Hápennulínur flytja rafmagn til stóriðju, jarðstrengir eru vænlegri kostur þegar tryggja á flutning raforku til almennings, landvernd.is

Umsögn Landverndar um Kerfisáætlun Landsnets 2020-2029

Umsögn Landverndar um Kerfisáætlun Landsnets 2020-2029. Mikilvægt er að tryggja öryggi raforkuflutnings til almennings en hingað til hefur meiri áhersla verið lögð á stóriðju.

Umsögn Landverndar um kerfisáætlun Landsnets 2020-2029 send Landsneti 31. júlí 2020

Landvernd hefur kynnt sér drög að kerfisáætlun Landsnets 2020-2029 eins og fyrri ár.

Vefvæn uppsetning á kerfisáætlun er þægileg yfirlestrar og vill Landvernd hrósa Landsneti fyrir góða og aðgengilega uppsetningu. Landvernd ítrekar þó það sem kom fram í umsögn samtakanna frá í fyrra um að númera kaflana til þess að auðveldara sé að vitna í þá.

Í framkvæmdaáætlun eru margar framkvæmdir komnar á dagskrá sem auka eiga raforkuöryggi almennings á Íslandi.  Stjórn Landverndar fagnar þessum nýju áherslum og að Landsnet hafi þannig brugðist við afleiðingum óveðursins í desember 2019. Með þessu er Landsnet að leggja meiri áherslu að  þjóna hagsmunum almennra neytenda, en að mati stjórnar Landverndar hefur stóriðjan notið meiri forgangs en eðlilegt getur talist fram til þessa.

Nú kemur fram að langtímamarkmið um að halda verðskrá stöðugri virðist ekki ætla að nást og að hún geti hækkað um tugi prósenta. Það vekur spurningar um hvort væntanleg gjaldskrárhækkun sé aðallega herkostnaður vegna stóriðju. Það er eðlileg krafa almennra notenda að þessari áleitnu spurningu sé svarað í kerfisáætlun Landsnet.

Eins og Landvernd benti á í umsögn sinni um síðustu og þar síðustu kerfisáætlanir gengur Landsnet gegn málefnasamningi ríkisstjórnarinnar þar sem línulögnum yfir miðhálendið er hafnað og stefnt að stofnun hálendisþjóðgarðs. Hugmyndir Landsnets um línulögn yfir hálendið eru því óásættanlegar. Það er nokkur bót í máli að í núverandi kerfisáætlun er eingöngu rætt um tvo kosti yfir Sprengisand sem auðveldar umræðuna töluvert en þó er ekki er ljóst hvers vegna Landsnet heldur sig enn við línulagnir á miðhálendinu þrátt fyrir skýr pólitísk stefna hafi verið mörkuð.

Mikið aukin raforkuþörf sem gert er ráð fyrir í kerfisáætlun er byggð á hæpnum forsendum eins og Landvernd fór einnig yfir í síðustu og þar síðustu umsögn sinni.

Langtímaáætlun Landsnets um styrkingu raforkukerfisins hefur hingað til byggst að miklu leyti á að tryggja raforkuöryggi fyrir orkufrekar stóriðju eða stórefla flutningsgetu til þéttbýliskjarna þar sem stóriðja hefur sogað til sín mestalla flutningsgetuna.  Dæmi um hið síðarnefnda er 220 kV loftlína frá Hólasandi að Akureyri. Rétt er að minna á að stórnotendur kaupa 80% þeirrar raforku sem til er í landinu en eins og óveðrið í desember 2019 sýndi hefur flutningskerfi til almennra notenda setið á hakanum.

Landvernd telur að hugmyndir um uppbyggingu flutningskerfis á suðvesturhorni landsins eigi að bíða vegna óvissu með starfsemi orkufrekrar stóriðju á svæðinu.  Núverandi kerfisáætlun ber keim af gömlum draumum um stóriðju á Suðurnesjum og stækkun álversins í Straumsvík.  Spara má framkvæmdafé með því að bíða með þessar framkvæmdir og styrkja til dæmis flutningskerfið á Vestfjörðum og Norðvesturlandi í staðinn.

Sviðsmyndir

Landsnet notast við raforkuspá orkuspárnefndar við útreikning á grunnforsendum við áætlun á flutningsþörf til framtíðar. Raforkuspá var endurnýjuð árið 2019 án aðkomu annarra aðila en orkugeirans. Landvernd hefur í síðustu tveimur umsögnum sínum bent á mýmarga galla við raforkuspá og að þessir gallar séu þess eðlis að spáin geti ekki þjónað sem forsenda í kerfisáætlun Landsnets, bæði vegna þess að hún gildir mun lengur en kerfisáætlun og að í henni er gert ráð fyrir meiri uppbyggingu á orkufrekri  stóriðju en raunhæft getur talist.

