Andrés Skúlason
formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands NAUST skrifar
Á undanförnum árum hefur Orkustofnun gefið út mikinn fjölda af rannsóknarleyfum til svokallaðra „smávirkjana“ sem eru allt að 9,9 MW. Eitt af stærri verkefnum stjórnar NAUST á síðustu árum hefur verið að fylgjast með framvindu þessara útgefnu leyfa og hvernig þau hafa verið að raungerast hægt og hljótt yfir í skipulagsferli í bakgarði okkar hér austanlands.
Landsvæðið sem mest um ræðir er svokallað Hraunasvæði og eru virkjanaáformin að verulegu leyti inni á landi í eigu íslenska ríkisins. Í þessu ferli verður ekki séð að taka eigi sérstaklega tillit til þeirra lítt snortnu víðerna sem eftir standa á Hraunasvæðinu. Það er auðvitað stórlega ámælisvert hvernig blekkingum hefur vísvitandi verið beitt gagnvart almenningi um þessi svokölluðu „smávirkjanaáform“. Yfirheitið á þessum verkefnum er fjarri öllum sanni og því sem almenningur heldur. Nafnið er allt að því „krúttlegt“, svona rétt eins og „vindmyllulundur“ sem er orðskrípi sem notað er um þessar mundir yfir risavaxin áform í raforkuframleiðslu.
Smávirkjanir eru engar SMÁ virkjanir
Þegar smávirkjanir berast í tal álíta flestir að einungis sé um að ræða virkjanir á borð við virkjun bæjarlækjarins fyrir minniháttar búskaparhætti. Staðreyndin er hinsvegar sú að yfirvarpið er eins fjarri sannleikanum og framast getur því virkjanaumfangið er gríðarlegt eins og stefnt er að. Í ljósi þessara áforma má segja að hafið sé nýtt virkjanaáhlaup undir þessum fölsku formerkjum smávirkjana.
Það er ekki verið að tala um að virkja bæjarlækinn
Almenningur og íbúar á svæðinu gera sér því miður almennt ekki grein fyrir því að verulegum hluta þessa svæðis hefur þegar verið spillt þar sem Hraunaveita, aðliggjandi Hálslóni við Kárahnjúka markar víða djúp sár í stóra landslagsheild með uppistöðulónum og áveituskurðum langt suður eftir Hraunasvæðinu. Áfram vilja menn því vaða í blindni þótt sýnt hafi verið fram á að enginn raforkuskortur sé á svæðinu.
Óafturkræf náttúruspjöll vegna risavaxinna „smávirkjana"
Flutningskerfið má hinsvegar endurbæta og leggja víða í jörðu og að því er blessunarlega verið að vinna. Varðandi hin svokölluðu smávirkjanaáform eru ráðagerðir um Geitdalsvirkjun komnar lengst á veg. Þar liggja nú þegar fyrir skipulagslýsing og viljayfirlýsingar Fljótsdalshéraðs við Arctic Hydro ehf.
Virkjunaráform Arctic Hydro þýða endalok ósnortinna víðerna á hálendi Austurlands
Það fyrirtæki hefur einmitt farið mikinn á undanförnum árum í ásókn svokallaðra smávirkjana. Samkvæmt skipulagslýsingu er gert ráð fyrir allt að 9,9 MW virkjun og miðlunarlóni við upptök Geitdalsár á Hraunasvæðinu og svo stækkun eftir atvikum á síðari stigum sem engum þarf að koma á óvart því að mikið vill meira. Í annan stað hefur Orkustofnun gert tillögu um að taka Hamarsárvirkjun með vatnasviði sömuleiðis af Hraunum inn í rammaáætlun. Segja má að þau áform séu af risavöxnum toga og verða aldrei gerð án gríðarlegra náttúruspjalla. Tillaga Orkustofnunar um virkjun Hamarsár er óskiljanleg en of langt mál að fara út í hér. Verði af þessum virkjanaáformum mun það þýða endalok ósnortinna víðerna á hálendi Austurlands. Reyndar dugar áformuð Geitdalsvirkjun ein og sér fullkomlega til að ganga af Hraunasvæðinu dauðu í skilningi upplifunar ósnortinna víðerna.
Óafturkræf náttúruspjöll vegna risavaxinna „smávirkjana"
Hér verða ekki raktar í smáatriðum allar þær stærðir sem um ræðir. Þess má þó geta að gert er ráð fyrir a.m.k. 970 m löngu og 15 m háu stíflumannvirki í miðlunarlóni við upptök Geitdalsár á Hraunum. Í annan stað liggja fyrir áform um annað stórt mannvirki sem yrði inntakslón með hárri stíflu ofarlega í Geitdal og svo stöðvarhúsi töluvert neðar í dalnum. Öll þessi framkvæmd kallar á gríðarlegt og óafturkræft rask með stórtækum stíflumannvirkjum og lónum ásamt nýrri vegalagningu inn og upp úr óröskuðum Geitdalnum. Allt þetta umfang er auglýst almenningi undir fölskum formerkjum „smávirkjunar“.
Nýjar virkjanir eru tímaskekkja
Náttúruverndarsamtök Austurlands hafa gert alvarlegar athugasemdir við þessi áform frá upphafi máls, enda hafa fjölmargar spurningar vaknað, t.d. þessar:
Eru ósnortin víðerni einskis virði á Austurlandi?
Er almenningur á Austurlandi orðinn ónæmur fyrir víðtækum náttúruspjöllum eftir Kárahnjúkavirkjun?
Er orkuskortur á Austurlandi sem kallar á nýjar og stórar virkjanir? Duga Kárahnjúkavirkjun, Hraunaveita, stækkuð Lagarfossvirkjun og allar hinar virkjanirnar á Austurlandi ekki til þess að brauðfæða íbúa og fyrirtæki á svæðinu?
Stendur almenningi á sama hvort restinni af fallvötnum okkar sé afsalað til einkaaðila sem hafa heimild til áframsölu á nýtingu og virkjunarrétti til erlendra aðila og flutningi á arðinum úr landi?
Er virkjana- og orkukapphlaupið forsmekkurinn að auknum áhuga á sæstreng?
Er raunhæft að álykta að mikil orkuþörf sé í landinu á sama tíma og stóriðjan öll stendur frammi fyrir gegndarlausum taprekstri með tilheyrandi samdrætti og jafnvel lokunum?
Er til of mikils mælst að við næstu skref í orkumálum verði skoðaðir nýir og umhverfisvænni orkukostir sem bersýnilega virka vel í þágu heilu samfélaganna, t.d. varmaskiptar úr sjó og vötnum?
Verndum í stað þess að virkja
Í ljósi þess hve stóru landsvæði hefur þegar verið spillt í þágu orkuframleiðslu hér austanlands verður heildrænn ávinningur samfélagsins tvímælalaust meiri með verndun í stað virkjana. Orkugeirinn hefur nú þegar fengið sitt og gott betur. Eina vitræna leiðin er því sú að friðlýsa það sem eftir lifir af Hraunasvæðinu og fella það inn í áformaðan Hálendisþjóðgarð með öllum þeim fjölbreyttu atvinnutækifærum sem í því felast um langa framtíð fyrir nýsameinuð sveitarfélög.
Horfum til framtíðar
Fyrirhyggjuleysi og skortur á framtíðarsýn hefur lengi verið einn af helstu löstum þessarar þjóðar sem hefur ástundað það að selja frekar undan sér gæðin en að nýta þau í eigin þágu með sjálfbærum hætti til að styrkja innviði sína. Þrátt fyrir aukna umræðu og heimsvitund um mikilvægi umhverfis- og náttúruverndar hafa því miður önnur sjónarmið orðið ofan á þegar afli stjórnsýslu er beitt í þágu nýaldarfjárfesta þar er á stundum einvörðungu reynt að höfða til tímabundinnar framkvæmdagleði og þjónkunar við útvalda fremur en að horfa á heildrænan ávinning sem fæst ekki metinn fyrir samfélagið eða komandi kynslóðir vegna yfirgangs. Fyrirhyggja og langtímasjónarmið til hagsbóta fyrir umhverfi og samfélög hafa því sjaldnast verið með í farteskinu við stórframkvæmdir á Íslandi.
Náttúruvernd og lögbundið hlutverk sveitarfélaga
Á starfssvæði NAUST þarf að eiga sér stað víðtæk umræða og viðhorfsbreyting innan samfélagsins. Sú umræða þarf ekki síst að fara fram innan sveitarstjórnarstigsins sem hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna varðandi allt skipulag og framtíðarsýn innan sveitarfélaga. Þau hafa hinsvegar ekki bara skipulagsmál og útgáfu framkvæmdaleyfa á hendi þegar þau mæta þrýstingi frá ýmsum sérhagsmunahópum varðandi virkjanir og orkufrekan iðnað. Sveitarfélögin eiga nefnilega að móta framtíðarsýn um lendur okkar í skipulagi þar sem öll helstu sjónarmið eru dregin að borðinu í upphafi. Þar hafa sveitarfélögin einmitt mjög ríkar skyldur að virkja ráðgefandi náttúruverndarnefndir innan stjórnsýslunnar. Óvíst er að almenningur þekki til þess að í hverju sveitarfélagi er lögbundið að hafa starfandi náttúruverndarnefndir. Því miður eru þessar nefndir víðast óstarfhæfar. Þær sinna ekki lögbundnum skyldum sínum og virðast vera fremur til skrauts og friðþægingar en sveitarfélögunum raunverulega til ráðgjafar.
