Eyrarrós er eitt af einkennisblómum hálendis Íslands, ljósmyndari Hafþór Óðinsson, landvernd.is

Umsögn um mörk miðhálendisþjóðgarðs

Stjórn Landverndar styður heilshugar við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands

Sent í gegnum samráðsgátt

Borgarfirði, 30. júní 2019

Umsögn Landverndar um Mál nr. S-135/2019 Verkefni nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu

Landvernd lýsir fullum stuðningi við áform um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands og telur nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu (hér eftir kölluð nefndin) hafa unnið gott starf. Þjóðgarður á miðhálendinu er í samræmi við stefnu Landverndar, sjá til dæmis ályktun frá aðalfundi samtakanna 2012 og 2019.

Landvernd hvetur nefndina til að vinna áfram markvisst að því að undirbúa stofnun Hálendisþjóðgarðs í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar og væntir mikils af þeim niðurstöðum sem hún væntanlega skilar á þessu ári. Verði stofnun þjóðgarðsins að veruleika á þessu kjörtímabili yrði það það myndarlegt framlag Íslendinga til verndar ósnortinnar náttúru hálendisins og varðveislu víðerna; mikilvægt framlag til varðveislu vermæta á heimsmælikvarða.

Þær tillögur að helstu áherslum sem hér liggja frammi til umsagnar eru í það heila jákvæðar og má ljúka lofsorði á þá áherslu sem lögð hefur verið á að vinna að framgangi málsins í samvinnu við sem flesta sem málið varðar.

Rétt er samt að drepa á nokkrum atriði sem stjórn Landverndar telur verð umhugsunar:

Mörk Þjóðgarðs

Stjórn Landverndar telur að strax í upphafi eigi að nýta tækifærið og víkka út mörk þjóðgarðs umfram þjóðlendur og ríkisjarðir eins og náttúruverndarsjónarmið gefa tilefni til. Að draga mörkin eftir þjóðlendum er lægsti sameiginlegi nefnari og lýsir skorti á metnaði þar sem um mikla samfélagslega hagsmuni er að ræða.

Allar ríkisjarðir sem liggja að fyrirhuguðum mörkum þjóðgarðsins á að mati stjórnar Landverndar að fella inn í þjóðgarðinn sem fyrst.  Þá á ríkið ekki að gefa eftir eignarhald á löndum í grennd við mörk þjóðgarðar eins og nefndin leggur til og er það vel.  Nefndin ætti í tillögum sínum að hvetja ríkið til þess að eignast jarðir innan miðhálendismarka þegar færi gefst til þess að geta fellt þær inn í miðhálendisþjóðgarð.

Þá er alveg ljóst að ekki eru nein haldbær rök fyrir því að láta miðhálendisþjóðgarð ekki ná óslitinn að og um Jökulsárgljúfur. Svæðið er nú þegar í verndarflokki rammaáætlunar og friðlýsing á þeim grunni í undirbúningi.  Landvernd hvetur nefndina til breyta framlagðri tillögu  svo þjóðgarðurinn nái  yfir þetta svæði líka.

Í niðurstöðum verkefnisstjórnar rammaáætlunar liggur fyrir að friða jökulsár í Skagafirði og Skjálfandafjlót fyrir vatnsaflsvirkjunum.  Nefndin gæti því jafnframt lagt til að mörk þjóðgarðarins nái einnig um vatnasvið fyrrgreindra vatnsfalla.

Verndarflokkar – orkunýting

Landvernd hefur skilning á því að mjög erfitt er að ákvarða hvernig skilgreina eigi vernd á mikið röskuðu landi með stórum mannvirkjum eins og virkjanasvæði.  Nefndin leggur til að virkjanasvæði sem falla innan marka þjóðgarðsins skuli fara í sérstakan flokk VI.  Stjórn Landverndar telur þetta vera varhugavert. Þau lönd sem Ísland að jafnaði ber sig saman við hafa ekki iðnaðarsvæði sem virkjanir eru innan marka þjóðgarða. Að vísa til dæma um þetta í örðum löndum eru ekki rök í málinu.  Að mati landverndar mynd sú tilhögun sem lögð er til gengisfella hugtakið „þjóðgarður“. Flokkur VI miðast við hófsama nýtingu náttúrauðlinda sem ekki er iðnvædd. Sú lýsing við þau virkjansvæði sem tilgreind eru og því hafnar Landvernd algjörlega tillögunni hvað þetta varðar. Skilgreina ætti sjálfar virkjanirnar og lón utan þjóðgarðs en skrifa inn í lög og reglugerðir hvernig fara á með orkuvinnslu sem fyrir er umlukt þjóðgarðinum til þess að skilgreina skyldur og ábyrgð umsjónaraðila virkjana sem eru nátengd þjógörðum. 

Í lögum um hálendisþjóðgarð þarf að taka skýrt fram að ný orkuvinnsla geti ekki samræmst markmiðum þjóðgarðsins, að orkuvinnsla sem fyrir er umlukt af þjóðgarði (eða sérstaklega skilgreind innan hans ef nefndin vill leggja það til) sé starfrækt eftir bestu mögulegu stöðlum og að aldrei megi raska frekar landi innan þjóðgarðsins í þágu orkuvinnslu. 

Verndarflokkar- þegar friðlýst svæði

Landvernd lýsir eftir greiningu á svæðum sem ættu að vera undir strangri vernd (Ia). Stjórn Landverndar telur að Orravatnsrústir og Kerlingafjöll þurfi að skoða þurfi sérstaklega í þessu samhengi. Landvernd telur að þetta eigi líka við Guðlaugstungur og Þjórsárver og hugsanlega fleiri svæði þar sem sýna þarf ýtrustu nærgætni í umgengni við lífríkið.