Flutningsgeta

Landsneti og öðrum fróðum aðilum er ljóst að mest álag á flutningskerfið er vegna stóriðju þar sem hún kaupir 80% af allri raforkuframleiðslu.  Skýringar á slælegu afhendingaröryggi eru í flestum tilfellum, utan Vestfjarða, oflöstun vegna stórra virkjana sem flytja rafmagn frá svæðinu (til dæmis Suðurnes) eða vegna stórra iðjuvera sem fá rafmagn flutt til sín (til dæmis Eyjafjörður).  Landsnet sem fyrirtæki í eigu almennings ætti að taka þetta skýrt fram í allri umfjöllun um afhendingaröryggi.

Vegna almennrar raforkunotkunar um landið, það er allrar annarrar notkunar en stóriðju, er ljóst að 132 kV duga vel.  Í umfjöllun Landsnets um spennustig er þessa ekki getið og ljóst er að sjónræn áhrif 132 kV lína eru mun minni en 220 kV.  Landsnet þarf því að rökstyðja betur þörfina á 220 kV línum.  Hið minnsta verður Landsnet að tala skýrt, meint þörf á 220kV línum er vegna orkufrekrar stóriðju.

Landvernd telur það villandi að nota nafngiftina “byggðalína” um þá framkvæmd að tengja saman stærstu virkjanir landsins og stórnotendur í eitt net. Nýjar línur sem fyrst og fremst er ætlað til að mæta þörfum stóðiðju ættu ekki að bera þessa nafngift.

Vindorka

Umfjöllun Landsnets um vindorku og mögulega uppbyggingu vegna virkjunar hennar er ágæt.  Landvernd telur þó að hún sé ótímabær þar sem engin leyfi hafi verið veitt fyrir þess háttar uppbyggingu.  Þá þykir Landvernd forsendur Landsnets um uppbyggingu vindorku fullkomlega óraunhæfar þar sem engin þörf er á svo umfangsmikilli orkuframleiðslu í fyrirsjáanlegri framtíð.

Landvernd vísar í umræðu um spá um raforkunotkun kallaða “græn framtíð” og “aukin stórnotkun” í umsögn sinni um síðustu tvær kerfisáætlanir.

Uppbygging í svæðisbundnum flutningskerfum

Landvernd vill koma á framfæri athugasemdum um uppbyggingu á eftirtöldum svæðisbundnum flutningskerfum.  Þessar athugasemdir eru ekki tæmandi og frekari athugasemdir eru boðaðar á seinni stigum.

Höfuðborgarsvæðið og Suðurnes

Landvernd telur að alla uppbyggingu á þessu svæði þurfi að endurskoða heildstætt miðað við ný viðhorf  í samfélaginu, ástand orkuvinnslu á Suðurnesjum og uppbyggingu stóriðju.  Óvíst er með frekari uppbyggingu stóriðju á Suðurnesjum, álverið í Straumsvík hyggur á samdrátt og Suðurnesin eru nú stór nettó „útflytjandi“ raforku.  Ástand jarðvarmavirkjana HS Orku er nokkuð bágborið en fyrirtækið dælir upp úr borholum heitu vatni að svo miklum krafti að rökstuddar efasemdir eru um náttúruleg endurnýjun heita vatnsins. Þess háttar orkuvinnsla er ekki sjálfbær. Framtíð orkuvinnslu og orkunotkunar á Suðurnesjum er því óljós.

Á kynningarfundum hefur verið vísað til þess að kerfið á Suðurnesjum sé óstöðugt þó þar séu tvær öflugar jarðvarmavirkjanir. Lýst er eftir nánari skýringum á því í hverju þessi óstöðugleiki felst og hvort ekki séu aðrar leiðir til að taka á honum en með nýrri 220 kV Suðurnesjalínu.

Niðurstaða álits Skipulagsstofnunar  er að Suðurnesjalína 2 verði lögð sem jarðstrengur í vegöxl Reykjanesbrautar þar sem með því má takmarka rask við það sem þegar orðið er vegna vegagerðar.  Landvernd lagði þetta einnig til í umsögn sinni um síðustu kerfisáætlun og hið saman hafa sveitastjórnir á Reykjanesskaga gert.

Aðrar framkvæmdir á svæðinu eins og Lyklafellslína 1 voru teiknaðar upp á þeim tíma þar sem mikil uppbygging stóriðju á Suðurnesjum var á dagskrá.  Nú er alls óvíst með þessar framkvæmdir og leggur Landvernd því til að beðið sé með stórar framkvæmdir á þessu svæði. Með aukinni meðvitund um umhverfismál fylgir að skoða betri orkunýtni (sjá ályktun aðalfundar Landverndar frá 30. apríl 2019).  Stórir raforkukaupendur á suðvesturhorninu gætu sjálfir nýtt afgangsvarma sem hlýst af starfsemi þeirra mun betur en nú ert gert.  Ef til þessa kemur hefur það mikil áhrif á álagsdreifingu raforkukerfisins og því ætti Landsnet að sjá hverju fram vindur.

