Teigsskógur er gamall náttúrulegur birkiskógur þar sem skógurinn tengir fjall og fjöru og er það einstakt á Íslandi, Teigsskóg á að skemma með vegalagningu á meðan hægt væri að vernda hann á auðveldan hátt með því að byggja nýja - nauðsynlega veginn annarsstaðar. Fórnum ekki náttúrunni fyrir skammtímahagsmuni, gerum langtímaplan,landvernd.is

Umsögn um samgönguáætlun 2020-2024

Gæta þarf samræmis í áætlanagerð ríkisins. Samgönguáætlun virðist ekki taka mið af aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

Reykjavík, 9. jan 2020

Umsögn Landverndar við tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024, 434. mál

Stjórn Landverndar hefur kynnt sér fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020-2024. Um er að ræða aðgerðaáætlun fyrir fyrsta fimm ára tímabil 15 ára samgönguáætlunar sem lögð er fram samtímis.  

Aðgerðaáætlunin nemur um 40 milljörðum króna á ári eða um 217 milljörðum króna á tímabilinu.  Hún mun því án efa geta haft mikil áhrif á þróun umhverfismála á næstu árum, sérstaklega loftgæði, losun gróðurhúsalofttegunda og verndun náttúruarfsins. Í áætluninni felast tækifæri og hættur hvað framagreind atriði varðar. Því er mikilvægt að Alþingi grandskoði hvernig ráðagert er að nýta það fjármagn sem er til ráðstöfunar og meta þörfina fyrir breytingar á tillögum samgönguráðherra. 

Ekki hvað síst er mikilvægt að meta áhrif áætlunarinnar á losun gróðurhúsalofttegunda (GHL), og markmið ríkisstjórnarinnar að draga verulega úr losun GHL frá samgöngum.  Landvernd minnir Alþingi á stefnu sem stjórnvöld hafa markað og tilgreind í viðauka við þetta erindi. Svo virðist sem ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til þessarar stefnumörkunar við undirbúning málsins.   

Auk framangreindra almennra athugasemda óskar stjórn Landverndar að koma eftirfarandi ábendingum á framfæri:

1. Samgöngur og losun gróðurhúsalofttegunda

Í áætluninni koma fram árangursmælikvarðar um markmið og aðgerðir. Þar segir m.a. að hlutdeild vistvænna bíla verði 10% við lok tímabilsins (árið 2024), að hlutdeild almenningssamgangna, hjólandi og gangandi í fjölda ferða innan höfuðborgarsvæðisins nái 30 %, að farþegum í innanlandsflugi fjölgi sem og farþegum með almenningssamgöngum á milli byggðarlaga. 

Stjórn Landverndar telur mikilvægt að rýna vel í framangreinda árangursmælikvarða og tengja þá þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett sér í umhverfis- og loftslagsmálum. Við skiptingu á þeim fjármunum sem áætlunin er að ráðstafa til samgöngumála á næstu fimm árum ber að hafa markmiðin sem leiðarljós .

Sérstaka athygli vekur að gert er ráð fyrir að einungis 10 % bílaflotans verði „vistvænn“ við lok tímabilsins. Getur verið að þetta sé í samræmi við áætlun stjórnvalda í loftslagsmálum? Við árslok 2019 má ætla að liðlega 5 % bílaflotans séu hreinbílar (annað orð sem stundum er notað fyrir vistvæna bíla).  Vaxi bílaflotinn almennt um 1 % á ári á næsta áratug og verði tækniframfarir hagstæðar má í besta falli ætla að losun frá vegasamtökum dragist saman 20% frá 2020 til 2030. Það er langt frá þeim markmiðum sem sett hafa verið. Hér er því augljóslega frekari aðgerða þörf. Nauðsynlegt er að nýta tækifærið sem samgönguáætlun býður. 

Tæplega 30 milljarða framlag til Borgarlínu mun væntanlega stuðla að markmiði um aukna hlutdeild almennings samgagna til lengri tíma litið.

Að öðru leyti virðist sem ekki sé gerð tilraun til að fylgja framsæknum markmiðum um aukna hlutdeild almenningssamgagna með fjárframlögum. Framlög til almenningssamgagna eru því sem næst óbreytt á tímabilinu, eða um 8 % af heildar fjárframlögum til samgöngumála, um 16.7 milljarðar króna yfir tímabilið sem heild . Um þriðjungur af þessu fé á að ráðstafa til höfuðborgarsvæðisins. Ef ætlunin er að auka hlutdeild almenningssamgagna verður að gera betur í þessum efnum. Með því næst fjölþættur ávinningur; minni útblástur mengandi efna, minna slit á slitlagi vega, minni losun GHL, minni þrengsli og tafir í umferðinni og lægri slysatíðni. Áhersla á fjölbreyttan ferðamáta fram yfir einkabíl hefur í för með sér mikinn lýðheilsuávinning jafnframt samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og ætti því að vera kappsmál stjórnvalda.  

