DSC_0314

Tillögur um ákvæði í stjórnarskrá

Landvernd kallar eftir ákvæði um vernd víðerna í stjórnarskrá.

Landvernd hefur gert athugasemdir við tillögur stjórnarskrárnefndar um breytingar á stjórnarskrá. Að mati Landverndar verða bein réttaráhrif tillagnanna til verndar náttúru og umhverfi fremur veik og má segja að frekar sé um að ræða almenna stefnuyfirlýsingu. Landvernd minnir á að í þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2012 samþykktu tveir þriðju þeirra sem greiddu atkvæði að tillögur stjórnlagaráðs skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Tillaga stjórnarskrárnefndar gengur mun skemur. Að mati Landverndar er því þörf á að útfæra kjarnatillögur er nefndin byggir á betur ef samþykkja á tillögurnar.

Landvernd telur að gera þurfi vernd víðerna að stjórnarskrárvörðum rétti. Því er fagnað að ákvæði um rétt til upplýsinga um umhverfismál og þátttöku í ákvarðanatöku er tryggður í tillögunni, en það vantar að kveða á um frumkvæðisskyldu stjórnvalda í þeim efnum og gera réttláta málsmeðferð að stjórnarskrár vörðum rétti borgaranna. Ánægjulegt er að sjá að almannarétturinn er tryggður í stjórnarskrá, en að mati Landverndar þarf að taka út þann hluta er tilgreinir sérstaklega hagsmuni landeigenda. Þá telur Landvernd að tillagan þurfi að vera alveg afdráttarlaus hvað varðar að meginreglur umhverfisréttar, þ.m.t. varúðarreglan, hljóti stjórnarskrárvarinn rétt.

Landvernd telur að þurfi að skerpa á skilgreiningu á sjálfbærri þróun þannig að hún taki mið af sterkri sjálfbærni, þar sem að náttúruauðurinn er undirstaða efnahagslegra og félagslegra þátta og þeir síðarnefndu megi ekki ganga um of á náttúruauðinn. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi tillögu um náttúruauðlindir í stjórnarskrá sem byggja eiga á sjálfbærri nýtingu. Þá er mikilvægt að skilgreina hvað felst í varanlegum afnotum auðlinda.

Að lokum telur Landvernd að öllum stórum áætlunum Alþingis sem hafa stefnumótandi áhrif á umhverfi, náttúru og nýtingu náttúruauðlinda, eins og samgönguáætlun, rammaáætlun o.fl., eigi að vera hægt að skjóta til þjóðarinnar án þess að það þurfi samþykki 2/3 Alþingis til þess.

Stjórn Landverndar væntir þess að endanlegar stjórnarskrártillögur muni taka mið af framangreindum athugasemdum, settum fram með hliðsjón af mikilvægi verndar okkar sameiginlega þjóðarauðs, sem er náttúra Íslands. Umsagnir Landverndar má finna hér að neðan.

Lesa umsagnir Landverndar

Sorry, we couldn't find any posts. Please try a different search.

Sorry, we couldn't find any posts. Please try a different search.

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.