Norður- og Norðausturland

Landvernd vísar í umsögn sína um frummatsskýrslu Hólasandslínu 3 frá 21. desember 2018.  Landvernd telur að lagning 220 kV loftlínu um votlendi sem njóta verndar skv. náttúruverndarlögum og um verndarvæði Laxár og Mývatns, komi ekki til greina nema brýnir almannhagsmunir séu í húfi.  Um er að ræða flutning raforku inn á svæði þar sem orkufrek stóriðja notar mun meira rafmagn en allir aðrir notendur samtals á svæðinu.  Lagning þessarar línu er því tilkomin vegna ásælni stóriðju í rafmagn en ekki vegna þarfa almennings og annarrar starfsemi.  Nú eru erfiðleikar í rekstri kísilvers PCC á Bakka og óvíst með áframhaldandi starfsemi þess. Óljóst er hvert framhaldið verður á orkunotkun á svæðinu.  Á meðan þessi mikla óvissa er fyrir hendi er fyrirhugað rask í tengslum við Hólasandslínu 3 ekki réttlætanlegt.

Landvernd fagnar auknum áherslum á notkun jarðstrengja í Eyjarfirði sem munu leiða til víðtækari sáttar um þróun dreifikerfisins þar.

Landvernd hvetur Landsnet til þess að skoða vandlega alla kosti vegna Blöndulínu 3 en vitað er að fjölmargir íbúar á svæðinu sem fyrirhuguð lína liggur um eru henni andsnúnir.  Það sama gildir um landeigendur og mun lagning línunnar mæta mikilli andstöðu.  Þá er Landsnet hvatt til þess að greina vel frá því hvers vegna þörf er talin fyrir þessa línu.  Landvernd vísar annars í komandi umsagnir sínar um Blöndulínu 3 í tengslum við umhverfismat hennar.

Vestfirðir

Landvernd fagnar auknum áherslum að bæta hringtengingar og leggja fleiri jarðstrengi á Vestfjörðum. Vísað er í skýrslu Metsco sem samtökin létu gera um bætt raforkuöryggi á Vestfjörðum sem finna má á heimasíðu samtakanna.  Þar kemur fram að straumleysismínútum á Vestfjörðum má fækka verulega með lagningu jarðstrengja á bilanagjörnustu leiðunum. 

HS Orka hefur slegið framkvæmdum við Hvalárvirkjun á frest um óákveðin tíma.  Engar virkjanir eru því í farvatninu sem nýta tengipunkt í Djúpinu og ætti Landsnet því óhikað að taka hann af framkvæmdaáætlun. Í þessu sambandi minnir Landvernd einnig á fyrri athugasemdir samtakanna þess efnis að langflestar bilanir hafa orðið vestan við fyrirhugað tengivirki í Kollafirði. Einnig að tenging við Ísafjörð um ráðgerðan tengipunkt í Djúpinu er tæknilega óraunhæf vegna takmarkana á notkun jarðstrengja á leiðinni.

Vesturland

Ný lína frá Hvalfirði í Hrútafjörð mun verða mjög flókið, dýrt og umdeilt verkefni sem fyrst og fremst þjónar hagsmunum stórra raforkukaupanda. Það er mikilvægt að dylja ekki raunverulega ástæðu fyrir þessum áformum og hefja opnar samræður um þau.  Stjórn Landverndar telur ótímabært að hafa áform um þessa línulögn sem hluta af kerfisáætlun Landsnets 2020-2029.

Langtímaáætlun um þróun meginflutningskerfisins

Landvernd ítrekar umsögn sína um síðustu og þarsíðustu kerfisáætlun1 þar sem því er hafnað að Landsnet geti notað raforkuspá til grundvallar langtímaáætlun.  Þá er einnig farið yfir það og skal það endurtekið hér að ríkisstjórnin hefur hafnað hugmyndum Landsnets um línulagnir á hálendinu og er Landsnet hvatt til þess að virða þá stefnu. Það er deginum ljósara að stefnumörkun stjórnvalda og tillaga að kerfisáætlun fara saman.  Landsneti ber því að falla frá hugmyndum sínum um línulagnir á hálendinu þar sem í bígerð er þjóðgarður á miðhálendinu og í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar er skýrt tekið fram að ekki verði ráðist í línulagnir á hálendinu.  Því verður að falla frá kostum H1 og H2, Hálendisleið.

Framkvæmdaáætlun 2021-2023

Kröflulína 3 og Hólasandslína 3 

Með erfiðleikum í rekstri PCC á Bakka er orkunotkun á Norðurlandi nokkuð breytt.  Landvernd vísar í umsagnir sínar um Kröflulínu 3 og Hólasandslínu 3 sem og umsagnir um síðustu kerfisáætlun varðandi þessar línur. Að teknu tilliti til þeirra og verulega minnkaðri orkunotkun á svæðinu er rétt að slá þessum framkvæmdum á frest þar til skýrist hvað verður um kísilverið á Bakka. Rétt er að taka fram að kísilverið átti í verulegum rekstrarörðuleikum fyrir Covid-faraldurinn.  