Líklega má ná mjög miklum árangri með því að bæta almenningssamgöngur á milli byggðarlaga á Suðvesturlandi: samgöngur á milli Keflavíkur, Borgarnes, Akranes, Hvergerðis, Selfoss og höfuðborgarsvæðisins. Nú er þetta svæði eitt atvinnusvæði og því ætti hér að vera verulegt sóknarfæri fyrir almenningssamgöngur.

2. Náttúrvernd og vegagerð

Vegagerð getur valdið verulegum skaða á náttúruarfi þjóðarinnar. Óspillt náttúra er arfur sem verður sífellt verðmætari og jafnframt mikilvægur fyrir velgengni ferðþjónustu. Í samgönguáætlun eru tvær framkvæmdir sem stjórn Landverndar telur að muni valda alvarlegum skaða á náttúruarfinum. 

Báðar þessar framkvæmdar hafa á fyrri stigum verið í kastljósi Landverndar vegna neikvæðra umhverfisáhrifa.

3. a) Vegagerð um Gufudalssveit

Í tillögu ráðherra er gert ráð fyrir 7,2 m.kr. framlag til vegagerðar um Gufudalssveit með vegagerð um  Teigsskóg. Vegagerð um Teigskóg hefur verið mjög umdeild vegna neikvæðra umhverfisáhrifa. Birkiskógurinn í Teigsskógi er einstök perla.  Mótvægisaðgerðir með skógrækt annars staðar eru fráleit réttlæting.  Teigsskógur sýnir okkur fágætt samspil náttúrlegs skógar og fjörunnar fyrir neðan þar sem þessar tvær vernduðu vistgerðir spila saman. Þverun þriggja fjarða fylgir þessari framkvæmd og neikvæð reynsla af áhrifum þverunar fjarða á lífríkið ætti að vera víti til varnaðar. Vegagerð af þessu tagi er því dýru verði keypt. 

Stjórn Landverndar hefur um langt árabil reglulega sent frá sér athugasemdir og ábendingar við framkvæmdir við Vestfjarðaveg um Barðaströnd og hugmyndir Vegagerðarinnar um veglagningu á svæðum sem njóta verndar.  Við undirbúning málsins hefur komið fram að langbesti kosturinn fyrir umferðaröryggi, greiðar samgöngur og náttúruvernd er jarðgangnaleið, er sú sem á sínum tíma var skilgreind sem D2, eða jarðgöng.  Landvernd hefur um langt ára bili haldið þessum sjónarmiðum á lofti og lagði fram tillögu þessa efnis árið 2007.  Í tillögu Landverndar var lagt til að gerð yrðu jarðgöng undir Hjallaháls, Ódrjúgsháls og Skálanesfjall. Jafnframt var lagt til að jarðgöng yrði lögð undir Klettsháls, sem er helsti farartálminn á þessu svæði og ekki hefur verið skýrt hvers vegna það sé ekki forgangsframkvæmd að bæta úr honum. Þegar tilkynnt er um lokun vega vegna veðurs á þessu svæði er það oftast vegurinn um Klettháls sem er farartálminn. Það mun ekki breytast við vegagerð um Gufudalssveit.

Vissulega eru jarðgöng kostnaðarsöm framkvæmd. En þau munu koma til með að þjóna mörgum kynslóðum í framtíðinni og bæta öll lífsskilyrði til langs tíma. Stjórn Landverndar vill því árétta að þó þessi kostur sé ekki lengur með í áformum um vegabætur á sunnanverðum Vestfjörðum hefur þessi grundvallarafstaða samtakanna ekki breyst. 

Sú framkvæmd sem nú er lagt til að veitt verið fjármagni til mun valda miklum skaða á náttúru svæðisins og verður ekki sú samgöngubót sem sóst er eftir, þar sem mesta hindrunin á svæðinu, Klettsháls, verður eftir sem áður helsti farartálminn. Auk þess er þessi framkvæmd ekki í samræmi við vilja sveitarfélagsins Reykhóla, sem virðist hafa verið þvingað til að fallast á þennan valkost við breytingu aðalskipulags. 

Eins og fram kom við breytingu aðalskipulags á svæðinu er sú framkvæmd sem nú er ráðgerð, sú leið sem veldur mestu umhverfisáhrifum og styður síst við framþróun þéttbýlisins á svæðinu.  Sú spurning vaknar hver sé tilgangur faglegra ferla við áætlanagerð, mat á umhverfisáhrifum og valddreifingu milli ríkis og sveitarfélaga, ef hafa á niðurstöðu þessara ferla að engu.  Ríkisstofnun virðist hafa beitt sér af hörku gagnvart sveitastjórn til að fá hana til að taka órökréttar ákvarðanir þvert á niðurstöðu faglegra ferla. Samgönguáætlun á ekki að styðja við þannig vinnubrögð.

Landvernd hvetur því Alþingi til að staldra við og nota tækifærið til að leiðrétta þau mistök sem ríkisstjórnin og Vegagerðin virðist vera að gera í þessu máli. 

3. b) Vegur um Dyrhólaós og göng um Reynisfjall

Samkvæmt frumvarpinu er ráðgerð allt að 8 m.kr.  framlag til að gera veg um Dyrhólaós og göng um Reynisfjall.  Í skýringum segir að leitað verði leiða til að fjármagna hringveg um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli í samstarfi við einkaaðila. Jafnframt er veitt 20 milljónum kr. á ári til undirbúnings þessarar framkvæmdar.  Má af þessu ráða að ríkisjóði sé ætlað að greiða fyrir undirbúning einkaframkvæmdar.

Samtímis er gert ráð fyrir að veita 500 m.kr. til að lagfæra núverandi veg um Gatnabrún. 

Tillagan um jarðgöng felur í sér að hringvegurinn flyttist suður fyrir Geitafjall, um votlendi  Dyrhólaóss, um göng undir Reynisfjall og loks á fjörukamb Víkurfjöru sunnan Víkurþorps. Landvernd hefur undanfarin ár gert verulegar athugasemdir við þessa framkvæmd og byggir þá skoðun haldgóðum rökum. Fagstofnanir eru á sama máli. Til að mynda Umhverfisstofnun, sem við vinnu við aðalskipulag, sagist ekki sætta sig við veglínu rétt ofan Dyrhólaóss. Einnig umsögn Vegagerðarinnar sem sagði hrunhættu úr Reynisfjalli og óstöðugleika fjörunnar valda því að óábyrgt sé að velja vegarstæði á fjörukambinum í Víkurfjöru. Þá sagði Vegagerðin varla gerlegt að fara um svæði á náttúruminjaskrá meðan að aðrir góðir kostir séu fyrir hendi. Einnig kom fram að Vegagerðin telur að hægt sé að leggja öruggan veg með lagfæringum á núverandi vegi í Gatnabrún , enda mun sú leið vera nauðsynleg til framtíðar.  Við þetta má bæta að vegarlagning um fjöruna í Vík, sem talin er með fegurstu ströndum á Íslandi, og hefur verið útnefnd ein af 10 fegurstu fjörum heims, er afar varhugaverð vegna sjógangs og hækkandi sjávarstöðu . Þá eru fjörurnar beggja megin Reynisfjalls einn vinsælasti áningarstaður ferðmanna á Íslandi og talið er að liðlega milljón ferðmanna njóti útiveru þar árlega. Uppbyggður vegur sunnan Víkurþorps mun hafa neikvæð áhrif á hljóðvist, aðgengi að ströndinni, og möguleika til að njóta þar friðsældar með náttúruöflunum. Þá má reikna með að sjónræn áhrif yrðu skelfileg. 

Það vekur undrun að bæði séu ráðgerð strandvegur og jarðgöng á sama tíma og bæta á núverandi þjóðvegi um Gatnabrún. Hér virðist því í raun verið að gera tvöfalt vegakerfi sem engin þörf fyrir. Stjórn Landverndar hvetur því Alþingi að hugleiða alvarlega hvort það sé eðlilegt að setja göng um Reynisfjall í forgang með þeim neikvæðum áhrifum sem þau, og sú vegagerð sem þeim fylgir, hefur á náttúru og umhverfi. . Benda má á óstöðugleika Dyrhólaóss, sem flæðir langt uppá engjarnar með litlum fyrirvara er brimrót lokar fyrir útfall Óssins, sem gerist oft á ári aðallega að vetrinum. Því verður kostnaðarsöm uppbygging grjótvarnargarðs á bökkum Óssins nauðsynleg fyrir öruggan þjóðveg.  Ef marka má upplýsingar frá Vegagerðinni er hægt að ná fullnægjandi samgöngubótum með því að lagfæra veginn um Gatnabrún og því eru jarðgöng um Reynisfjall með tilheyrandi vegagerð bæði kostnaðarsöm og ónauðsynleg framkvæmd sem veldur miklum skaða á náttúru svæðisins og spillir upplifun ferðamanna.

Til fróðleiks má geta þess að deilur um vegstæði þjóðvegarins í Mýrdal eru ekki nýjar. Í Ísafold, 7 nóvember, 1900, 27. árg., 68. tbl., bls. 271, er sagt frá rannsóknarferð mannvirkjafræðings, hr. Sigurður Thoroddsen. Þar segir m.a. 

„En skömmu síðar, í áliðnum júní, fór hann austur í Vestur-Skaftafellssýslu út af ágreiningi þar eystra um vegarstefnu (ólæsileg tvö orð) verið veitt af landssjóði til póstleiðar milli Víkur og Steigarháls, og út af þeirri vegarlagningu skiftust héraðsmenn í tvo flokka. Annar hélt fram “nyrðri leiðinni”, sem svo er nefnd, upp Víkurdal; – hinum leist best á “syðri leiðina”, beint yfir Reynisfjall frá Vík. Erlendur Zakaríasson hafði farið austur, skoðað vegarstæðin fyrirhuguðu og litist betur á nyrðri leiðina. En héraðsbúar vildu ekki hlíta hans dómi og fóru þess á leit við landshöfðingja, að mannvirkjafræðingurinn væri látinn skera úr deilunni. Hann varð E.Z. sammála; syðri leiðin meðal annars brött og vegur dýr eftir henni. Að þeirri skoðun lokinni kom hann aftur til Reykjavíkur.“ 

4. Lokaorð

Stjórn Landverndar áréttar mikilvægi þess að stjórnvöld gæti samræmis í áætlunum sínum.  Samgönguáætlun endurspeglar ekki áherslur um samdrátt í losun frá samgöngum sem birtist í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og er það miður.  

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Landverndar

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri

Sækja umsögn


Viðauki I

Frá  bls. 27 í fylgiskjali við tillögu að þingsályktun um 5 ára samgönguáætlun

4.4. Markmið um umhverfislega sjálfbærar samgöngur. Verkefni til að ná þessu markmiði verði m.a.: 

1. Unnið verði í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Samgönguyfirvöld vinni að verkefnum aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum og orkuskiptaáætlunar í samræmi við aðkomu þeirra að þeim verkefnum. (Ábyrgð: SRN) 

2. Gerðar verði reglulegar greiningar á umhverfisvænum lausnum í samgöngumálum og hvernig þær geti nýst hér á landi. (Ábyrgð: SRN/Vegagerðin/SGS/Isavia) 

3. Greindar  verði  leiðir  til  að  stuðla  að  aukinni  umhverfisvitund  í  vali  á  ferðamáta.  (Ábyrgð: SRN/Vegagerðin/SGS/Isavia) 

4. Unnin verði greining á efnahagslegum hvötum til eflingar ræktunar orkujurta á Íslandi. (Ábyrgð: SRN/SGS) 

5. Bættar verði tengingar og flæði bifreiða milli umferðarljósa á álagstímum til þess að draga úr mengun á fjölförnum leiðum. (Ábyrgð: Vegagerðin) 

6.Yfirlit verði gert yfir mikilvægustu hluta samgöngukerfisins, mannvirki og staði sem ætla má að loftslagsbreytingar hafi áhrif á og úr því unnin áhættugreining og því viðhaldið. (Ábyrgð: Vegagerðin/Isavia) 

7. Stuðlað verði að því að farartæki sem veljist til notkunar í almenningssamgöngukerfinu  séu  eins  vistvæn  og  kostur  er.  Kanna  skuli  möguleika  á  notkun  vistvænna,  innlendra orkugjafa. (Ábyrgð: Vegagerðin) 

8. Innviðir til notkunar vistvænna orkugjafa í almenningssamgöngum verði til staðar og styðji við að ný umhverfisvæn tækni ryðji sér til rúms. (Ábyrgð: SRN) 

9. Þjónustutæki   á   flugvöllum   landsins   verði   knúin   umhverfisvænum   orkugjöfum.   (Ábyrgð: Isavia)

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

Stuðningur við friðlýst svæði í Vatnsfirði

Mikill skaði myndi hljótast af virkjun á friðlýstu svæði í Vatnsfirði. Gott væri ef Orkubú Vestfjarða sem er að fullu í eigu ríkisins léti af ...
Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.