Upplýsa þarf almenning
Þessi mikilvægi málaflokkur hefur því miður víðast hvar mætt afgangi á sveitarstjórnarstiginu. Einnig virðist almenningur misskilja oft á tíðum hlutverk umhverfisnefnda sveitarfélaga sem sinna á stundum litlu öðru en álitaefnum varðandi umhirðu og umgengni almennt innan bæjarmarka.
Umhverfisnefndir sveitarfélaga eru því ekki ráðgefandi fyrir stjórnsýsluna um náttúruvernd, nema sérstaklega sé kveðið á um það í erindisbréfi þeirra. Á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga má meðal annars sjá þessar lögbundnu skyldur sveitarfélaganna. “Sveitarstjórnir skulu kjósa náttúruverndarnefndir, í samræmi við 14. gr. laga um náttúrvernd nr. 60/2013. Náttúruverndarnefndir skulu vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um náttúruverndarmál. Skulu þær stuðla að náttúruvernd hver á sínu svæði, m.a. með fræðslu og umfjöllun um framkvæmdir og starfsemi sem líklegt er að hafi áhrif á náttúruna, og gera tillögur um úrbætur til sveitarstjórna og Umhverfisstofnunar. Sveitarfélög hafa aðkomu að friðlýsingu landsvæða og geta stofnað fólkvanga, útvistarsvæði fyrir almenning. Umhverfisstofnun og náttúruverndarnefndir funda einu sinni á ári.“
Eins og áður segir ber sveitarfélögum skylda til að virkja aðkomu náttúruverndarnefnda að öllum málum sem kunna að snerta málaflokkinn. Sannarlega hefur skort á þennan þátt málsins hér á Austurlandi svo eftir hefur verið tekið. Vegna þess sinnuleysis býr stjórnsýsla sveitarfélaganna og sveitarstjórnarfólk almennt við mikinn þekkingarskort og er illa upplýst um gildi náttúruverndar. Meðan þessum brýnu málefnum er haldið frá borðinu er samkvæmt eðli máls ekki að vænta góðrar faglegrar umræðu eða niðurstöðu í sátt við umhverfi og samfélag. Samhliða því að umhverfis- og náttúruverndarmál hafa átt erfitt uppdráttar innan sveitarstjórnarstigsins liggur fyrir að Austurland hefur nú þegar fórnað meiru á kostnað náttúruverndar en aðrir landshlutar. Má því sannarlega segja að nú sé komið að skuldadögum á þessu svæði.
Breytingar til hagsbóta
Að sjálfsögðu hefur ýmis jákvæð framþróun orðið á starfstíma NAUST þar sem hugviti og framsýni hefur verið beitt til hagsbóta á nokkrum sviðum í þágu náttúru- og umhverfismála. Í þessu sambandi má nefna að rannsóknir og eftirlit hafa góðu heilli tekið framförum á síðustu áratugum þó sannarlega megi ennþá gera betur í þeim efnum. Umhverfismat við gerð skipulagsáætlana við allar stærri framkvæmdir sem og framkvæmdir á viðkvæmum svæðum er líkast til einhver mikilvægasta breyting til batnaðar. Auk þess var sérstöku umhverfisráðuneyti komið á fót sem mörgum þótti ekki sjálfsagt á sínum tíma. Allt hefur þetta aukið vægi umræðunnar og bætt umgjörðina þannig að auðveldara er um vik að veita skipulags- og framkvæmdaaðilum lágmarks aðhald eins og tíðkast hjá flestum siðmenntuðum þjóðum. Hagsmunaaðilar ýmsir hafa því greiðari leið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og í þessum efnum hafa umhverfis- og náttúruverndarsamtök hverskonar mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Enn má þó deila um hversu mikið haldreipi er raunverulega í umhverfismati og í samanteknu áliti Skipulagsstofnunar þegar stjórnsýslan virðist oftar en ekki líta svo á að hún sé í engu bundin af því að virða niðurstöður, hversu neikvæðar sem þær kunna að vera fyrir umhverfi og náttúru.
10 MW eru of hátt viðmið fyrir Rammaáætlun
Þá var ráðist í gerð sérstakrar rammaáætlunar sem leið til sátta um með hvaða hætti skuli nýta landið og náttúrugæðin. Þetta var mikilvægt skref en fjarri því gallalaust stjórntæki líkt og ýmis önnur mannanna verk. Einn af stærri göllum rammaáætlunarinnar er sá að hún gerir ekki ráð fyrir heildstæðu umhverfismati virkjana undir 10 MW sem er alltof hátt viðmið. Þarna er því að finna mjög veigamikinn veikleika á þeim ramma sem ætlaður var til að skapa sátt. Þessi staða hefur einmitt kallað á nýjar og stórar áskoranir og stefnir sáttinni í töluverða hættu.