Landvernd hefur tjáð sig um Kröflulínu 3 áður, til dæmis með umsögn um matsskýrslu dags. 5. maí 2017.  Landvernd telur enn að ekki sé um brýna almannahagsmuni að ræða sem réttlæta röskun votlenda á Jökuldals- og Fljótsdalsheið sem njóta verndar skv. náttúruverndarlögum eða röskun á nútímahraunum á vestasta hluta línunnar sem einnig njóta verndar samkvæmt sömu lögum og mikla skerðingu á víðernum.  Landvernd telur að hér sé fyrst og fremst um að ræða fjárhagslega hagsmuni Fjarðaráls og PCC á Bakka  en að ekki séu í húfi almannahagsmunir.

Álit Skipulagsstofnunar á áhrifum Kröfulínu 3 á landslag eru að þau séu mikil ef um loftlínur verði að ræða en í matsskýrslu gerði Landsnet grein fyrir mögulegum jarðstrengslögnum sem nú virðist ljóst að fyrirtækið ætlar sér ekki að fara eftir megin niðurstöðu umhverfismatsins. Í áliti Skipulagsstofnunar dags. 6.desember 2017 segir á bls. 34:

„Hinsvegar mun lagning Kröflulínu 3, nær alla leiðina milli Kröfluvirkjunar og Fljótsdalsstöðvar hafa mikil áhrif á landslag og mögulega einnig á ferðaþjónustu og útivist. Draga má verulega úr neikvæðum áhrifum framkvæmdanna hvað þessa þætti varðar með því að leggja línuna í jörð. Þar koma allir þeir jarðstrengskaflar til álita sem kynntir eru í matsskýrslunni. Jafnframt telur Skipulagsstofnun eiga við að skoða jarðstreng á kaflanum um Austaraselsheiði og Mývatnsöræfi.“

Þrátt fyrir þessi tilmæli áformar Landsnet þá leið sem verst er fyrir umhverfið og að hunsa náttúruverndarlög. Í ljósi gríðarlegrar eyðileggingar sem línan veldur og í ljósi rekstrarörðuleika PCC á Bakka ætti Landsnet að slá framkvæmdum á frest og einbeita sér að brýnni verkum eins og styrkingu flutningsnetsins á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.

Hólasandslína 3

Landvernd vísar í umsögn sína um frummatsskýrslu Landsnets dags 21. des 2018.  Hér er um að ræða verulegt rask náttúruminja sem njóta verndar eins og votlenda, rask innan verndarsvæðis Laxár og Mývatns til þess að auka raforkuflutninga til Eyjafjarðar en þar er einn stórnotandi sem nýtir meirihluta raforku á svæðinu.  Þessi línulagning er því sérstaklega tilkomin vegna hans.  Landvernd telur því að mat Landsnets í töflu um  „Samræmi við almenn atriðið í stefnu stjórnvalda“ sé röng.  Vægiseinkun um rask náttúruminja, sjónræn áhrif og styrkingu og uppbyggingu m.t.t. þarfa allra landsmanna er línulögninni allt of hagstæð.  Breyta þarf vægi þessara atriða í (-) eða (–) til þess að gefa rétta mynd út frá frummatsskýrslu og fjölda og eðli notenda á svæðinu.

Suðurnesjalína 2

Skipulagsstofnun segir í áliti sínu að jarðstrengur í vegöxl Reykjanesbrautar sé besti kosturinn fyrir Suðurnesjalínu 2. Þetta er í samræmi við umsögn bæjarstjórnar Voga:

„Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga leggur til að Suðurnesjalína 2 verði lögð í jörð, í stað loftlínu eins og aðalvalkostur Landsnets gerir ráð fyrir. Sé litið til aðalskipulags sveitarfélagsins fellur valkostur B, jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut, best að því. Bæjarstjórn setur þó þann fyrirvara að sá valkostur verði einungis valinn, að heimild Vegagerðarinnar fáist til að leggja strenginn á þegar raskað land á s.k. veghelgunarsvæði. Sé það ekki gerlegt er það mat bæjarstjórnar að þá skuli frekar valinn valkostur A, jarðstrengur meðfram Suðurnesjalínu 1, enda fari þá jarðstrengurinn um þegar raskað svæði að stærstum hluta,“  

Þá telur Landvernd að framkvæmdir á Suðvesturhorni landsins eigi að bíða þar til mál skýrast með stóriðju á svæðinu en 3 fyrirhuguð kísilver, 2 á Suðurnesjum og eitt við Hvalfjörð gætu hafið starfsemi á næstu 5 árum. Líklegast er að áform þessi verið blásin af í ljósi reynslunnar.  Þá hefur Rio Tinto lokað öllum öðrum álverum sínum í Evrópu en því í Straumsvík og framtíð þess vægast sagt óljós.  Á meðan þessi óvissa er uppi, sem líklegt er að leysist úr á næstu 2 árum ætti að bíða með framkvæmdir á suðvesturhorninu þar sem þær framkvæmdir eru að miklu leyti tengdar.  Þó telur Landvernd að ef Landsnet vill hefja eitthvað af þessum verkefnum strax væri Suðurnesjalína 2 í vegöxl Reykjanesbrautar efst á lista.

