Umhverfismál eru heilbrigðismál

Í Kerlingarfjöllum. Ljósmynd: Ellert Grétarsson.
Til að stilla saman raddir lækna með áhuga á umhverfismálum var í janúar síðastliðnum stofnað Félag lækna gegn umhverfisvá. Eru sambærileg félög lækna nú starfandi víða um heim og þrýsta á samfélagsbreytingar varðandi þau umhverfismál sem helst eru til umræðu í hverju landi.

Hjalti Már Björnsson bráðalæknir skrifar

Læknar starfa ekki bara við að lækna sjúkdóma og græða sár. Hlutverk  stéttarinnar er, í víðara samhengi, að starfa að því að halda þjóðinni heilbrigðri. Þó vinnuframlag lækna sé í dag að langmestu leyti falið í að lækna veika og slasaða má ekki gleyma að enn betra er ef hægt er að koma í veg fyrir heilsutjón, að halda fólki heilbrigðu frekar en að lækna sjúkdóma.

Í gegnum aldirnar hafa læknar því oft verið í fararbroddi þeirra sem berjast gegn því sem veldur skaða á heilsu almennings. Áður fyrr voru það farsóttir og hungursneyð en á árinu 2023 eru það umhverfismálin. Samkvæmt Guterres aðalritara Sameinuðu þjóðanna er nú hamfarahlýnun jarðar helsta ógnin við heilsu mannkyns. 

Vissulega mætti efla vísindarannsóknir á ýmsum sviðum en heildarniðurstaða vísindanna á umhverfismálum er orðin skýr. Hamfarahlýnun jarðar af mannavöldum er staðreynd sem þegar er farin að valda hamförum í náttúrunni og þar með ógna fæðuöryggi og hýbýlum okkar. Plast- og efnamengun í umhverfinu veldur okkur heilsutjóni. Hávaða- og loftmengun vegna bílaumferðar styttir lífslíkur. Bara á síðustu 50 árum hefur villtum dýrum jarðar fækkað um helming og sífellt minna verður eftir af óraskaðri náttúru. Af mannavöldum er þegar orðinn skaði á lífríki jarðar sem jafnast á við fyrri hamfaratímabil í jarðsögunni. Við börnum okkar blasir svört framtíð þar sem þau munu njóta minni lífsgæða en við höfum gert, munu finna fyrir afleiðingum gengdarlausrar rányrkju undangenginna kynslóða á náttúruauðæfum jarðar.

Þar sem umhverfismálin skapa nú stórkostlega ógn fyrir lýðheilsu mannkyns er það sannarlega á verksviði lækna að láta málin til sín taka. Læknar eru vanir að
kynna sér vísindalegar rannsóknir og byggja á þeim ákvarðanir upp á líf og dauða, hvort sem verið er að meðhöndla einstakar mannverur eða ákvarða um mál er varða lýðheilsu. Er það álit margra lækna að ef lífríki jarðar væri sjúklingur yrði hann metinn í bráðri lífshættu, myndi þurfa róttækar aðgerðir með innlögn á gjörgæslu í afeitrun og kröftuga meðferð.

Til að stilla saman raddir lækna með áhuga á umhverfismálum var í janúar síðastliðnum stofnað Félag lækna gegn umhverfisvá. Eru sambærileg félög lækna nú starfandi víða um heim og þrýsta á samfélagsbreytingar varðandi þau umhverfismál sem helst eru til umræðu í hverju landi. 

Hér á Íslandi er sannarlega þörf fyrir stórátak í umhverfismálum. Því miður höfum við haft hér duglaus stjórnvöld í umhverfismálum sem hafa ekki sýnt í verki alvöru vilja til að taka á vandanum. Fráveitukerfi í þéttbýli á Íslandi eru þau lélegustu í Evrópu, á flestum stöðum rennur skólp óhreinsað út í fjöruborðið. Endurvinnsla er vanþróuð. Lítið sem ekkert er gert til að draga úr mengun frá bíla- eða skipaumferð. Gripið er til smáaðgerða til að draga úr kolefnislosun á við stórfellda niðurgreiðslu til tengiltvinnbíla fyrir bílaleigur, eitthvað sem engu
breytir um heildarmyndina. Á sama tíma er aukið við losun á öðrum sviðum eins og með því að stuðla að óheftri aukningu flugumferðar og auknum innflutningi
jarðefnaeldsneytis.

Skýrasta dæmið um vanhæfni Íslendinga í loftslagsmálum er ástand votlendis.  Áætlað er að meira en helmingur alls votlendis á Íslandi hafi verið ræstur fram með skurðum en að einungis lítill hluti þessa lands sé nýttur til ræktunar. Losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu votlendi er meiri en öll önnur losun slíkra
lofttegunda á Íslandi. Vandræðalega lítið hefur samt verið gert til þess að endurheimta votlendi á Íslandi.

Ef Íslendingar vilja sýna einhvern vilja til raunverulegra aðgerða í loftslagsmálum ætti að byrja á kröftugu átaki í endurheimt votlendis og auka landgræðslu þannig að náttúra Íslands bindi meira kolefni en hún losar. Yrði það mikilvægt framlag okkar til að draga úr hamfarahlýnun jarðar af völdum gróðurhúsaáhrifa.

Ástand umhverfismála er stærsta áskorun sem mannkyn hefur staðið frammi fyrir. Hér duga engir smáplástrar, ráðast þarf í róttækar aðgerðir og umbylta samfélaginu. Þar þurfum við öll að skoða okkar þátt, einstaklingar, fyrirtæki og hið opinbera. Við þurfum að minnka akstur og flug og endurheimta votlendi. Draga þarf úr kjötneyslu og stórefla þarf umhverfisvæna ávaxta- og grænmetisræktun á
Íslandi. Stórátak þarf í fráveitumálum og herða þarf reglugerðir um notkun og losun skaðlegra eiturefna. Koma þarf á raunverulegu hringrásarhagkerfi þannig að allur úrgangur verði endurnýttur eða endurunninn.

Mikilvægt er að við förum að hlusta á vísindafólkið og viðvörunarorð þeirra. Ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða blasa hörmungar við mannkyni. Hótel Jörð
stendur í ljósum logum, það er kominn tími til að hefja slökkvistarfið áður en það er orðið of seint.

Greinin birtist fyrst í Ársriti Landverndar 2023.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd