ákveða á hvaða hátt ruslið er flokkað. Einfalt er að þátttakendur fylgi almennum flokkunarreglum og meti magn þess sem safnað er, t.d. með farangursvog.
Endurvinnum, forðumst urðun
Komum plasti til endurvinnslu svo það verði ekki grafið í jörðu
Safnaðu liði
Hvettu vini, nágranna, fjölskyldumeðlimi og fleiri til að taka þátt. Einstaklingar, hópar, fyrirtæki og skólahópar geta staðið fyrir hreinsunum. Það gæti verið sniðugt að búa til viðburð á Facebook. Hér er mynd sem hægt er að nota sem toppmynd. Hægt er að hengja auglýsingar á fjölförnum svæðum. Mælt er með því að fjöldi fari ekki yfir 50 manns, nema að margir komi að skipulagningu.
Gættu að tímanum
Strandhreinsun er krefjandi. Áætlaðu styttri tíma fremur en lengri í hreinsunina. Ákjósanlegur tími er um 2-4 klst.
Þátttaka er á eigin ábyrgð þátttakenda
Þátttakendur bera ábyrgð á eigi öryggi og undirbúningi fyrir viðburði og þurfa að fara að fyrirmælum skipuleggjenda. Tilkynna þarf þátttakendum þetta.
Ekki er mælt með því að börn undir 12 ára aldri taki þátt í stórum strandhreinsunum. Þess í stað er hægt að skipuleggja hreinsun á landi sem er barnvænni.
Mælt með að fólk skrái sig fyrirfram svo hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir verði hópurinn mjög stór. Gera þarf lögreglu viðvart ef fleiri en 100 börn eða 200 fullorðnir taka þátt. Nánari upplýsingar um þetta má nálgast hjá lögreglu.
Auglýsing fyrir þátttakendur
Gæta þarf þess að veita þátttakendum upplýsingar um
- Hvar á að mæta og klukkan hvað.
- Hvað á að gera við ruslið sem safnast.
- Hvaða svæði á að hreinsa
- Staðsetningu flokkunargáma (ef hreinsun er smá í sniðum má benda fólki á grenndargáma þar sem þeir eru fyrir hendi).
Hvatning
Hvatning er mjög mikilvæg, bæði fyrir viðburðinn og meðan á honum stendur. Glaður og áhugasamur þátttakandi afkastar meiru.
Það sem þarf
Biðja þátttakendur um að koma með:
- Hlý föt og góða skó (stígvél/ gönguskó),
- vinnuhanska/vettlinga/garðhanska (fjölnota),
- Fjölnota taupoka/fötur til að safna í. T.d. IKEA poka, sterka fjölnota poka, fötur með sterkum höldum s.s. garðaúrgangsfötur, steypufötur o.fl.
- Vatn í brúsa,
- nesti yfir daginn,
Skipuleggjendur koma með:
- Skyndihjálparkassa
- Auka fjölnotapoka. Hægt að vera með stóra salt poka til að flokka ruslið í.
- Auka vinnuhanska (t.d. garðhanska).
- Skráningarblað með nöfnum og netföngum sem þátttakendur skrá sig á þegar þeir mæta. Hægt er að senda þátttakendum þakkir og myndir frá hreinsuninni.
- Skriffæri (t.d. blýanta).
- Flokkunarblöð
- Farangursvog/ir svo hægt sé að vigta ruslið.
Öryggisatriði
Ef hættulegir hlutir finnast líkt og sprautunálar eða oddhvassir hlutir er öruggast að koma þeim í lokað ílát eins og t.d. plastflösku eða brúsa með loki.
Hressing
Við mælum með því að bjóða þátttakendum upp á hressingu, líkt og kleinu eða epli. Gæta þarf þess þó að bjóða ekki upp á veitingar í einnota umbúðum sem fjúka í burtu.
Hægt er að bjóða upp á veitingar án umbúða og einfalt er best, þannig að ekki þurfi að nota t.d. hnífapör.
Ef ekki er boðið upp á hressingu er um að gera að biðja þátttakendur um að koma með eigin nesti.
Vatn
Hvetjið þátttakendur til að taka með sér fjölnota vatnsbrúsa. Hægt er að vera með vatn á 10 l brúsum þar sem fólk getur fyllt á sína brúsa.
Hvernig kemst fólk á staðinn?
Hvetjið þátttakendur til að koma á staðinn á vistvænan hátt, líkt og gangandi, á hjóli, í strætó eða í samfloti.
Flokkun, tunnur og merkingar
Strandhreinsun hefur mikið fræðslugildi og því er mikilvægt að flokka þann úrgang sem safnast. Gott er að merkja þær tunnur/gáma/poka með lýsandi nafni fyrir flokkinn. Nota mætti merkingar eins og; plast, pappír, málmur, spilliefni (olíur o.s.frv.) og urðun (fyrir almennt rusl og ræða við fólk um að það sem fer þangað er sett í landfyllingu og grafið í jörðu). Mælt er með því að timbur og náttúruleg efni séu skilin eftir í fjörunni.