Færsla Hamraneslínu 1 og 2, lyklafellslína 1, Rauðavatnslína, tengivirki Lyklafell og Fitjar – Stakkur ný tenging

Landvernd telur að teikna verði þessar framkvæmdir upp á nýtt sem hvíla á gömlum hugmyndum um stórfellda stóriðjuuppbyggingu á Suðvesturlandi.

Ísafjarðadjúp – nýr tengipunktur

Landvernd telur ótímabært að taka þetta með í framkvæmdaáætlun þar sem Hvalárvirkjun hefur verið slegið á frest um óákveðinn tíma og engar hugmyndir komnar í ferli um aðrar virkjanir á svæðinu. Landsnet ætti því að einbeita sér að því að styrkja flutningskerfið á Vestfjörðum í bili.

Umhverfisskýrsla

Landvernd þykir breytt framsetning á kerfisáætlun vera til mikilla bóta, en skýr framsetning upplýsinga auðveldar umsagnaraðilum mjög það viðamikla verk að lesa í gegnum alla kerfisáætlun Landsnets á hverju ári.  Þá telur Landvernd að Landsnet hafi bætt að einhverju leyti aðferðafræði við mat á umhverfisáhrifum. Landvernd tekur undir með Landsneti í kaflanum Vandkvæði í umhverfismatsvinnu  að skortur á heildarstefnumörkun í ferðaþjónustu er bagalegur og að mjög mikil þörf er á kortlagningu óbyggðra víðerna.  Landvernd og önnur umhverfisverndarsamtök hafa bent Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu á þetta skriflega á síðust mánuðum og nýlega kom fram tillaga um þetta í Samráðsgátt.

Landvernd gerir athugasemdir við umhverfisskýrslu kerfisáætlunar Landsnet sem hér fara á eftir.  Þessar athugasemdir eru ekki tæmandi.

Landvernd ítrekar umsögn sína um mat Landsnets á áhrif á atvinnuuppbyggingu og ferðaþjónustu eða eins og þar segir:

  1. „Áhrif kerfisáætlunar á ferðaþjónustu: Hvaða svæði eru skoðuð og hvaða þættir ákvarða áhrif kerfisáætlunar. Allt of mikið gert úr óvissu þarna og mjög erfitt að sjá hvernig þetta er metið fyrir svona viðamikla aðgerð.
  2. Áhrif kerfisáætlunar á atvinnuuppbyggingu: Landsnet gerir ekki skýra grein fyrir hvernig hún finnur út jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu og hvaða forsendur liggja þar að baki.   Hér virðist að mestu leyti litið til áhrifa af kerfisáætlun á stórnotendur raforku og þá sérstaklega (mengandi) stóriðju.  Landvernd er sammála því að öruggara flutningskerfi skiptir miklu máli fyrir afkomu stóriðju og áhrif af kerfisáætlun á þann þátt atvinnulífs eru jákvæð.  Aðrir geirar atvinnulífsins finna ekki eins mikið fyrir afhendingaröryggi raforku í sinni afkomu og því er hæpið að halda því fram að áhrif af kerfisáætlun á atvinnu uppbyggingu almennt séu verulega jákvæð eins og Landsnet heldur fram í flestum af þeim kostum sem boðið er upp á í kerfisáætlun 2018-2027. Í umhverfisskýrslu er nefnt að ,,Valkostir A og B falla að áformum um atvinnuuppbyggingu í viðkomandi landshlutum sem felast að mestu leyti í iðjuverum, gagnaverum og orkuöflun“. Undarlegt verður að teljast að áhrif á atvinnuuppbyggingu séu talin svo jákvæð þegar aðeins lítil prósenta vinnuafls í landinu starfar við þennan geira og óskar Landvernd eftir frekari rökstuðningi fyrir þeirri flokkun. Landvernd ítrekar ábendingu sína um að ekki stendur til af hálfu stjórnvalda að fara í neina uppbyggingu á stóriðju á Íslandi á næstu árum. Hefur stefna stjórnvalda í auknum mæli færst frá slíkum fjárfestingum með þeim skattaívilnunum sem eru forsenda þeirra.“

Ekki er hægt að sjá að um sé að ræða stóraukin áhrif á atvinnuuppbyggingu almennt að tengja risavirkjanir og stóriðju í öflugt net eins og langtímaáætlun gerir ráð fyrir.  Skýrt þarf að koma fram að  stóriðja og risavirkjanir hafi dregið úr afhendingaröryggi til dæmis á Suðunesjum og í Eyjafirði á sl. árum til þess að ljóst sé hverjar ástæðurnar fyrir því að ráðast í svo stórtækar línulagnir eins og Landsnet leggur til í langtímaáætlun sinni.  Aukið afhendingaröryggi skiptir máli fyrir almenna atvinnuuppbyggingu á landinu en ekki þannig að það sé ráðandi þáttur. Hins vegar þjónar aukið afhendingaröryggi eins og það er skipulagt hér, fyrst og fremst  stóriðju og stóriðja getur eins og dæmin sanna dregur úr afhendingaröryggi annarra notenda. Því ber Landsnet að endurskoða töflu 1-1 í umhverfisskýrslu.