Landnýting

Landvernd telur að ef leyfa á hefðbundna landnýtingingu eins og beit og veiði innan marka þjóðgarðsins, skuli hún skilyrðislaust vera sjálfbær.  Þess hefur ekki verið gætt innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem beit á illa förnu landi hefur verið leyfð.  Þá er rétt að benda á nýútkomna skýrslu Ólafs Arnalds prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands um brotalamir í gæðastýringarkerfi í sauðfjárrækt þegar kemur að sjálfbærri landnýtingu.  Þá varar Landvernd við því að of langt verði gengið í eftirgjöf við hópa sem vilja nýta land innan þjóðgarðs en hvetur til þess að sjónarmið náttúruverndar sem eru forsenda og grunnur þjóðgarða verði látin ráða. Varúðarreglan á skilyrðislaust að gilda innan svæða sem skilgreindir eru sem þjóðgarðar.  Landvernd varar því við að svæði sem illa eru farin vegna ofbeitar og jarðvegseyðingar verði sett í flokk VI nema fyrirvari gildi um framangreind atriði.  

Stjórn Landverndar leggur til við nefndina að hún taki fram hvernig mat á sjálfbærri landnýtingu fari fram og að hún krefjist þess að það sé gert á grunni vísindarannsókna.  Í áðurnefndri skýslu um gæðastýringu í sauðfjárrækt er ljóst að sjálfbær landnýting þegar kemur að beit er í mörgum tilfellum á Íslandi eingöngu að nafninu til.  Innan þjóðgarðs er nauðsynlegt að byggja stýringu á trúverðugum gögnum sem aflað er með bestu mögulegu aðferðum af hlutlausum aðilum.  Nefndin ætti því að leggja drög að stjórnsýslu í kringum svæði í flokki VI, skilgreiningar á sjálfbærri landnýtingu og virkt eftirlit og úttekt óháðra aðila á ástandi lands.

Stjórnsýsla

Stjórn Landverndar vill nota tækifærið og hvetja nefndina til þess að hafa í huga að skýr ábyrgð og skilvirk ákvarðanataka er lykilatriði í stjórnun miðhálendisþjóðgarðs samfara eðlilegri valddreifingu.  Gæta verður að því að veita ákveðnum aðilum ekki of mikið vald umfram aðra í nafni valddreifingar og hafa þarf í huga að markmið þjóðgarðs er alltaf vernd náttúru, viðerna. landlagsheilda og menningarminja.  Nefndin þarf í því tilögum sínum um stjórnsýslu að tryggja að við stjórnun þjóðgarðsins megi taka ákvarðanir byggðar á framsæknum náttúruverndarsjónarmiðum og sjálfbærri landnýtingu. Landvernd vísar í umsögn sína um frumvarp um Þjóðgarðastofnun frá dags. 9. maí 2019 en þar segir m.a.

            „12. gr. Umdæmisráð og 14. gr. Hlutverk umdæmisráðs.

Landvernd telur að samsetning umdæmaráða endurspegli ekki þá fagþekkingu sem nauðsynleg er til setu í svo valdamiklu ráði.  Þó friðlýsingar og náttúruvernd hafi klárlega efnahagslegan ávinning í för með sér, bæði til langs og skamms tíma er tilgangur friðlýsinga og verndar fyrst og fremst náttúruvernd.  Áherslur í samsetningu ráðsins eru alls ekki á náttúruvernd heldur mun frekar á nýtingu.  5 fulltrúar sveitarfélaga eru auk þess háðir þeirri skammtímahugsun sem kjörtímabil sveitastjórna bjóða upp á en ekki af hagsmunum náttúrunnar. Hins vegar er enginn skipaður fulltrúi með faglega þekkingu á náttúrufari eða náttúruvernd í umdæmisráðinu og telur Landvernd þetta varhugaverða þróun að fulltrúar sveitarfélaga skuli hafa svona mikið vægi í tengslum við náttúruverndarsvæði og friðlýsingar.“

Stjórn Landverndar telur að rétt sé að setja kröfur á þá fulltrúa sem sitja í nefndum og ráðum þjóðgarðsins um fagþekkingu og að þeir hafi ekki persónulegra hagsmuna að gæta af því hvernig þjóðarðinum er stýrt til dæmis þegar kemur að nýtingu í atvinnuskyni eða eignarhaldi á landi í grennd þjóðgarðarins.  Þá er rétt að benda á að sveitarfélög hafa i mörgum tilfellum á að skipa fagfólki í skipulags-, náttúruverndar- og nýtingarmálum sem gætu tekið sæti í nefndum/ráðum/stjórnum þjóðgarðsins og hafa þá fagþekkingu og skyldu til þess að gæta hlutleysis .

Lokaorð

Að þessu sögðu skal nefndin hvött til þess að halda áfram því góða starfi sem hún hefur unnið hingað til þar sem samráð og fagleg vinnubrögð hafa verið höfð í heiðri.  Nefndin er einnig hvött til þess að skila vinnu sinni sem fyrst svo stofnun þjóðgarðs geti átt sér stað sem fyrst.  

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Landverndar,

Auður Önnu Magnúsdóttir

framkvæmdastjóri

Sækja umsögn Landverndar


https://landvernd.is/alyktun-adalfundar-um-thjodgard-a-midhalendi-islands

https://landvernd.is/alyktanir-samthykktar-a-adalfundi-landverndar-2019

https://www.moldin.net/uploads/3/9/3/3/39332633/rit_lbh%C3%8D_nr_118.pdf

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

Stuðningur við friðlýst svæði í Vatnsfirði

Mikill skaði myndi hljótast af virkjun á friðlýstu svæði í Vatnsfirði. Gott væri ef Orkubú Vestfjarða sem er að fullu í eigu ríkisins léti af ...
Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.