Langtímaáætlun -umhverfisskýrsla 

Eins og áður sagði er Landsneti ekki stætt á því að leggja fram línukosti sem liggja um miðhálendið vegna málefnasamnings ríkisstjórnarinnar.  Því ætti Landsnet að fjarlæga þá kosti eins og Landvernd benti á í umsögnum sínum um síðustu kerfisáætlanir. Það eru báðir kostir á hálendisleið H1 og H2 og kostir á 10 ára áætlun. Í umhverfisskýrslu langtímaáætlunar segir um miðhálendisþjóðgarð og frumvarp um hann: „Staða frumvarpsins er þannig að verið er að vinna úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust á kynningartíma þess.“ Landsnet virðist því vera að vonast til þess að frumvarpinu verði breytt og heimild fáist til þess að leggja háspennulínur um þjóðgarðinn.  Það er í algjöru ósamræmi við alþjóðleg viðmið og íslensk lög um þjóðgarða. Þó er komin inn í langtímaáætlun nokkuð góð umfjöllun um miðhálendisþjóðgarð.

Gildi Landslags

Ferðafólk, innlent og erlent, metur áhrif loftlína og raforkumastra á landslag mjög neikvætt fyrir óbyggða/hálendisupplifun sína (Stefánsson, Þ. et al. (2017) Energy research and Social Science 34, 82-92). Landsnet metur gildi landslags fyrir alla kosti á langtímaáætlun óveruleg eða neikvæð.  10 ára áætlun og Hálendisleiðirnar báðar liggja að miklu leyti um óbyggð víðerni og áhrif þeirra á landslag og ásýnd því veruleg. Eins og Landvernd hefur áður bent á verða áhrifin veruleg, ef þau spilla heildstæðu og einstæðu landslagi.  Það er villandi að fullyrða að ný lína spilli ekki landslagi ef hún er viðbót við fyrirliggjandi línur eða ef að meirihluti línunnar sem er afar löng, spillir landslagi einungis að litlu leyti.  Því verður grunnástand 10 ára áætlunar fyrir landslag og ásýnd alltaf hátt eins og sést á töflu 6.4, til dæmis vegna víðerna á leið Kröflulínu 3.  Landvernd er því ósamála niðurstöðu umhverfisskýrslu sem kemur fram í töflu 6.6 og á mynd 6.1. Landvernd telur að  áhrif langtímaáætlunar allrar á landslag séu mikil en ekki miðlungs.

Jarðminjar

Matsþættir sem Landsnet leggur til grundvallar á gildi jarðminja á áhrifasvæðum línuleiða í langtímaáætlun eru fráleitir þegar um er að ræða svo stórar framkvæmdir.  Til þess að hafa hátt gildi þarf meirihluti áhrifasvæðisins að vera undir skv. töflu 6.7. en þar sem langtímaáætlun snýst um mjög langar línuleiðir og mjög fjölbreytt svæði sem línur fara um getur gildi jarðminja sem á að raska verið mjög mikið þó að leiðin liggi einnig um svæði sem ekki búa yfir verðmætum  jarðminjum.  Þetta mat þarf því að endurskoða í grunnin og draga þarf úr gildi heildarstærðar áhrifasvæðis á mikilvægi. Hér gildir því það sama eins og að ofan segir um gildi Landslags: það dregur ekki úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar að hluti hennar sé einnig á svæðum sem ekki virðast viðkvæm fyrir raski.

Þá er eins og áður sagði mikil áhrif af öllum þessum framkvæmdum þar sem til dæmis  Kröflulína 3 fer yfir einstakar jarðmyndanir, hraun frá nútíma sem njóta verndar.  Brot á náttúruverndarlögum fyrir framkvæmdir sem torvelt er að sjá að séu til þess að tryggja almannahag eiga í engu samhengi að teljast lítil eða að hafa miðlungsáhrif.

Landvernd telur því að einkenni áhrifa af 10 ára áætlun og leiðir H1 og H2 séu mikil.

Lífríki

Það sama gildir hér og um jarðminjar: heildarstærð svæðisins sem er undir getur ekki verið grundvöllur fyrir því að meta gildi svæðisins.  Sem dæmi þá munu bæði Kröflulína 3 og Hólasandslína 3 raska votlendi sem nýtur verndar skv. lögum og það votlendi missir ekki gildi sitt af því að áhrif línanna eru metnar sem hluti af stærri heild.  Þrátt fyrir þessa athugasemd telur stjórn Landverndar áhrifa á lífríki séu rétt metin í töflu 6.19

Loftslag

Landvernd hrósar Landsneti fyrir góða samantekt á áhrifum starfseminnar á hamfarahlýnun og fyrir að taka þetta upp sem málefni í mati á umhverfisáhrifum.

Landsnet hefur ekki orðið við ábendingum Landverndar um að ræða betur um mótvægisaðgerðir vegna losunar gróðurhúsalofttegunda og vonar að fyrirtækið geri betur að ári.

Eins og Landvernd benti á í umsögn sinni um síðustu kerfisáætlun eru margar af þeim framkvæmdum sem Landsnet hyggst fara í, í trássi við verndarákvæði í  náttúruverndarlögum, svo sem eins og rask á votlendum, og þarf líka að taka áhrif þeirra inn í reikninginn á kolefnisspori framkvæmda Landsnets.

Hér ber að beita varúðarreglu og líta til mestu mögulegrar losunar.  Landsneti er bent á að vera í sambandi við Votlendissjóð, Landbúnaðarháskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Verkfræðistofuna Eflu eða Landgræðsluna til þess að fá mat á þeirri losun sem fyrirtækið mun valda með raski á votlendi.

Atvinnuuppbygging

Landvernd vísar í fyrri umsögn1 og umfjöllun um þetta mat annars staðar í þessari umsögn. Landsnet virðist ofmeta mikilvægi starfsemi sinnar fyrir alla atvinnuuppbyggingu í landinu. Þó áhrifin af auknu raforkuöryggi séu vissulega jákvæð fyrir atvinnuuppbyggingu er hæpið að gera ráð fyrir því það skipti höfuðmáli, nema að úreldar hugmyndir um Ísland sem land stóriðjunnar séu hafðar að viðmiði. Sú mynd af framtíðinni  er úr sér gengin og ekki til þess að byggja áætlanir á.

Landvernd telur því um verulegt ofmat af áhrifum á atvinnuuppbyggingu vera að ræða í töflu 6.29 og á mynd 6.17.

Hér er þó um að ræða huglægt mat Landsnets og því einnig huglæga gagnrýni Landverndar. Nauðsynlegt er að meta þennan þátt út frá skýrari gögnum en óljósum hugmyndum sveitarfélaga sem oft eru framsett í aðalskipulagi.  Óvissa um þennan þátt er með öðrum orðum mikil. Rannsóknir Landnets á þessum þætti, sem kom fram á síðasta fundi Hagsmunaráðs, er áhugaverð, en þarfnast umræðu og umfjöllunar vísindasamfélagsins.

Ferðaþjónusta

Landvernd vísar í fyrri umsögn og umfjöllun um þetta mat annars staðar í þessari umsögn.

Einkenni áhrifa í töflu 6.34 taka ekki til samsetningar ferðamannahópsins eða áhrifanna á sérstöðu Íslands sem náttúruáfangastaðar. Ferðamenn sem bara geta fengið víðerna- og hálendisupplifun á mjög fáum stöðum í heiminum og koma til Íslands eingöngu til þess eru ólíklegri til þess að koma hingað ef veruleg skerðing hefur orðið á óbyggðum víðernum.  Því er það ákveðin tegund ferðamennsku sem getur liðið mjög mikið fyrir framkvæmdir Landsnets þó að heildarfjöldi ferðamanna á þessum stóru svæðum sem undir eru í hverjum valkosti minnki mögulega ekki að ráði.

Um þetta atriði er Landsneti tíðrætt um óvissu á áhrif á ferðaþjónustu. Landvernd fellst  á að hún er til staðar.  Þó þykir stjórn Landverndar Landsnet gera of mikið úr óvissu þeirra þátta sem kerfisáætlun hefur neikvæð áhrif á en minna úr óvissunni þegar Landsnet hefur metið áhrif kerfisáætlunar jákvæð, eins og samtökin bentu á í umsögn sinni um síðustu kerfisáætlun.

Framkvæmdaáætlun – umhverfisskýrsla

Suðvesturland

Landvernd bendir á umfjöllun sína um framkvæmdaáætlun þar sem samtökin leggja til að framkvæmdir á suðvesturhorninu verði endurhannaðar í ljósi minni uppbyggingar stóriðju á svæðinu.

Þá ítreka samtökin að Suðurnesjalína 2 verði lögð í vegöxl Reykjanesbrautar.  Í framkvæmdaáætlun er enn gert ráð fyrir loftlínu þrátt fyrir niðurstöður skipulagsstofnunar og ábendingar sveitafélaga í grenndinni.

Vestfirðir

Landvernd telur að nýr afhendingarstaður í Djúpinu sé röng leið til þess að auka afhendingaröryggi á svæðinu. Ekki eru í farvatninu neinar framkvæmdir sem nýta hann nú þegar Hvalárvirkjun hefur verið slegið á frest.

Með því að leggja bilanagjörnustu línurnar á Vestfjörðum í jörð má ná niður fyrirvaralausum straumleysismínútum umtalsvert.  Árin 2017 og 2018 var ein einasta truflun vegna veðurs valdandi 70% og 80% fyrirvaralausra straumleysismínútna hvort ár. Þó er ljóst að hringtenging og/eða lítillega aukin raforkuframleiðsla á svæðinu þarf að koma til svo afhendingaröryggi á svæðinu verði bætt svo um munar.  Fyrirhuguð Hvalárvirkjun og tengipunktur í Djúpinu er hvorki nægjanlegt né nauðsynlegt skilyrði til þess að auka raforkuöryggi á Vestfjörðum.  Hvalárvirkjun, eins og fram kemur í álit Skipulagsstofnunar, mun valda gróflegri eyðileggingu náttúruminja sem aðeins mjög brýnir hagsmunir og skortur á valkostum geta réttlætt. Slík hagsmunir eru ekki fyrir hendi.

Því leggur Landvernd til að tengipunktur í Djúpi verði tekin af framkvæmdaáætlun.

Norðausturland

Óvíst er um framtíð stórs kaupanda orku á Norðausturlandi, PCC á Bakka.  Stjórn Landverndar telur því að þar til ljóst verður hvernig orkunotkun verður háttað á svæðinu beri að bíða með risastórar framkvæmdir á svæðinu sem ekki hafa það að markmiði að auka afhendingaröryggi til almennings.  Rétt er að benda á að einn stórnotandi í Eyjafirði er ástæða minnkaðs raforkuöryggis þar.

Norðvesturland

Blöndulína 3 og Hvalfjörður-Hrútafjörður. Vísað er í framangreindar athugasemdir. Stjórn Landverndar fagnar þeim framkvæmdum sem tengjast bættu afhendingaröryggi til almennings á Norðvesturlandi.

Lokaorð

Í núverandi kerfisáætlun Landsnets eru skýr verkefni sem stuðla að auknu raforkuöryggi almennings.  Þetta er mjög jákvætt og  mun Landsnet án efa njóta vaxandi velvildar fyrir vikið.  Trúverðugleiki Landsnets myndi aukast ef skýrt væri tekið fram að í mörgum tilfellum eru áformaðar framkvæmdir sem fyrst og fremst þjóna hagsmunum stóðiðjunnar.  Landvernd telur að það gæti verið gagnlegt að bera saman almennt kosti og galla núverandi byggðalínu og 220 kV línu og greina vel þörfina fyrir áformaðar breytingar frá öllum hagsmunum. Þetta er aðkallandi þar sem Landsnet hefur boðað að áætlanir um framkvæmdir verði til þess að áform um að halda verðskrá stöðugri náist ekki.

Landsneti hefur ítrekað verið bent á að háspennulínur á hálendinu eru ekki í samræmi við málefnasamning ríkisstjórnarinnar eða við fyrirætlanir um Hálendisþjóðgarð.  Þrátt fyrir það eru enn uppi áform línur yfir hálendið.  Stjórn Landverndar er ekki ljóst hvað þarf til, svo Landsnet breyti afstöðu sinni.

Ótal aðilar hafa bent Landsneti á að leggja Suðurnesjalínu 2 í vegöxl Reykjanesbrautar er langbesti kosturinn að mati Skipulagsstofnunar. Sú tillaga nýtur víðtæks stuðnings.  Landsnet hyggst engu að síður hafa línuna í lofti.  Aftur er stjórn Landverndar ekkil jóst hvað þarf til, svo Landsnet breyti afstöðu sinni.

Landvernd vill að lokum benda á að mikil vinna felst í því að fara yfir árlegar áætlanir Landsnets, ekki bara fyrir Landvernd heldur fjölmarga aðila. Sú spurning vaknar því hvort ekki mætti draga úr tíðni  þeirra. Ef brýn þörf kemur upp fyrir nauðsynlegar breytingar, mætti taka þær fyrir sérstaklega eins og dæmi eru um með breytingar á aðalskipulagi sveitarfélaga sem gilda til langs tíma, en eru lagfærðar þegar brýn þörf krefur.

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Landverndar,

Auður Magnúsdóttir

framkvæmdastjóri

Umsögn Landverndar um fimm virkjanakosti rammáætlunar

Það er áhyggjuefni að fjórir af fimm virkjanakostum hafi verið settir í nýtingarflokk, sérstaklega í ljósi þess að varúðarnálgun var ekki beitt sem skyldi.
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira

Umsögn Landverndar um fimm virkjanakosti rammáætlunar

Það er áhyggjuefni að fjórir af fimm virkjanakostum hafi verið settir í nýtingarflokk, sérstaklega í ljósi þess að varúðarnálgun var ekki beitt sem skyldi.
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.